22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. (Magnús Jónsson):

Mjer kom aldrei á óvart þó að menn væru ósammála hjer og þó að ræður flestra hnigju raunar í sömu átt að lokum. Og síst gekk jeg þess dulinn, að á mjer myndu standa ýms spjót, enda hafði jeg vendilega gert upp með sjálfum mjer afstöðu þessa máls og komist þar að sannfæringu, og það er aðalatriðið. Læt jeg mjer þess vegna í ljettu rúmi liggja aðkast það, er jeg hefi fengið.

Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) var sá, er fyrstur þeysti úr hlaði eftir að jeg hafði lokið minni ræðu. Og verður því ekki neitað, að jeg varð dálítið hissa á hans framkomu. Jeg hjelt, að þetta mál væri flestum viðkvæmara en svo, að um það væri rætt í þeim tón, sem hann flutti ræðu sína. Og jeg kunni langtum betur við að heyra þá rödd, sem hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) fram bar öfgar sínar með, og er hann þó eindreginn á móti nefndinni, heldur en hvernig hv. þm. N.-Ísf. talaði.

Jeg þóttist vita, að ýmsir hv. þm. væru þegar ráðnir í því að samþykkja frv. stjórnarinnar, en að nokkur þeirra hefði fest jafnmikla ást á því og kom fram hjá háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), það datt mjer ekki í hug. Hann beinlínis firtist við, að málið, svo göfugt mál, skuli vera afgreitt með afbrigðum frá þingsköpum, eða, eins og hann nefndi það, „að hespa málið af á 2 eða 3 dögum“. Jeg veit nú ekki betur en að þetta hafi tíðkast áður, að mál væru „hespuð“ af með afbrigðum, þegar búið væri að koma þeim í það horf, sem við mætti una. T. d. voru önnur eins stórmál og sambandslagamálið 1918 og stjórnarskráin 1920 afgreidd frá þinginu með afbrigðum frá þingsköpum. Þetta er ekki nema eðlileg afleiðing þess, sem búið er að vinna að undirbúningi hvers máls. En það hefði jeg kallað að „hespa málið af“ og það hefði verið óforsvaranlegt flaustur, hefði frv. stjórnarinnar verið afgreitt þegar í þingbyrjun að lítt rannsökuðu máli, eins og háttv. þm. sýnist helst hafa viljað.

En þar sem 12 manna nefnd hefir nú fjallað um þetta mál allan þingtímann og lagt mikla vinnu í það, og flestum þm. að meira eða minna leyti kunnugt um alla málavöxtu, þá finst mjer, að ekki sje af sanngirni mælt, að málið sje „hespað af“ í þinglokin. Nefndin hefir heldur engu þar um ráðið, að málinu yrði nú ráðið til lykta með afbrigðum. Hygg jeg, að þar um ráði meira, að þingið þyki nú nógu langt orðið og heimþrá sumra hv. þm.

Mjer finst, eins og hæstv. forsrh. (S. E.) tók rjettilega fram, að þjóðin eigi heimting á að sjá alt, sem gert hefir verið fyrir þetta mál, og alla þá rækt, sem við það hefir verið lögð, — og mun þá annað verða uppi á teningnum en að málinu hafi verið flaustrað af.

Jeg veit ekki, hvað hv. þm. (S. St.) átti við, að það hefðu sjer orðið vonbrigði að fá frestun í stað afnáms. Jeg veit ekki, að með þessu geti annað breyst en ef svo skyldi fara, að þetta eina ár kynni að gefa okkur möguleika til þess að neita kröfunni og við losnum við að afnema aðflutningsbannslögin síðar meir. Þess vegna finst mjer meira unnið með þessu ákvæði; en þetta getur kannske verið öðrum sorgarefni, en mjer þykir það þó betra, úr því sem við var að búast. Jeg legg ekki mikið upp úr þeim æsingum, sem sjerstaklega á að þyrla upp í þessu sambandi. Vilji menn það viðhafa, þá má um þetta mál tala og gera það að æsingamáli, en það má líka, hvað sem gert er í málinu.

Sami löggjafinn getur altaf breytt til. Þetta mál fer aldrei fram hjá þjóðinni. Hún segir sitt álit á einn eða annan hátt; það er satt og víst.

Það var víst eitthvað fleira, sem jeg hafði að athuga við ræðu hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), eins og t. d. um bannlagabrotin, en sleppi því nú, því mjer finst ástæðulaust að hefja hjer óþarfar deilur og lengja með því umr.

Þá sný jeg máli mínu til hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), sem er einn af okkur 12, en þó ekki að öllu leyti sammála eftir ræðu hans að dæma. Það var aðallega við greinargerðina, sem hann hafði ýmislegt að athuga, og finst mjer því, að hann sje nokkuð síðbúinn með athuganir sínar, því hefði hann verið fyr á ferðinni með þær, þá hefði hann eflaust getað komið ýmsum þeirra inn í greinargerðina.

Hann var líka að tala um, að greinargerðin væri eins konar „handaþvottur frammi fyrir þjóðinni“. Þetta mætti nú eflaust segja um fleiri greinargerðir og jafnvel öll frv., sem þingið neyðist til að setja. Hjer mun meira hafa ráðið að sameina alla í nefndinni, því mörgum var þetta nauðungarganga, þó að engin önnur fær leið væri fram undan.

Þá kem jeg að fiskiskýrslum hans um útflutning til Spánar. Þar vildi hann mjög rengja tölur þær, sem greinargerðin nefnir, og kallar tölur okkar í því efni handahóf eitt. En í upptalningu sinni nefndi hann ekki síðustu árin, eins og við höfðum gert. Og þó að þær skýrslur liggi ekki fyrir, þá mun það koma á daginn, að ekki skeiki miklu frá okkar áætlun, enda er betra að treysta kunnugra manna sögn en skýrslum, sem um leið eru notaðar án allrar aðgæslu. En einmitt framtal þessa háttv. þm. (Sv. Ó.) sýnir, hvaða einstakar vitleysur er hægt að fá út úr opinberum skýrslum með því að nota þær ranglega og án kunnugleika. Hann tínir sem sje upp úr hagskýrslum þann fisk, sem þar er talinn hafa farið til Spánar, en gætir þess ekki, að þetta er ekki nema nokkur hluti þess fisks, sem þangað fer í raun og veru hjeðan, nefnilega sá fiskur einn, sem sendur er beint á farmskírteini hjeðan til Spánar. En þá vantar allan þann fisk, sem gengur gegnum hendur erlendra milliliða. Sjeu þeir enskir, er hann í skýrslunum talinn til Englands o. s. frv., en fer alt um það beint til Spánar. Nú er það alkunnugt, að einmitt þessi ár, sem háttv. þm. vitnaði í, keyptu Englendingar mjög mikið af fiski vorum og fluttu beint til Spánar. Þetta er að fara falsi næst í útreikningum sínum. Og svo bætir háttv. þm. því ofan á að reikna gullpesetann á 72 aura, þegar hann er 115 danskir aurar, og þá náttúrlega því fleiri íslenskir aurar sem íslenska krónan stendur nú lægra danskri krónu. Hann reiknar krónuna með öðrum orðum í gullverði en slík gullöld er því miður ekki nú, og á sjálfsagt langt í land. Með svona aðferðum má fá svo að segja alt út, sem hugurinn girnist, en hvort það er heilbrigt, er annað mál.

Jeg segi fyrir mig, að jeg vildi óska, að þessi niðurstaða hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) væri rjett og að tap okkar gæti aldrei orðið nema 4–5 miljónir. Ef við gætum hafið tollstríð við Spánverja án þess að tapa meiru en þessu, er jeg hræddur um, að jeg vildi skoða huga minn betur áður en jeg gengi að kröfu þeirra. En þessi staðhæfing kemur ekki að neinum notum. Það, sem við nefnum í greinargerðinni, er hið raunverulega ástand. Um minni upphæð en 12 miljónir getur ekki verið að ræða, eins og nú standa sakir.

Hann sagði, að við værum að selja þjóðarmetnaðinn. Því neita jeg algerlega. Annars mætti benda á það, frá hans sjónarmiði, að úr því hann ætlar að ganga að þessu, þá ætlar hann, eftir sínum eigin orðum, að selja þjóðarmetnaðinn líka. Sá einn er munurinn, að hann ætlar að selja hann hjer um bil þrefalt lægra verði en við. En svo mætti spyrja: Hvernig færi um þjóðarmetnaðinn, ef við yrðum fjárhagslega ósjálfstæðir? Hjer er um að ræða, hvort þjóðarmetnaðinum er hættulegra, að við sláum undan í þessu atriði eða höldum strikinu, hvað sem tautar, og siglum skipinu til brots.

Hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) hafði góð orð um að taka brtt. sína til baka til 3. umr., svo jeg get sparað mjer að sinni að ræða um hana. Annars var það ekki margt í hans ræðu, sem jeg þurfti að athuga, nema það, að Spánverjar heimtuðu frjálsan innflutning. Það er ekki rjett. Spánverjum er sama hvort við flytjum inn vínið frá þeim eða ekki, og þeim er sama hvort við kaupum það eða ekki. Og þeir eru allra síst að „spekulera“ í því, sem ofan í okkur kann að fara. Þetta er hjá þeim „principsmál“, og þeir eru fúsir að ganga inn á, að við setjum reglur um söluna.

Hitt er jeg hræddur við, að spá sama hv. þm. (Gunn. S.) rætist, að ekki verði betra að ári liðnu, en jeg segi: „frestur er á illu bestur“. Við getum neitað að ári liðnu, ef við sjáum okkur hag í því. Þetta eina ár er síðasta hálmstráið okkar bannmanna til þess að geta kannske bjargað málinu, að þurfa ekki nú þegar að afnema lögin.

Háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) talaði gegn þessu máli, eins og von var, þar sem hann greiddi atkv. á móti stjórnarfrv. og einnig því, að þetta frv. fengi að ganga til 2. umr. Málgagn flokks hans hefir og tekið þannig í málið, að ekki væri annars að vænta af þessum háttv. þm.

Hann sagði, að ef fiskur vor væri nú tolllaus og ætti að leggja á hann þann lágmarkstoll, sem nú er, þá mundi talið verða þjóðinni ómögulegt að bera hann, en nú yrði hans ekki vart. Þar til er því fyrst og fremst að svara, að þm. veit ekkert um þetta. Það er einmitt líklegt, að fiskur vor ætti ennþá betri markað og meiri á Spáni, ef hann væri tollfrjáls. En auk þess er dæmið rangt hjá háttv. þm. (J. B.). Lágmarkstollurinn snertir allan fisk jafnt, og það er skýrt tekið fram í greinargerðinni, að sá tollur lendi á neytendunum. En ef tollurinn á fiski vorum er hækkaður upp í 96 peseta, en annar fiskur nýtur lágmarkstolls, eða 32 peseta, þá er okkar fiskur algerlega settur aftur úr í samkepninni. Þetta dæmi háttv. þm. nær þá fyrst nokkurri átt, ef hjer væri að ræða um jafna tollhækkun á öllum fiski; en svo er ekki.

Þessi háttv. þm. sagði, að ekki væri mikil hætta á ferðum. Jeg álít hættuna gífurlega; annars hefði jeg aldrei slegið undan. Hann sagðist halda, að við mundum hafa sigrað í tollstríði við Spánverja. En þetta eru aðeins orð. Og þetta mál er svo alvarlegt, að hjer nægja ekki staðlausu stafir, heldur þarf þá að sýna fram á það með fullkomnum rökum, að Spánverjar geti ekki komist af án okkar. Í samanburði við Norðmenn stöndum vjer þar miklu ver að vígi, og hafa þeir þó átt fullerfitt uppdráttar í sínum samningum. Þeir flytja allmikið inn frá Spáni, en við sama sem ekkert. Og fyrir þeim er fiskurinn ekki nándarnærri jafnstórt atriði og fyrir okkur. Og þó segja megi, að Spánverjum þyki fiskur vor góður, þá er hann þeim engin þjóðarnauðsyn.

Hv. þm. talaði um, að við hefðum átt að nota meira hjálp Dana í þessu máli. Mjer er nú, satt að segja, ekki ljóst, hvernig við hefðum átt að nota hana meira en gert hefir verið í málinu. Slíkt hefði ekki verið hægt. Þeir hafa gert okkar málstað að sínum, og meira var ekki hægt. Að fara að reyna að fá yfirlýsingu þeirra um það, að þeir mundu standa með okkur, þó að við neituðum og endurgreiða þá t. d. Færeyingum úr ríkissjóði þann halla, sem þeir hefðu af hámarkstolli, það var ekki hægt, nema beinlínis beiðast ölmusu af þeim, en slíkt tel jeg að varla hefði verið okkur sæmilegt, sem nú höfum lagt alt kapp á að sigla sem mest vorn eigin sjó og afla oss sem mests sjálfstæðis.

Þá áleit hann, að betra hefði verið að afnema bannlögin alveg, og værum við þá óbundnir af öllum frekari kröfum Spánverja. Jeg hefi einmitt yfirvegað þetta atriði mjög vandlega. Mjer finst, að ef við á annað borð látum undan fyrir kúgun, þá eigum við aðeins að láta það, sem krafist er, og ekkert meira. Jeg vil því alls ekki að óþörfu leiða þá bölvun yfir þjóðina að veita öllu víni óhindrað inn í landið. Jeg fyrir mitt leyti er ekkert hræddur um bannmálið. Jeg veit, að bannið kemst hjer á aftur um leið og Spánverjar slaka til.

Það þarf ekki mikið hugrekki til að greiða einn atkvæði á móti þessu máli; því fylgir lítil ábyrgð. En ef úrslit málsins hefðu oltið á atkvæði háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.), þá hefði hann þurft hugrekki til að greiða þannig atkvæði, og jeg leyfi mjer að efast um, að hann hefði þá gert það. Og ef hann hefði gert það, hefði hann áreiðanlega ekki loftað ábyrgðinni.

Þá kem jeg að háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.). Hann taldi það óþarfa krókaleið að gefa út konungstilskipun um þetta mál. Þetta er aðeins formsatriði, sem jeg geri ekkert úr og sem mjer finst aldrei geta skift miklu máli. En jeg skal athuga þetta mál betur til 3. umr. og svara því þá skýrar.

Þá var það annað atriði, sem þessi hv. þm. lagði mikla áherslu á, og það var, að tryggilega væri frá því gengið í samningunum við Spán, að við, þegar fresturinn væri útrunninn, ættum kost á bestu kjörum hjá Spánverjum áfram, ef við gengjum þá að þessum sömu kröfum, sem þeir hafa nú sett okkur.

Frá því fyrsta, að sendimennirnir voru sendir til Spánar, hefir það ávalt og hvað eftir annað verið tekið fram við þá, að svo væri hagað samningunum, að við ávalt ættum kost á bestu kjörum hjá Spánverjum. Síðast rjett áður en frv. þetta kom fram í þingið, símaði stjórnin og spurði sendimennina, hvort þetta væri trygt, og fekk hún játandi svar. En til frekari tryggingar bað viðskiftamálanefnd stjórnina einnig að senda fyrirspurn frá nefndinni um þetta efni. Svarið var: „Já við spurningu nefndarinnar“.

Þegar nú þetta er margyfirlýst frá sendimönnunum, og vjer treystum því, að slíkir menn viti, hvað þeir eru að segja, þá ætti þetta atriði að vera bókstaflega trygt.

Hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) spurði ennfremur, hvort nefndin mundi hafa talið rjett að hleypa málinu í strand á fyrra stigi þess. Þessu get jeg ekki svarað fyrir nefndarinnar hönd. En fyrir mitt leyti er jeg ekki á móti því, að rjett hefði verið, að fresturinn í fyrra hefði verið látinn renna út og sjá, hvernig hámarkstollurinn reyndist. Jeg hygg málið ekki fullprófað, úr því því var aldrei hleypt í strand. Hitt er annað mál, að nú er slíkt ómögulegt að mínum dómi, eftir að búið er að reyna samninga aftur og aftur.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) er jeg búinn að svara að mestu leyti, um leið og jeg svaraði háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.), og svo skýrt sem jeg get, og hygg jeg þar með fallna úr sögunni ástæðu hans fyrir því að víta ástæðu nefndarinnar fyrir að hafa stungið stjórnarfrv. undir stól.

Eitt, sem þessi háttv. þm. (J. Þ.) hafði á móti frv. nefndarinnar, var það, að ef það yrði samþykt, mundi útgerðin ekki aukast á þessu ári, af ótta við, að tollurinn mundi hækka á næsta ári. En jeg skil ekki í öðru, ef þetta frv. verður nú samþykt hjer með miklum meiri hluta, að þá megi fulltreysta því, að þm. sjeu ekki þeir vindhanar að standa ekki við þetta á næsta þingi, ef kringumstæður verða hinar sömu og nú. Þá sýnir og reynslan, að þessi ótti er ástæðulaus, því að einmitt nú, áður en nokkur vissa var fengin um úrslit málsins, hefir útgerðin verið aukin að talsverðum mun. Aðra ástæðu gegn frv. taldi hann þá, að mjög mikið áfengi yrði flutt inn á þessu ári, vegna þess að menn væru hræddir um, að frelsið yrði aftur af þeim tekið. Landseinkasalan á að sjá um það, að slíkt komi ekki fyrir, því jeg hefi ekki skilið það svo, að stjórnin ætti að sjá um, að allir gætu verið altaf fullir, heldur aðeins að næg vín væru í landinu til meðala.

Auðvitað verður mikið deilt um þetta mál á þessu ári. Hjá því verður ekki komist í landi þingræðis og þjóðræðis. Og þó margt kunni að koma fram ilt og skaðlegt í þeim deilum, þá ættum við að treysta því, að hið góða sigri að lokum. Og víst er um það, að þó stjórnarfrv. hefði verið samþykt, þá hefði ekki með því verið komið í veg fyrir deilur um málið.