24.04.1922
Neðri deild: 54. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. (Magnús Jónsson):

Jeg þarf litlu að svara. Um þá hlið ræðu háttv. samþm. míns, 2. þm. Reykv. (J. B.), sem að banninu snýr, þarf jeg ekki að ræða. Við höfum verið og erum enn sammála um þá hluti.

En mjer þótti vænt um, að hann gaf mjer tilefni til að minnast á atriði, sem jeg hafði gleymt. Jeg hafði að vísu heyrt það, að misskilja mætti það, sem í frv. stendur, og halda að það ætti við hverskonar áfengisvökva sem væri, ef hann væri þyntur svo, að eigi væri meira í en 21% af vínanda. Þetta hefir víst engum í nefndinni dottið í hug. „Vín“ þýðir í sinni rjettu, þröngu merkingu orðsins aðeins náttúrlegt vín, vínberjavín, og það merkir það hjer. Sjest þetta best á því, hvar styrkleikatakmörkin eru sett, einmitt við 21%, sem er sá styrkleiki, er viss flokkur náttúrlegra vína hefir í eðlilegri mynd sinni, og á þann flokk leggja Spánverjar mesta áherslu. Það er vínyrkjan, en ekki spíritusbrensla, sem þeir eru að berjast fyrir.

Háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) gerði lítið úr muninum á að samþykkja þetta frv. eða endanlegt afnám bannlaganna. Það er rjett, að „praktiskt“ talað mun þetta, því miður, vera líkt, en „teoretiskt“ er munurinn talsvert mikill.