06.04.1922
Efri deild: 38. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

82. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Karl Einarsson:

Jeg vil ekki blanda mjer í deilur háttv. þm. um þetta mál. En það kom mjer ekki á óvart, það sem háttv. flm. sagði um veiðiskap og söltun á síld ýmsra útlendinga hjer við land, enda var mjer kunnugt um það áður. En það gleður mig, að því hefir verið lýst hjer í þessari háttv. deild, og því fremur, sem jeg efast ekki um, að hv. ræðumaður hefir haft góðar heimildir fyrir sjer.

Norðmenn veiddu hjer við land síðastliðið ár 83 þús. tn. af síld, en af henni var enginn tollur greiddur. Býst jeg ekki við, að neinir málsmetandi menn hefðu haldið þessu fram, ef það væri ekki rjett. Sje svo, að þessu sje rjett lýst, þá verð jeg að álíta, að stjórninni hafi ekki farist vel með gæsluna enda hefir því verið mótmælt, að hún hafi verið í sæmilegu standi. Hjer var í raun og veru aldrei nema eitt skip til gæslu í senn, en það er vitanlega allsendis ónóg, enda sýndi það sig að vera svo. Stjórninni var boðið eitt skip í viðbót til gæslu, en hún hafnaði því boði; kvaðst ekki hafa fje til þess að halda því úti. Verð jeg að telja slíkt mjög vafasama sparsemi, að aðrir komist undan lögboðnum gjöldum, svo að margfalt meira fje tapast en það, sem átti að spara, auk þess, sem virðingin fyrir lögum landsins hlýtur að bíða mikinn hnekki við slíkt.

Það gleður mig, að hæstv. fjrh. hjelt því fram, að vegurinn til þess að laga þetta væri ekki sá að lækka tollinn, heldur að auka gæsluna. Hinsvegar held jeg ekki, að það sje rjett að lög um landhelgi, sem nú eru á leiðinni, hafi nokkur áhrif á þetta. Stjórnin hefir lagaheimild og óskir frá Alþingi um að gæta landhelginnar sem allra best, ekki aðeins um síldartímann, heldur altaf, og hefir hún því fulla heimild til þess að nota fje til þessa.

Jeg verð að játa, að sá atvinnuvegur, sem háttv. flm. mun hafa haft í huga, er hann talaði um sníkjudýrið, getur ekki lagst niður, og jeg get ekki lagst á móti því, að stjórnin verndi fiskiveiðar landsmanna.

Annars skal jeg geta þess, að jeg tel það, sem áfátt er um þessi mál, ekki þinginu að kenna, heldur hæstv. stjórn, er ekki hefir fundist við eiga að framkvæma skipun þingsins í þessum efnum.

Að endingu skal jeg taka það fram, að jeg er alveg sammála háttv. 3. landsk. (S. J.) um atvinnu landsmanna við síld hjá útlendingum. Jeg gef yfirleitt lítið fyrir þá atvinnu; tel hana eigi til frambúðar, því öllum þorra manna verður lítið úr því fje, sem þeir fá fyrir hana. Hafa menn oft við hana eytt besta tíma ársins, sjer til lítils gagns og öðrum atvinnuvegum til stórtjóns.