25.04.1922
Efri deild: 52. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Jeg get ómögulega fallist á röksemdafærslu háttv. þm. Snæf. (H. St.). Það skiftir miklu máli, hvort Danir hugsa sjer að gera fullnaðarsamning nú, án tillits til vor, eða hvort þeir láta það bíða þar til fullnaðarsamningur er gerður af oss við Spánverja.

Það hefir verið tekið fram, að vjer eigum Dönum mikið að þakka í þessu máli. En hvað er það, sem vjer eigum þeim að þakka? Er það ekki einmitt það, að þeir hafa frestað samningum sínum við Spánverja vor vegna? Spurningin er nú, hvort Danir gera fullnaðarsamning við Spánverja eða fresta þeim eins og vjer. Velji þeir síðari leiðina, þá er ekkert við þetta að athuga. Vjer stöndum þá jafnvel að vígi, er til samninganna kemur. En ef þeir semja nú, get jeg ekki litið öðruvísi á en að vjer stöndum þá ver að vígi til að semja framvegis.

Jeg vantreysti því ekkert, að Danir vilji liðsinna oss, þá er vjer tökum að semja við Spánverja síðarmeir. En hitt er jeg viss um, að þeirra aðstoð er oss minna virði eftir að þeir hafa gert bindandi fullnaðarsamning, því að þá standa þeir ólíkt ver að vígi til áhrifa.