22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (S. E.):

Jeg gat þess áðan í svari mínu, að jeg myndi fara eftir ákvæðum frumvarpsins í þessu efni, og vísa jeg til þeirra orða, sem jeg vísaði til í fyrri ræðu minni. Mjer virðist svo, sem háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) geti ekki heimtað, að stjórnin hafi reglugerðarákvæðin tilbúin, jafnmiklu annríki og hún hefir staðið í. Og þó um þau hafi verið hugsað nokkuð, þá er lítt hyggilegt fyrir stjórnina að slá nokkru fram um fyrirkomulagið fyr en hún er búin að gagnhugsa það. Annars virðist mjer, að háttv. þm. hafi enga ástæðu til að efast um, að stjórnin muni gæta sem mestrar varúðar í þessu máli á alla vegu.