24.04.1922
Neðri deild: 54. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (1066)

82. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Jakob Möller:

Háttv. þm. Ak. (M. K.) hefir svarað að nokkru áburði hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) á fjhn., að hún hafi snúist í þessu máli. Þó svo væri, að hún hefði snúist síðan í fyrra, en því er ekki til að dreifa hjer, þá skifti það ekki svo miklu máli. Það yrði þá að líta svo á, sem hún hefði fengið betri skilning á málinu síðan. Auk þess má og líta á það, að kringumstæður eru breyttar frá því í fyrra, því að þótt fjárlögin sjeu nú afgreidd með 100 þúsund króna tekjuhalla, þá var tekjuhallinn í fyrra 2 miljónir. Það er því augsýnilegt, að þó að ekki yrði hjá því komist að samþykkja ranglátan skatt í fyrra, þá er síður ástæða til þess nú.

Tillagan um endurgreiðsluheimildina í fyrra bygðist á því, að þetta þriggja króna gjald væri óhæfilega hátt, en nefndin treystist ekki til að hafa lækkunina fram þá, og því var þetta ákvæði sett inn til þess að draga úr þessari hækkun síðar meir, en ekki af því, að það þætti heppileg lausn á málinu.

Háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) sagði, að þetta þriggja króna gjald af tunnu væri ekki miðað við 100 króna verð, því að lögin hefðu verið sett í fyrra og þá hefði ekki verið 100 króna verð á síldartunnunni. En í fyrra var þetta endurtekning á eldri lögum, og upphaflega var þetta þriggja kr. gjald miðað við 100 kr. verð. Það mun hafa verið sett 1919 og miðað við verðlag árinu áður. Sjá nú allir, hversu ranglátt það er að hafa útflutningsgjaldið jafnhátt nú, er verðið er 2/3 lægra. Það hlyti að reka að því, að síldveiðarnar stöðvuðust.

Þá kvað hv. þm. það ekki rjett, að menn notuðu endurgreiðsluheimildina mikið ennþá. Það sannar ekkert um það, hvað mikið hún verður notuð í framtíðinni. Það er nú skammur tími til reynslu enn. Það fer og eftir því, hvernig tekið verður í þessar umleitanir. Ef þeim verður vel tekið, sem komnar eru, þá koma fleiri ár frá ári. Ef haldið yrði í þetta ákvæði, þá yrði í raun og veru ekki nema 1 krónu gjald af tunnu hverri, en hefði óþarfa umstang í för með sjer.

Jeg skal ekkert um það deila, hver áhrif síldveiðin hefir á landbúnaðinn. En jeg hygg, að það sje misskilningur, að hægt sje að þröngva mönnum til að leggja stund á einn atvinnuveg öðrum fremur með slíkum lagasetningum.