24.04.1922
Neðri deild: 54. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jón Baldvinsson:

Jeg geri að vísu ráð fyrir því, að ekki muni þýða mikið að ræða þetta frv. úr þessu, en jeg vildi þó enn gera nokkra grein fyrir afstöðu minni til þess.

Jeg hefi orðið var við það, að sumir hafa þóst hneykslast á því, að jeg skyldi halda svo fast í aðflutningsbannlögin, svo mjög sem jeg teldi þau vera brotin. En þetta ætti þó engum hneykslum að þurfa að valda. Allmörg af þeim lögum, sem mikið eru brotin, eru talin jafnnauðsynleg fyrir því, og dettur engum í hug að afnema þau, og menn geta verið jafnsannfærðir um nauðsyn þeirra, þótt þeir viðurkenni, að þessi brot eigi sjer stað. Engum mun t. d. detta í hug að afnema lögin, sem banna innlendum og útlendum botnvörpuskipum að fiska í landhelgi, þó að þau sjeu brotin og margir sökudólgarnir sleppi án þess að þeim sje refsað fyrir. Hitt vilja menn heldur, sem eðlilegt er, að aukin sje gæslan og eftirlitið með því, að lögin sjeu haldin. Það verð jeg þó að taka fram, að mjer finst hjer nokkuð ólíku saman að jafna, landhelgisgæslunni og eftirlitinu, sem verið hefir með ólöglegum innflutningi og sölu áfengis. Það er viðurkent, að mjög mikil rækt sje lögð við gæslu landhelginnar og hún stunduð af mikilli skyldurækni, eftir því sem hægt er, af eftirlitsskipunum, sem til þess eru notuð. Alt öðruvísi er því farið með banngæsluna; það er viðurkent, að þeirri gæslu og eftirliti sje svo ábótavant, að það sje tiltölulega áhættulítið að brjóta bannlögin. Enda sýnir reynslan merkin. Er það ekki daglegt brauð hjer í Reykjavík — og annarsstaðar sennilega líka —, að drukknir menn reika um göturnar, jafnvel hópum saman? Í sumum bæjarhlutum er jafnvel talið auðveldara að ná í áfengi heldur en aðra eins nauðsynjavöru og vatn.

Er það máske ekki alkunnugt, að ekki svo fáir menn gera sjer það að atvinnu að selja vín ólöglega? Eftirlitið með því, að bannlögin sjeu haldin, er hjá embættismönnum þjóðarinnar, en landsstjórnin hefir aftur eftirlit með starfrækslu embættismannanna. — Hvað hefir nú landsstjórnin á undanförnum árum gert til þess að herða á eftirlitinu með bannlögunum? Hefir þó ekki vantað, að eftir þessu væri int við hana, bæði hjer á þingi og annarsstaðar. En þrátt fyrir það, þótt þetta eftirlit sje vanrækt, og þrátt fyrir þá mjög svo stóru galla á framkvæmd bannlaganna, er jeg samt sem áður sannfærður um, að aðflutningsbannslögin gera mikið gagn. Þau forða mjög mörgum manninum, einkum almenningi, frá því að eyða fje sínu í áfengi og spilla heilsu sinni og starfsþoli með misnotkun þess. En jeg held líka, að hægt sje að hafa eftirlit þeirra svo gott, að þau komi að fullu gagni. Og það hefði jeg talið miklu heppilegra verkefni fyrir þetta þing og þjóðinni hagsælla en að draga nú úr lögunum með þessu frv., sem hjer liggur fyrir, og sem í framkvæmdinni mun algerlega gera þau gagnslaus og eftirlit alt þýðingarlaust eða þýðingarlítið. Aðflutningsbannslögin eru flóðgarður, sem þjóðin hefir reist sjer til varnar því, að áfengisflóðið velti inn yfir þjóðina. En vökvinn er áleitinn. Þjóðin hefir sett embættismenn sína til þess að gæta þess, að ekki seitli í gegnum garðinn. Og fyrir slælegt eftirlit seitlar nú orðið víða í gegnum þennan garð. En frv., sem hjer er til umræðu, það gerir ráð fyrir því, að skarð sje rofið í garðinn og áfengið látið flóa þar inn. Jeg býst við, að svo muni fara með þennan varnargarð í áfengismálinu, að þegar stórt skarð er í hann rofið, muni þar fossa inn áfengi með svo miklu afli, að garður sá jafnist algerlega við jörðu og að við stöndum eftir eins að vígi — og þó öllu ver — eins og við stóðum áður en aðflutningsbannlögin voru sett.

Háttv. þingmenn, sem telja sig bannmenn, segjast láta undan í þessu máli af fjárhagsástæðum, að sjávarútvegurinn muni ekki þola það, ef hámarkstollurinn kemur á íslenska fiskinn á Spáni. Og þá gera þeir ráð fyrir því versta, sem fyrir getur komið, að það verðum við einir, sem sætum þessum refsitolli. Nú er þó öllum vitanlegt, að Norðmenn eru undir hið sama seldir, ennþá sem komið er, og af því, að þeir hafa þverskallast við kröfum Spánverja nú í heilt ár, er naumast ástæða til að ætla, að þeir muni ganga að. Og ef svo væri, að þeir nytu ekki betri tollkjara en við á Spáni, þá skilst mjer, að fjárhagsvoðinn sje eiginlega ekki orðinn neinn fyrir okkur, þó að fylgt sje röksemdafærslu háttv. frsm. í þessu máli og því, sem í nál. stendur. Íslenski saltfiskurinn er besti fiskurinn og eftirsóttastur á Spánarmarkaðinum. Svo að þrátt fyrir það, þótt hann nyti eitthvað erfiðari tollkjara, eru ekki líkur til, að Spánverjar mundu hætta að kaupa hann. Það má náttúrlega lengi þrátta um það, hvort við verðum fyrir fjárhagslegum skaða eða ekki, og lengi deila um, hve mikið það tjón mundi verða talið í krónum. En hve mjög þetta alt er á reiki, má marka af þeim tölum, sem tveir þm. úr viðskiftamálanefndinni hafa borið hjer fram, og það var hvorki meira nje minna en nokkrar miljónir króna, sem þeim bar á milli í útreikningum sínum.

Á síðasta þingi voru gerðar breytingar á tolllögunum frá 11. júlí 1911. Þar er meðal annars kaffitollurinn hækkaður um 100%, úr 30 aurum upp í 60 aura á hverju kg. Sá tollur lætur líklega nærri því að vera lítið eitt lægri en hámarkstollurinn á kg. af fiski, sem fluttur er til Spánar, þegar gengi beggja landa er reiknað eins og það var fyrir stríðið. Enginn var víst í vafa um það, að það vorum við, sem greiddum þennan toll að öllu leyti úr eigin vasa, en það kæmi ekki niður á framleiðendum vörunnar í Brasilíu og Java, eða hvar þeir nú eru. Mjer kann nú að verða svarað um þetta, að það gangi einn og sami tollur yfir alt það kaffi, sem inn sje flutt, og því sje það ekki sambærilegt. En við skulum nú aðeins hugsa okkur, að tollurinn hefði verið hækkaður um 100% á þeim bestu kaffitegundum, sem hingað flytjast, eða upp í 60 aura, en hefði verið lækkaður niður í 20 aura á lökustu tegundunum. Halda menn nú, að það hefði verið nokkur verulegur munur á því, sem minna hefði verið keypt af betri tegundunum, þó þær hefðu orðið tollmismuninum og eðlilegum verðmismun dýrari? Jeg hygg ekki, eftir því, sem jeg þekki til, að nokkuð teljandi hefði dregið úr kaupum á hinum betri tegundum. Þegar alt er eðlilegt, er dýrari vara notadrýgri, ljúffengari eða að einhverju leyti kostameiri en sú vara sömu tegundar, sem ódýrari er. Og þannig þolir okkar fiskur að vera dýrari fyrir þá kosti, sem hann hefir fram yfir samskonar vöru annara þjóða, og mundi verða keyptur samt.

En þó að nú svo verði, að við yrðum fyrir nokkru peningalegu tjóni af því að halda fast við bannlögin, þá gæti jeg sætt mig við það; jeg met það mikils, að við getum haldið víninu frá þjóðinni, en jeg ætla ekki að fara að meta það til fjár, hvorki það, sem við eyddum í bein kaup á víninu, og því síður það böl, sem af misnotkun vínsins mundi leiða, þegar alt flóir hjer í áfengi. Jeg skal fúslega játa, að það er leitt, að menn eru svo skamt á veg komnir, að slík lög skuli þurfa að setja, fyrir jafnmeinlausum hlut eins og vínið getur verið og er, þeim sem með kunna að fara, ef enginn misnotaði það. En öll lög eru nú að meira eða minna leyti skerðing á athafnafrelsi. Og jeg hefi illan beyg af því, að okkur sje jafnvel meiri hætta búin nú af misnotkun vínsins, ef því verður veitt yfir landið, og svo auðfengið eins og þetta frv. gefur ástæðu til að ætla, heldur en áður, þegar engin baunlög voru hjer í landi. Á mjóum þvengjum læra hundarnir að stela, og jeg óttast, að innflutningur og notkun þessara svokölluðu veiku vína muni verða til þess, að ofdrykkja fari stórvaxandi og verði okkur þjóðarböl, samfara því, að hinir sterkari drykkir munu á eftir fara, því við höfum með því að samþykkja þetta frv. mist þá „mórölsku“ fótfestu, sem við nú höfum í bannmálinu, og hljótum að hrapa alla leið niður þangað, sem við vorum áður en bindindis og bannstarfsemi okkar byrjaði. —

Jeg hefi ekki minst á það, hvað um okkur verður sagt af mönnum úti í frá. Þessu máli er veitt mikil athygli víða um heim. Og það verður sjálfsagt ekki alt á eina lund. Hitt veit jeg, að mjög margir menn, vafalaust mörgum sinnum fleiri en okkar fámenna þjóð, hafa mjög mikla samúð með bannstarfsemi okkar og vildu sjálfsagt styðja okkur í baráttunni. Jeg geri alls ekki lítið úr þessu, en afstaða mín í þessu máli mótast alls ekki af því, hvað um okkur yrði talað eða skrifað, heldur af því, sem jeg tel þjóðinni happadrýgst að öllu athuguðu.

Að lokum vil jeg spyrja háttv. frsm. og aðra fylgismenn þessa máls: Er með frumvarpi þessu átt eingöngu við náttúrleg vín, það er að segja vínberjavín, sem inn má flytja, eða eiga hjer undir að koma öll þau vín líka, með og undir þessum styrkleika, 21%, sem búin eru til úr spíritusblöndu? Þessa hefir ekki verið getið í framsögu, hvað átt sje við í þessu efni, en það er þó ef til vill ekki með öllu þýðingarlaust.