06.04.1922
Efri deild: 38. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

82. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Flm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Frv. það, sem hjer er flutt af mjer og hv. 2. þm. G.-K. (B. K.), mun af sumum verða talið miða til þess að lækka tekjur ríkissjóðsins, og mjer kemur það ekki að óvörum, að einhver kynni að hugsa til þess að snúast á móti því, undir því yfirskyni, að svo sje. Mig langar þó til þess að reyna að færa rök fyrir því, að óttinn um þetta sje á sáralitlum rökum bygður.

Straks þegar kunnugt varð í Noregi á síðastliðnu vori, að þingið hefði samþykt 3 kr. toll á hverri síldartunnu og ekki væri heldur nein von til þess að nokkuð af þessum geipiháa tolli yrði endurgoldið, hvernig sem atvinnureksturinn gengi, þá hurfu norskir útgerðarmenn, sem áður höfðu rekið atvinnu hjer við land, að því ráði að koma sjer algerlega undan þessum tolli, salta utan landhelginnar og nota þá heldur ekki íslenskan vinnukraft við þá söltun.

Afleiðingin af þessari ráðabreytni norskra útgerðarmanna varð sú, að því er skýrt er frá í einu fiskiblaði Norðmanna, „Fiskets Gang“, 4. jan. þ. á, að á síðastliðnu ári veiddu Norðmenn hjer við land 83417 tunnur af síld og fluttu til Noregs, án þess að borga af því nokkurn toll til ríkissjóðsins. Að nafninu til er öll þessi veiði tekin utan landhelgi og söltuð þar, en að svo hafi ekki verið í raun og veru, á það bendir Otto Tulinius, sem er þessu máli gagnkunnugur, í febrúarblaði Verslunartíðindanna þetta ár, að um 50 þúsund tunnur ápakkaðrar síldar muni hafa verið saltaðar í heimildarleysi í landhelgi. Þetta sýnir allvel, að hverjum notum þessi ráðstöfun hefir orðið, hver virðing henni hefir verið sýnd, bæði af útlendum mönnum og hjerlendum, því varla mun svo, að ekki hafi fleiri verið vitandi um þetta. En það, sem hjer skiftir mestu máli, er þetta: Af þessum 83417 tunnum síldar, sem veiddar voru hjer við land af Norðmönnum sumarið 1921, fjekk ríkið alls engan útflutningstoll, en hefði þessi tollur ekki verið ákveðinn nema 1 króna af tunnu, má ætla, að ríkið hefði fengið tollinn af allri þessari síld. En jafnframt er hjer eins að gæta, sem mikla þýðingu hefir, að síldin frá árinu 1921 er öll seld, svo þegar ný síld kemur á markaðinn á næsta sumri, verður ekkert fyrir af gamalli síld. Auk þess gekk norska veiðin vel síðastliðið ár og var víst rekin af flestum með ágóða. Þessar góðu horfur eru þess valdandi, að norskir útgerðarmenn hugsa mjög til hreyfings um að auka síldveiðina á næsta sumri, og er fullyrt, að þeir muni á þessu komandi veiðiári halda úti tvöföldum skipakosti til veiðanna, samanborið við það, sem var í fyrra.

Nú vil jeg spyrja háttv. deild og hæstv. stjórn: Vilja þær með ósanngjarnri löggjöf svifta landið öllum vonum um tolltekjurnar af þessari síld, er ætla má, að útlendingar veiði hjer við land, og það þegar að svo miklum mun á næsta sumri?

En jafnframt því sem landið með slíkri ráðstöfun sviftir sig öllum vonum um tolltekjur af síldveiði útlendinganna, sviftir það sig líka miklum tekjum af aðflutningi útlendrar vöru, svo sem kolum, salti, veiðarfærum, neysluvörum, og hafnargjöldum. Hvað miklu þetta muni nema, treysti jeg mjer ekki til að áætla, en hinu vil jeg halda fram, að landið muni um þetta.

Hjer er enn ótalinn verslunarhagnaður þeirra manna, sem versla við skipin, og verkalaun þeirra íslenskra manna, er ynnu við síldarsöltun útlendinga í landi. Talið er, að vinnulaun fyrir hverja fullsaltaða tunnu sjeu um 5 krónur, og getur þá hver og einn áætlað um það, hvern óhag landsmenn bíði af því, að atvinnan við síldarsöltunina fer algerlega forgörðum.

En við þetta bætist svo það, eftir því, sem skýrt er frá í blöðum að norðan, að íslenskir útgerðarmenn þar hafa við orð að taka upp sömu aðferð eins og Norðmennirnir til þess að komast undan tollinum.

Jeg get nú vitanlega ekkert um það fullyrt, hve mjög þar fylgi hugur máli, en hitt vil jeg fullyrða, að það væri höfuðskömm íslenska löggjafarvaldinu að reka atvinnurekendurna út í þetta.

Og ef málið er athugað með dálítilli gætni, held jeg, að löggjafarvaldið megi vara sig á þessu.

Innihald síldartunnunnar hjer á landi er talið um 10 króna virði, og þótt atvinnurekandinn geti hagnast á þessum atvinnurekstri sínum, svo að hann gæti átt afgangs 3 krónur af hverri tunnu, þá — ja, hvað skeður þá — ríkið tekur allan gróðann, hvern eyri. Finst mönnum þetta vera rjettlát lög, eða rjettlátir þeir löggjafar, sem halda vilja slíkum lögum óbreyttum?

Afleiðingin af þessari löggjöf er auðsæ. Atvinnurekendurnir biðja um undanþágu frá þessu tollgjaldi, alt að % af tollinum. Þeir demba á stjórnarráðið skilríkjum og reikningum, sem eiga að sýna og sanna, að þeir hafi tapað á atvinnurekstrinum. Slík skilríki liggja nú fyrir hinu háa stjórnarráði, að því er mjer skilst án þess að nokkur starfsmaður stjórnarinnar hafi tíma til þess að athuga þau. Að minsta kosti hefir mjer ekki tekist að fá að vita, hve mikið muni verða að gefa eftir af þeim tolli, sem greiddur var af síldveiðum innlendra manna árið 1921.

Verði þessi tollur lækkaður niður í 1 krónu, geri jeg ráð fyrir því, að útgerðarmennirnir geri sjer miklu síður títt um það að sanna það fyrir hinu háa stjórnarráði, að þeir hafi beðið halla af rekstrinum. Þetta skiftir þá miklu minna máli fyrir þá, og jafnvel þótt hallinn kynni að verða einhver af rekstrinum, mundi margur varla telja tilvinnandi að fara að rekast í eftirgjöfinni við stjórnarráðið, þegar um lítið fje væri að ræða.

Jafnvel gæti komið til mála að fella niður alla eftirgjöf á síldartolli, ef tollurinn væri lækkaður, en fram á það er þó ekki farið í þessu frumvarpi, er hjer liggur fyrir, enda tel jeg það ekki rjettlátt.

Jeg held, að ekki þurfi fleira um þetta að segja, til þess að sanna það, að landið hafi beðið tjón af háa tollinum, og það haldi áfram að bíða tjón af honum, ennþá meira tjón, bæði ríkissjóður og fjöldi einstaklinga. Hitt mun ekki þykja fullsannað, að vissa sje fyrir því, að útlendingar fari aftur að salta í landi og borga hjer toll, ef þessi tollur er færður niður um 2/3.

Það er ekki hægt að sanna það, sem ekki er fram komið, en jeg hefi borið þetta mál undir ýmsa menn, sem þessu eru kunnugir, og þeir telja ekki vafa á því. Auðsjáanlega eru nokkur, jafnvel mikil vandkvæði á því að salta utan landhelginnar. Það má meðal annars sjá af því, að haldið er áfram að salta í landhelginni eftir sem áður, þótt gert sje gagnstætt lögum, jafnvel saltað uppi í landsteinunum. Brotin eru bersýnilega framin af því, að ilt er að vera utan landhelginnar, en mennirnir samningsbundnir um það að reyna að koma sjer undan tollinum, sem litið er á sem ójafnaðartoll. Jeg tel alveg víst, að vilji þingið sýna sanngirni og lækka tollinn niður í 1 krónu, þá muni öllum slíkum samtökum vera slitið.

Líkurnar fyrir því, að ríkið muni tapa fje á tolllækkuninni, sýnast mjer vera sáralitlar, en aftur töluverðar fyrir því, að það muni græða á henni.

Um innlendu síldveiðina er annars örðugra að tala, af því að við vitum ekki, hvað hún gefur af sjer í ríkissjóðinn. Veiðin er talin um 100000 tunnur. Það, sem hún þá gefur af sjer, er einhversstaðar milli 100000 og 300000 krónur, en líklega verður það miklu nær fyrri tölunni.

Af því við vitum ekki um þessar tölur, hvorki á síðastliðnu ári nje hvað framtíðin geymir í skauti sínu, þýðir ekki að gera nákvæmar áætlanir.

Jeg held, að enginn muni þora að fullyrða, að útlendingar vilji ekki vinna það fyrir þessa 1 krónu af tunnu að salta í landi, að lögin hafi þegar orðið til svo mikilla óheilla, að ekki megi kippa þessu aftur í liðinn, að minsta kosti á næstu árum.

En setjum þó, að svo færi.

Þá ber að líta á síldveiðamar sem algerlega innlendan atvinnuveg, sem þá að minsta kosti hlýtur að vera algerlega jafnrjétthár eins og hver annar atvinnuvegur í þessu landi.

En er honum þá sýndur sami sómi eins og öðrum atvinnuvegum landsins?

Það sjest best af útflutningsgjaldinu, sem við einmitt höfum nú til meðferðar hjer í þessari háttv. deild.

Þar er aðeins gert ráð fyrir 1 árs framlengingu á þessu 1% útflutningsgjaldi af íslenskum vörum öðrum en síld. Í umræðunum um það mál hefir það komið ljóslega fram, að það er vilji þingsins að verða af með gjaldið eins fljótt og þess er nokkur kostur, og þó er hjer ekki um meira gjald að ræða en svo sem 400000 krónur.

En á þessari einu vöru — síldinni — er útflutningsgjaldið margfalt, jafnvel þótt tollurinn væri ekki nema 1 króna, og enginn fer hjer fram á, að tollurinn falli niður eftir 1 ár.

Finst mönnum þá, að verið sje að gera ósanngjarna kröfu fyrir hönd þessa atvinnuvegar?

Væri ekki sá hugsunarháttur rangsnúnari en svo, að ætlandi væri íslenskum alþingismönnum ?

Afleiðingin af þessum háa 3 króna tolli á þennan íslenska atvinnuveg, sem verið hefir svo dropsamur fyrir ríkið og verður það væntanlega ennþá betur í framtíðinni, ef sæmilega er að honum farið, er sú, að tollurinn sýgur merg og blóð úr honum. Atvinnuvegurinn er áhættusamur, það vita allir, en einna áhættusamastur þó fyrir aðgerðir ríkisvaldsins.

Það er orðið of títt í þessu landi að fara út í jöfnuð og meting milli atvinnuveganna, telja suma þeirra miklu æðri og göfugri en hina. Það yrði of langt mál að fara hjer út í þetta, en fremur er þessi metingur ógeðslegur og viðleitnin til rökfærslunnar oft hin herfilegasta. En hver tilgangurinn er þessarar rökfærslu, það vita allir. Hann er sá, að láta einn atvinnuveg landsins lifa eins og sníkjudýr á öðrum atvinnuvegum.

Vjer könnumst allir dálítið við sníkjudýr. Það er eðli þeirra og náttúra að lifa á dýrum, sem standa þeim miklu ofar í dýraríkinu. Þau hafa reyndar enga verulega hugmynd um þessi dýr, sem þau lifa á, en eðlishvatir þeirra eru svo ríkar, að þau kunna þá list að sjúga blóð þeirra og líkamssafa og nærast af þeim, verða þeim oft og tíðum að fjörlesti.

Jeg vil ekki trúa því að óreyndu, að íslenska ríkisvaldið vilji taka svo óþyrmilegum tökum þennan yngsta og að mörgu leyti þroskavænlega höfuðatvinnuveg landsins, og vænti þess þess vegna, að bæði þing og stjórn líti á málavexti með sanngirni og geri frumvarp þetta að lögum.