24.04.1922
Neðri deild: 54. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Gunnar Sigurðsson:

Jeg þarf ekki að tala langt mál. Við 2. umræðu lýsti jeg því, hvers vegna jeg bar fram brtt. á þskj. 276 og 279. Nú tel jeg að svör þau, sem jeg hefi fengið, sjeu nægileg til þess, að jeg taki brtt. aftur, þótt jeg geri það nauðugur.

Háttv. viðskiftamálanefnd hefir lýst því yfir, að bestu kjör sjeu trygð, þótt endanleg ákvörðun sje ekki tekin þegar. Það verður svo að vera, að þetta frv. verði samþykt, en ekki tel jeg neinar líkur til, að neitt breytist það á einu ári, er geri þessa leið heppilegri. Þetta er aðeins hálmstrá, eins og háttv. frsm. (M. J.) viðurkendi sjálfur. Hreinast hefði því verið að segja þegar í stað já eða nei. Að því leyti get jeg virt framkomu háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.), þótt jeg vitanlega sje honum alls ekki sammála. En þvernauðugur greiði jeg atkvæði með frv. í þessari mynd.