06.04.1922
Efri deild: 38. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

82. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Halldór Steinsson:

Jeg furða mig mjög á því, að þetta frv. skuli fram komið hjer í deildinni. Ekki vegna þess að það er svo seint á ferðinni; það hefir tíðkast hjer áður; heldur vegna þess, að það er ekki borið fram til þess að vernda hag Íslendinga, heldur Norðmanna. Hefði jeg eins getað búist við að heyra ræðu háttv. flm. flutta af vörum Norðmanna.

Háttv. ræðumaður hjelt því fram, að við mistum tekjur af síldveiðum Norðmanna, sökum þess, hve tollurinn væri hár. Þetta er að mínu viti hinn mesti misskilningur. Jeg er sannfærður um, að Norðmenn myndu haga sjer eins og þeir álíta sjer þægilegast og fyrir bestu, hvort sem tollurinn er heldur 1 króna eða 3 krónur.

Háttv. flm. gat þess ennfremur, að nú væri svo langt komið, að Íslendingar sjálfir væru farnir að hugsa um að salta síld sína utan landhelgi. Jeg hygg, að þessi fullyrðing hans sje algerlega gripin úr lausu lofti, eingöngu vegna þess, að það borgar sig alls ekki fyrir Íslendinga að gera slíkt. Það hefði fyrir þá tiltölulega miklu meiri kostnað í för með sjer en fyrir Norðmenn. Það væri líka því síður ástæða til þessa fyrir Íslendinga, þar sem þeir fá endurgreidda tvo þriðju af tollinum, ef ekki um beinan hagnað er að ræða af síldarsölunni. Tollurinn getur því ekki orðið mjög tilfinnanlegur fyrir þá.

Háttv. ræðumaður fáraðist mjög yfir því, að þetta og undanfarandi þing skyldu halda svo fast við útflutningsgjald þetta.

Jeg skal játa það, að jeg tel öll slík gjöld mjög óeðlileg, en sökum þess, hve örðugur hagur ríkissjóðs nú er, þá álít jeg, að ekki verði hjá þeim komist. — Jeg skal leyfa mjer í þessu sambandi að taka það fram, að jeg álít, að síldarútvegurinn hafi hvergi nærri orðið harðast úti, því ef vel gengur, þá er það mesti gróðaatvinnuvegur. Og með eftirgjöf á tveim þriðju hlutum tollsins er Íslendingum gert mjög mikið hægra fyrir.

Að endingu skal jeg taka það fram, sem jeg hefi áður sagt, að jeg tel þetta frv. fram komið eingöngu vegna Norðmanna.