24.04.1922
Neðri deild: 54. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

82. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Magnús Guðmundsson:

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) hjelt því fram, að ef svona hár útflutningstollur hjeldist áfram, þá hlyti að reka að því, að síldveiðarnar stöðvuðust. Maður hefir nú heyrt þetta fyr, þegar um slíka tolla er að ræða, að þá mundi viðkomandi atvinnuvegur stöðvast. En það hefir ekki komið fyrir, og mun ekki heldur svo fara með þennan atvinnuveg.

Einnig vildi hann enn halda því fram, að þriggja króna gjaldið væri miðað við 100 króna verð á síldartunnu. En það er ekki hægt fyrir hann að halda því fram, þar sem þetta eru ný lög, sem sett voru á þinginu í fyrra.

Hann kvaðst ekki vilja deila um áhrif síldarútvegsins á aðra atvinnuvegi. Jeg fór heldur ekki út í það, en hitt getur mönnum ekki dulist, hversu óheppilegt það er, að fjöldi fólks gengur atvinnulaus um hábjargræðistímann á síldarstöðvunum og bíður eftir því, að síldin komi.

Það er undarlegt að neita því, að nefndin hafi snúist í málinu síðan í fyrra, því að þetta er hverju orði sannara, og vísa jeg til þingtíðindanna í þessu efni. Er undarlegt að neita þannig staðreyndum.