24.04.1922
Neðri deild: 54. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

82. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Magnús Guðmundsson:

Jeg fæ ekki betur sjeð en það sje rjett, sem jeg sagði, að nefndin hefði snúist í málinu síðan í fyrra. Meiri hluti hennar lagði með frv. í fyrra, en nú leggur hún með frv. um helmingi lægri toll. Að halda því fram, að nefndin eða meiri hlutinn hafi ekki snúist, er því að segja hvítt svart, og er það tæpast vansalaust fyrir sjálfan forseta Sþ. að fara með svo rangt mál. Jeg man vel deilurnar milli mín og hv. þm. Ak. (M. K.) í fyrra. Þær voru ekki um tollupphæðina sjálfa, heldur um nýja ákvæðið um endurgreiðslu á tollinum. Þá sagði háttv. þm., að málinu hefði verið trygt svo fylgi í fyrra, að vitanlegt hefði verið, að frv. mundi ná fram að ganga. Jeg hjelt nú, að þessi hv. þm. hefði einurð á að segja sína skoðun, þótt svo væri ástatt. (M. K.: Hvað segja þingtíðindin?) Þingtíðindin sýna, að meiri hluti nefndarinnar var með 3 kr. tolli í fyrra.

Þá sagði þessi sami hv. þm., að jeg gæti ekki sagt um það, hvort tekjur ríkissjóðs minkuðu, ef þetta frv. yrði samþykt. Reynslan sker úr því, en allar líkur eru til þess, að útflutningsgjaldið minki. Þegar tollurinn er lækkaður um helming, og skil jeg varla, að hv. þm. treysti sjer að andmæla því, þar sem alls engar líkur eru á, að síldarútflutningur tvöfaldist, þótt tollurinn lækki um helming.

Hið eina, sem fremur getur sætt mig við frv. þetta, er það, að verði það samþykt, fellur burtu hið fáránlega endurgreiðsluákvæði, sem hv. fjárhagsnefnd setti í það í fyrra. Jeg sagði þá strax, að slíkt ákvæði gæti ekki staðið lengi í lögum, og sú spá mín mun rætast fyr en mig ugði.