23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

1. mál, fjárlög 1923

Atvinnumálaráðherra (Kl.J.):

Jeg vil biðja háttv. 2. þm. Húnv. (Þór.J.) og háttv. 2. þm. Skagf. (J.S.) afsökunar á því, að jeg bendlaði þá við till. um að fella burtu þjóðvegina. Jeg hafði þá ekki sjeð uppprentunina á þskj. 122.

Háttv. frsm. (B.J.) skoraði á stjórnina að kaupa staura til línunnar frá Búðardal til Króksfjarðarness þegar í haust. Ekki treysti jeg mjer til að gera það, ef ekkert fje verður til þess veitt, nema þá því aðeins, að ástandið batnaði til stórra muna.

Jeg veit vel, að þessari línu hefir verið marglofað, og það er hart að þurfa að ganga á þau loforð, en nauðsyn brýtur lög.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J.Þ.) tók það fram, að annaðhvort þyrfti að nema bifreiðaskattinn burt tekjumegin eða þá að vantaði jafna upphæð til útgjalda í 13. gr. Þetta er rjett, því að sjerstök ákvæði eru um það, hvernig verja skuli bifreiðaskattinum, og hann má því ekki telja með venjulegum tekjum og eyða til hvers sem er. Væri hægt að láta þar koma nýjan lið, sem gæti þá orðið 13. gr. IX, og væri þar áætlað hvernig verja skyldi þessu fje.

Sami háttv. þm. (J.Þ.) taldi þurfa að koma nýja grein í gjaldabálkinn, og væri það kostnaður við einkasölu ríkisins á tóbaki og áfengi. Þetta virðist rjett, en hitt er efamál, hvort tími vinst til fyrir 3. umr. að gera um þetta áætlun, sem nokkuð sje á að græða. Þó mun jeg athuga þetta, og mætti þá líka koma því að í háttv. Ed.

Jeg hygg að jeg þurfi þá ekki að víkja að fleiru. Sje ekki ástæðu til að tala nema um það, sem mjer kemur við.