22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (S. E.):

Mjer þykir furðu merkilegt, að því skuli vera haldið fram, að jeg hafi gefið óljós svör. Jeg sagði, að það hefði komið skilyrðislaus yfirlýsing frá nefndinni um, að bestu kjör fengjust áfram, ef árs-suspension væri samþykt nú og svo lög á næsta þingi um afnám bannlaganna að því er vín að 21% snertir.

Jeg hefi ekki skeytið við hendina nú, enda hefði það sennilega lítið stoðað. Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hefði þá bara sagt, að í því væri prentvilla. Háttv. nefnd hefir líka sent fyrirspurn til sendinefndarinnar og fengið sama svar.

Þykir mjer þessi efasemd alleinkennileg og er jeg sannfærður um, að háttv. 3. þm. Reykv. hefir ekki að jafnaði átt að sæta svona skýrum svörum frá stjórn þeirri, er hann studdi.

Mjer dettur ekki í hug að efa orð sendiherrans eða nefndarinnar yfir höfuð. En annars get jeg sent skeyti til utanríkisráðherrans danska, sem formlega annast samningana við Spánverja, og spurt um, hvort þetta sje rjett. Það kann að vísu að tefja tíma þingsins, en þó er ekki víst nema svar geti komið á tveim dögum.

Það var fyrir nokkru byrjað að ala á tortrygni um þetta atriði, og nú virðist eiga að halda því áfram, en hverjum verður það til góðs?

Jeg þykist vera alveg eins góður bannmaður og hver annar, en jeg hefi samt ekki viljað taka á mig þá ábyrgð að leggjast á móti frv., og með því stofna sjávarútveginum í voða. Þó jeg hafi trú á banninu, hefi jeg samt fallist á þetta frv., og ætti það að vera sönnun fyrir því, að jeg hafi gætt allrar varúðar.

Það hefir verið margtekið fram, að sendiherrann og hinir aðrir nefndarmenn hafi gert alt, sem í þeirra valdi stóð, og þetta er því ekki annað en tortrygni, en jeg mun samt spyrja utanríkisráðuneytið — ekki mín vegna, heldur til þess að friða þær raddir eða rödd, sem heyrst hefir um, að þetta væri ófullnægjandi.