24.04.1922
Neðri deild: 54. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

82. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Stefán Stefánsson:

Jeg tel það vel farið, að þetta frv. kom fram, ekki einasta vegna þess, að mínir kjósendur hafa sent eindregnar óskir um lækkun tollsins, og samþyktu auk þess ákveðna tillögu um það á síðasta þingmálafundi, heldur líka og einkum af því, að jeg tel það sanngirnismál. Því að þriggja króna tollur á þriggja króna hag á tunnu, eða þótt hann sje eitthvað lítið eitt hærri, er ekki rjettlæti. Og eftirgjöfina á 2/3 hl. tollsins, tel jeg mjög óhyggilega og óefað í mörgum tilfellum afarerfitt að sjá, hvort þeir reikningar, sem eftirgjöfin byggist á, sjeu rjettir, og auk þess freistar slík reikningsleg skilagrein seljanda til þess að gera kostnaðarreikninga sína svo háa, sem frekast er unt. Mjer finst því afaróheppilegt að byggja tollgreiðslu til ríkisins á slíkum reikningum eftir á, og að slíkar tollgreiðslur beri að forðast sem mest að unt er. Og þegar litið er til þess, að hjer er aðeins að ræða um atvinnuveg fyrir innlenda menn, þá hlýtur að vera skylt að fá hjer sem mest samræmi við annað útflutningsgjald, en eins og nú er, er það bersýnilegt, að langt er frá því, að svo sje.

Það er því ekki undarlegt, þótt umkvartanir og óskir eigi sjer stað, því að núverandi tollur dregur stórum úr framleiðslunni. Hann er því jafnóhyggilegur og hann er ranglátur.

Gæti þá farið svo, að þessi rangláti tollur verði til þess, að innlendir menn þættust neyddir til að verka veiðina utan landhelgi. og tel jeg þá, að ver væri farið en heima setið. Verði nú þetta frv. að lögum, tel jeg, að enginn muni hugsa til slíks, eða að tollurinn drægi úr veiðiskapnum, en hitt er sennilegra, að tollurinn mundi þá nema jafnmiklu og nú, af því að þá mundi veiðiskapurinn aukast stórkostlega. Þá væru og undanþágur og eftirgjöf á tollinum með öllu úr sögunni.

Jeg vona því, að allir háttv. þm. samþykki frv. eins og það nú lítur út. Og jeg legg áherslu á það, sem háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) sagði, að mikið sje unnið við það að vera laus við þá undanþágu, sem heimiluð er með núgildandi lögum, því það er sannarlega freisting fyrir þá, sem hafa áhættumikinn og hagnaðarlítinn útveg, en eru neyddir til að gefa reikninga um hann, að setja útgjaldatölurnar að minsta kosti nægilega háar, en þá er illa farið, ef löggjöfin næstum neyðir menn til undandráttar. Þingið má ekki og á ekki að leyfa sjer að halda við ranglátum tolli. Þá væri rjettara að banna með lögum allan síldarútflutning, eða þann atvinnuveg eins og hann nú er rekinn, þó að það að sjálfsögðu væri stórbagalegt. Hitt vona jeg þó, að þingið samþykki frv. og láti þannig þessa atvinnugrein njóta meiri sanngirni í tollgreiðslunni en verið hefir.