25.04.1922
Efri deild: 51. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Atvinnumálaráðherra (Kl. J.):

Út af fyrirspurn háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) skal jeg taka fram, að jeg get ekki svarað þessari spurningu. Jeg veit það ekki. Sendimenn vorir á Spáni hafa aldrei minst einu orði á þetta atriði, enda sje jeg ekki að það komi vitund þessu máli við. Mjer þykir annars eigi ólíklegt, að við gerum sjerstakan samning.

Úr því jeg á annað borð stóð upp, vil jeg taka það fram, út úr fyrirspurn, sem kom fram í Nd., hvort okkur væru trygð bestu kjör til næsta þings, ef þetta frv. yrði samþykt, að þá sannaði frsm. nefndarinnar að svo væri, með því að lesa þar upp skeyti við 3. umr., og held jeg ekki að neinn hafi eftir þann upplestur verið í vafa um, að rjetturinn sje trygður, og þetta hefir verið staðfest með einkaskeyti. Það er næsta þing, sem á að taka fullnaðarákvörðun í málinu, og það hefir þegjandi verið talið sjálfsagt, að stjórnin ætti þá að bera málið fram, en jeg tel mjer skylt að lýsa því beint yfir, að hún telur sjer rjett og skylt að leggja þá frv. um þetta fyrir þingið.