25.04.1922
Efri deild: 51. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. (Halldór Steinsson):

Jeg hefi reynt að temja mjer það að nota ekki óþarfa orð í þessum sal, og mun ennþá fylgja þeirri reglu. Enda tel jeg óþarft að ræða mikið um það mál, er hjer liggur fyrir, þar sem það mun vera orðið þingmönnum svo ljóst, að lítil von er til þess, að það upplýsist betur við langar umræður. Enda munu allir vera búnir að taka afstöðu til þess fyrirfram.

Það var flestum ljóst löngu áður en þetta þing kom saman, að Spánarsamningurinn mundi verða aðalmálið eða mál málanna á þessu þingi.

Það má svo að orði kveða, að meiri hluti þjóðarinnar hafi svo að segja staðið á öndinni fyrir úrslitum þessa máls. Þetta er í sjálfu sjer ofurskiljanlegt, þegar á það er litið, að annarsvegar blasir við mikil skerðing, ef ekki hrun, á öðrum aðalatvinnuvegi landsins, en hinsvegar afturhald og tilslökun á máli, sem verið hefir næmasta tilfinningamál þjóðarinnar síðustu áratugina, — máli, sem þjóðin hefir skifst um í tvo andstæða flokka.

Jeg tel ekki þörf á að segja hjer sögu þessa máls, Spánarmálsins, því sumpart hefir það áður verið gert og sumpart liggur hún fyrir allgreinilega í nál. En þegar þingið kom saman horfði málið þannig við: Eftir að Spánverjar höfðu sagt upp tollsamningum við Ísland, gerði fyrverandi stjórn alt, sem í hennar valdi stóð, til að fá þá til að falla frá kröfum sínum. Í þessari baráttu sinni naut hún aðstoðar frá Dönum, auk þeirra sendimanna, er hún sjálf hafði ráð yfir, þeim sendiherra okkar í Kaupmannahöfn og fulltrúa okkar á Suðurlöndum, Gunnari Egilson. Með sameinuðum kröftum og ýtrustu tilraunum tókst þessum aðiljum að fá því framgengt, að hærri fisktollurinn skall ekki á okkur á síðastliðnu ári. Þeim tókst að fá frest á frest ofan og síðasta frestinn fram á þetta þing. En úr því var enginn frestur fáanlegur, því Spánverjar höfðu aðeins gert þá tilslökun með tilliti til þess, að erfitt væri að kalla saman þing fyr en á reglulegum tíma.

Þó að fyrverandi stjórn og sendimenn okkar hafi komið mjög drengilega fram í þessu máli og sýnt mikinn dugnað, þá er þó engum efa undirorpið, að hin góðu úrslit, — hinn áframhaldandi frest til þessa þings — eigum vjer Dönum langmest að þakka, er þeir hafa notað hina góðu viðskiftaafstöðu sína okkur til hagsbóta og gert okkar mál að sínu máli og staðið dyggilega með okkur í baráttunni, og það þótt þeir ættu nokkuð í húfi sjálfir, þar sem er fiskmarkaður Færeyinga.

Þegar viðskiftamálanefndin hafði kynt sjer öll þau plögg, sem fyrir lágu í þessu máli, duldist henni ekki, að eigi var nema um tvær leiðir að velja: Annaðhvort að ganga að kröfum Spánverja og sæta bestu tollkjörum, eða hafna þeim, og sæta þá 64 peseta hækkun á hverjum 100 kg. af fiski, eða 117 kr. á hvert skpd.

Þó að nú nefndin væri sannfærð um þetta, þótti henni þó rjett, eftir atvikum, að gerð væri úrslitatilraun, til þess, að með engu móti væri hægt að liggja þingi eða stjórn á hálsi fyrir það, að nokkurs hefði verið látið ófreistað í þessu máli. Í því skyni varð það ofan á í nefndinni, að sendinefnd skyldi fara til Spánar.

Háttv. deild er nú kunnugt, hver árangurinn er af þessari sendiferð. Sendinefndin hefir gert ítrekaðar tilraunir, eftir fyrirmælum stjórnar og þings, til að fá Spánverja til að falla frá kröfum sínum eða slaka til á þeim, en alt árangurslaust, nema þetta eina, sem felst í þessu frv., að ekki þarf að afnema þegar í stað þau ákvæði bannlaganna, sem snerta þessa undanþágu bannsins.

Frá mínu sjónarmiði sjeð — þar tala jeg ekki fyrir nefndina í heild sinni — er þetta enginn ávinningur. Það er að vísu möguleiki til að halda áfram opnum samningum við Spánverja, en það er um leið ekki aðeins möguleiki, heldur nokkurnveginn sjálfsagður vegur fyrir áframhaldandi ófrið innanlands um málið, auk tímaeyðslu við það á næsta þingi.

Því verður heldur ekki borið á móti, að með þessu frv. er málinu teflt í meiri óvissu en ef frv. fráfarinnar stjórnar hefði verið samþykt. En þótt jeg, ásamt nokkrum öðrum í nefndinni, hafi þessa skoðun, þá töldum við þó sjálfsagt að tefla málinu ekki í strand á þeim skoðanamun, þar sem fiskimarkaðinum, að minsta kosti á þessu ári, er fyllilega borgið, ef þetta frv. verður samþykt.

Menn eiga yfirleitt erfitt með að skoða þetta mál með rjettum óhlutdrægum augum, skoða það sem viðskiftamál. Það hættir mörgum við að láta tilfinningar sínar með eða móti vínbanninu hlaupa með sig í gönur. En það verð jeg að segja viðskiftamálanefnd þingsins til lofs, að þó skoðanirnar væru mjög sundurleitar um málið innan nefndarinnar, þá hafði hún þó jafnan hugfast, að til þess að firra landið þeim fjárhagsvoða, sem framundan lá, varð að offra þeim fríðindum, sem margir í nefndinni mundu undir öðrum kringumstæðum hafa haldið í dauðahaldi.

Hvernig sem dómar síðari tíma kunna að verða um úrslit þessa máls nú, þá er þó víst, að þingið hefir afgreitt það með heill þjóðarinnar fyrir augum og til þess að bjarga ríkinu frá fjárhagsvoða.