22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (S. E.):

Sendimenn vorir á Spáni hafa ótvírætt lýst yfir því, að ef við nú samþykkjum ársfrestinn, eða veitum um eitt ár undanþágu á vínum að 21% frá bannlögunum, og samþykkjum svo afnám bannlaganna að því er vín að 21% snertir á næsta þingi, þá eigum við vís áfram bestu kjör. Viðskiftamálanefndinni þótti fyrstu símskeyti sendinefndarinnar í þessu efni ekki nógu skýr, og sendi stjórnin því símskeyti, sem nefndin samdi, þar sem hún spurðist fyrir um það, hvort bestu kjör væru ekki trygð, ef við nú samþyktum undanþágu 1 ár og samþyktum svo lög á næsta þingi eins og jeg nefndi áðan. Þessu skeyti svöruðu sendimennirnir játandi.

Það var ekki af neinu hiki, að jeg tók þetta ekki fram, heldur af hinu, að 12 manna nefndin vissi alveg um þessa niðurstöðu, og jeg vissi ekki annað en öllum hv. þingmönnum væri hún kunn.