23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

1. mál, fjárlög 1923

Jón Þorláksson:

Mjer þótti það hálfleiðinlegt, að hæstv. forsrh. (S.E.) skyldi halda, að jeg væri ætíð reiðubúinn til þess að gera árásir á hann. Jeg er yfirleitt velvildarfullur, og ekki síður til stjórnarinnar en annara. Vil jeg sem háttv. þm. N.- Ísf. (S.St.) hafa bestu vonir um það, að stjórnin efni loforð sín um það að minka útgjöldin til embættisrekstrar. En það hefir mjer þótt leitt, hve öndverður hæstv. forsrh. hefir risið gegn öllum sparnaðartill., sem frá öðrum hafa komið.

Hæstv. forsrh. bar upp þá fyrirspurn til mín, hvort jeg áliti, að stjórnin gæti sagt upp samningnum við mig viðvíkjandi Flóaáveitunni. Jeg tel það sjálfsagt, að stjórnin geti sagt samningnum upp við mig, ef hún vill ekki láta framkvæma verkið. Og um fjárreiður milli mín og stjórnarinnar út af slíkri uppsögn mundi jeg vilja láta fara eingöngu eftir gildandi landslögum, en hvorki veita landinu neinar gjafir eða láta það veita mjer þær.

Háttv. 1. þm. Skagf. (M.G.) sagði, að bifreiðaskatturinn væri áætlaður í útgjaldaliðnum til viðhalds flutningabrautum, en þetta er gagnstætt lögunum, því að það er vitanlegt, að þær áætlunarupphæðir eru einungis ætlaðar til þess að halda vegunum við í sínu núverandi formi, eða sem malarvegum. En lögin um bifreiðaskattinn urðu öðruvísi en þáverandi fjármálaráðherra (M.G.) vildi hafa þau. Þeim var breytt í þá átt, að skattinum skyldi varið til þess að koma á framförum í gerð veganna eða til þess að gera bifreiðarhæft slitlag á þá.

Vil jeg með leyfi hæstv. forseta lesa upp hjer að lútandi lagaákvæði:

„Af skattinum skal stofna sjerstakan sjóð, sem landsstjórnin geymir. Heimilt er að verja fje úr sjóðnum, eftir tillögum vegamálastjóra, til þess að greiða aukakostnað, er af því stafar að gera slitlag á vegum utan kaupstaða úr grjótmulningi, tjörusteypu eða öðru efni, er hæfir umferð bifreiða, þegar slíkir vegir eru endurbygðir eða endurnýja þarf slitlag þeirra. Skulu þeir vegir ganga fyrir, þar sem mest er umferð bifreiða“. Skýt jeg því til hæstv. atvrh. (Kl.J.), sem ávalt hefir sýnt mikinn áhuga á vegabótum, að hann sjái um, að þessi tilraun til þess að gera vegina betri verði ekki gerð að engu með því að eyða þessu fje til venjulegs viðhalds veganna.

Viðvíkjandi útgjaldaáætlunum af einkasölu ríkisins á tóbaki og víni skal jeg viðurkenna það með hæstv. atvrh. (Kl.J.) og háttv. 1. þm. Skagf. (M.G.), að erfitt sje enn að gera áætlun um kostnaðinn. Því nokkuð af þessu er enn í höndum starfsmanna Landverslunarinnar, sem ekki hefir verið lögð niður enn. En sú mótbára háttv. 1. þm. Skagf., að vínverslunin gefi ekki tekjur, og því eigi ekki að tilfæra hana, er einskisvirði.

Póstmálin gefa engan tekjuafgang, og er þó nauðsynlegt, að fjárveitingarvaldinu gefist kostur á að sjá, hvernig fjenu til þeirra er varið. Og enn er það, að vínversluninni er ætlað að gefa nægar tekjur til þess að borga kostnaðinn við hana, en fjeð til starfrækslu hennar er tekið af landsmönnum, og því er full ástæða til þess að krefjast, að fult eftirlit sje haft með því, að hjer sje ekki farið of djúpt ofan í vasa landsmanna.

Vona jeg, að sú regla verði upp tekin að taka allar tekjur og gjöld við verslunarstarfræksluna upp í fjárlögin, en það er ekkert höfuðatriði fyrir mjer, að þetta sje gert að þessu sinni, ef miklir örðugleikar eru á.