23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

1. mál, fjárlög 1923

Þórarinn Jónsson:

Jeg hygg, að hæstv. forsrh. (S.E.) hafi fyrstur orðið til að taka í strenginn á móti því að færa niður laun sendiherrans. Hann tók fram, hversu þetta embætti væri nauðsynlegt fyrir þjóðina, er hún tæki utanríkismálin að sjer. Skildi jeg hann svo, að embættið ætti að vera eins konar skóli og væri mikils vert að ala menn upp til slíkra starfa. En hann gat ekki um, að þjóðinni hefði enn sem komið er komið þetta embætti að nokkru haldi, og mun það stafa af því að sá maður, sem gegnir því, sje enn á uppvaxtarárunum. En ef þetta embætti á eingöngu að vera uppeldisstofnun þangað til þjóðin tekur að sjer utanríkismálin finst mjer það nokkuð dýrt.

Álit mannsins sjálfs, sem gegnir stöðunni, tel jeg ekki mikils vert í þessu sambandi, því það mun varla finnast nokkur maður hversu lítilfjörlegt embætti eða starf, sem hann hefir, að honum sjálfum þyki það ekki vera mikils virði.

Jeg skal aðeins taka hjer eitt dæmi til sönnunar því, að áhrif þessa embættis eru enn ekki orðin víðtæk. Jeg sá brjef frá Íslendingi, sem kom til Parísar og ætlaði að setjast þar að. En þar kannaðist enginn við hið íslenska ríki, og fjekk hann ekki að setjast þar að sem íslenskur borgari, heldur sem danskur. Satt að sega veit jeg ekki, hvernig á að skilja þetta. Auðvitað hefir maðurinn leitað á náðir danska sendiherrans á staðnum, — en hann þá ekki einusinni vitað, að til var íslenskt ríki. Áhrifin virðast því ekki stórkostleg enn.

Þá sagði hv. forsætisráðherra, að ef tillagið yrði lækkað, mundi embættið falla niður. Mun jeg minnast á það atriði síðar.

Ýmsir aðrir hafa komið með mótbárur gegn þessari till., og þar á meðal háttv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.). Kvaðst hann ekki sjá sjer fært að greiða atkv. með till., af því að hann vildi ekki leggja embættið niður. En till. fer alls ekki fram á neitt slíkt. Þegar embættið var stofnað, var þessi upphæð, sem við ætlumst til að veitt verði, talin nægileg, og ástæðurnar hafa ekki breyst svo ákaflega mikið síðan þá.

Þá talaði háttv. 1. þm. Skagf. (M.G.) um hversu þýðingarmikið þetta embætti væri. Skal jeg ekki fara fleiri orðum um það en jeg hefi þegar gert. En jeg skal geta þess að það er engin furða, þótt þessum háttv. þm. (M.G.) þyki embættið nauðsynlegt, því hann er nýskroppinn út úr stjórnarráðinu og það er segin saga, að þeim finst þar, að þeir hafi aldrei nægilega marga menn sjer til stuðnings. Það er svo þægilegt að geta skotið skuldinni á aðra, ef eitthvað, sem framkvæma átti, hefir eigi komist í verk eða mistekist.

En hversu mikil viðbrigði eru ekki síðan aðeins var einn ráðherra, enginn sendiherra og engar nefndir! Þá virtust engir erfiðleikar á að koma störfunum af, og jeg held, að allur þessi stuðningur, sem stjórnin nú hefir stuðli eingöngu að því að draga úr áhuga hennar og ábyrgðartilfinningu og geri hana aðgerðalausari en ella.

Sami háttv. þm. (M.G.) taldi það og mikinn kost, að maður þessi sæti í Danmörku; við það sparaðist — ef svo má að orði kveða — flutningskostnaður á honum. Það er að vísu nokkurs vert, en það etur sig nokkurnveginn upp er ekki tjáir að senda hann einan, heldur einn eða fleiri til viðbótar.

Þá gat háttv. þm. (M.G.) um, að sendiherrann hefði verið sendur til Noregs og Svíþjóðar. Þykir mjer það ekki mikil saga og býst jeg við, að honum hafi verið borgað fyrir þær ferðir, máske án tillits til hans embættis, enda hefi jeg ekki fengið neinar sannanir fyrir, að á þessum sendiferðum hafi græðst meira en símskeyti eða brjef frá stjórninni hefði getað áorkað.

Þá talaði háttv. þm. Dala. (B.J.) um fjárhaginn og þótti jeg hafa litið of svart á hann, er jeg sagði, að skattabyrðarnar væru orðnar meiri en gjaldþol þjóðarinnar gæti borið.

Jeg skal ekki fara að svara hjer spádómum hans. Það er gott og blessað, ef þeir rætast, en yfirleitt álít jeg þá ekki mikils virði. Hann sagðist hafa þá yfirburði yfir aðra menn, að hann væri núi farinn að sjá, rjett eins og hann hefði verið fæddur blindur. Hefir þessi háttv. þm. (B.J.) oft hælt sjer meira.

Tal hans um, að fiskurinn gæti dáið í sjónum, er alls ekki svaravert og á ekkert skylt við þetta mál. Getur hann gert sjer gælur um þetta við þá í eintali við sjálfan sig.

En hvað þessi háttv. þm. (B.J.) hefir áður álitið um laun sendiherrans, skal jeg stuttlega minnast á.

Um það leyti, sem verið var að stofna þetta embætti, þá gerði hann ráð fyrir, að embættið kostaði 18 þús. kr., þ. e. 12000 kr. laun og 6000 kr. húsaleiga og risna. Þá komst hann svo að orði:

,,En hafi hann 18 þús. kr., þá getur hann lifað svo, að hann þurfi ekki að verða sjer nje landinu til skammar“ (Alþt. 1920, B. 372). Og síðar í sömu ræðu segir hann: „En þeim, sem álíta sendiherralaunin of lág, skal jeg segja það, að fyrir þessa upphæð, sem hjer er um að ræða, skal jeg taka að mjer að rækja þetta starf og verða hvorki landi nje lýð til skammar“.

Hvernig fer nú háttv. frsm. (B.J.) að koma þessu heim og saman. Nú hafa launin verið hækkuð upp í 20 þúsund kr. og sendiherrann telur sig þurfa 36 þús. kr. Er þetta þá ekki útreiknað sem eitt spor í áttina festa nú 20 þúsundirnar og hækka síðan á næstunni upp í 36 þús. Nú er allur kostnaður af embættinu orðinn 44 þús. kr. á ári, en yrði þá 60 þúsund. Nú er alt nefnt smáupphæðir, og jeg býst við, að svo verði um þessa tölu. Fyrir þessa upphæð gætum vjer þó brúað eina manndrápsá á hverju ári.

En jeg tel nú alveg óhætt að samþykkja brtt. okkar, enda þótt hún yrði til þess, að þessi sendiherra, sem nú er, treysti sjer ekki til að sitja í embættinu með þessum launum, sem nú eru; því að jeg býst við, að háttv. þm. Dala. (B.J.) hafi enn sama álit á sjer og fyrir tveim árum, og muni hann þá taka embættið að sjer landsins vegna, ef aðrir fást ekki til þess.

Jeg vil svo ekki orðlengja frekar um þetta og býst ekki við að nota mjer, þótt jeg ætti kost á stuttri athugasemd síðar til andsvara.