06.04.1922
Efri deild: 38. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

82. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Fjármálaráðherra (Magn. J.):

Það er ekki mikið, sem jeg hefi að svara þessari ítarlegu ræðu háttv. flm. (S. H. K.). Mjer finst, að það hefði átt betur við, að það, sem hjer er borið fram, hefði verið fram borið þegar lögin komu fyrst fram. Um hagnaðinn af þessu verður í sjálfu sjer ekkert sagt, og reynslan af þessum síldartollslögum, sem nú eru í gildi, er mjög stutt. En við sumt, sem háttv. frsm. tók fram, má þó gera athugasemdir strax. Hann sagði, að Norðmenn veiddu og söltuðu síldina jafnvel í landhelgi. Þetta er engin ástæða fyrir tolllækkun, því það er ekki afleiðing af því, hve tollurinn er hár, heldur af því, hversu gæslan er lítil. Þess vegna þarf að bæta hana, en ekki lækka tollinn, til að kippa þessu í lag. Fremur fanst mjer það veigalítil ástæða, að vinna Íslendinga við síldarsöltun hjá Norðmönnum, sem veiða hjer við land, yrði lítil eða engin. Slíkri 1–2 mánaða selstöðuvinnu og þessari, sem hjer er um að ræða, get jeg ekki lagt mikið upp úr og sje ekki, að það sje á nokkurn hátt sá atvinnuvegur, sem leggja á mesta rækt við.

Háttv. flm. (S. H. K.) talaði um það að ósæmilegt væri að beita einstakan atvinnuveg órjetti, og mintist í því sambandi á aðra atvinnuvegi sem blóðsugur. Býst jeg við, að háttv. þm. taki þar nokkuð djúpt í árinni. Jeg fyrir mitt leyti tel það mestu blóðsugu þessa atvinnuvegar, sem hjer er um að ræða, ef síldin kemur ekki. Annars tek jeg það fram, að jeg tala hjer um síldveiði í landhelgi, því utan landhelgi eru Íslendingar jafnsettir Norðmönnum. Norðmönnum er fyllilega frjálst að veiða utan landhelgi, og ómögulegt er að meina Íslendingum þeim, sem það vilja, að gera slíkt hið sama. Ef þeir vilja það og telja það borga sig, þá þeir um það. Hitt er vitanlegt, að er um síldveiði í landhelgi er að ræða, þá eru það hlunnindi tilheyrandi öllu landinu, að geta notfært sjer þá landhelgisveiði.

Ennfremur má geta þess um síldveiði, að þó hún að vísu þurfi töluverðan undirbúning, þá er sá munurinn á henni og t. d. garðrækt, að menn þurfa ekki að sá eða þ. h. á undan henni.

Annars er að mínu viti aðalatriðið það í þessu máli, að mjög lítil reynsla er fengin fyrir því, hvernig gjaldið reynist. Þar á einmitt við það, sem háttv. flm. sagði, að enn væri ekki útreiknuð endurgreiðslan á síldartollinum. Það er alveg rjett. En jeg skal þó geta þess, að nú er verið að því í stjórnarráðinu. Til þess að tollurinn verði endurgreiddur þarf að sannast, hvern árangur atvinnureksturinn hefir borið. En þar sem skýrslurnar eru ekki allar komnar stjórninni í hendur, er þeirri rannsókn ekki lokið.