20.02.1922
Neðri deild: 5. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (1088)

22. mál, umræðupartur Alþingistíðinda

Magnús Pjetursson:

Úr því tekið er að ræða þetta mál þegar við fyrstu umr., þá leyfi jeg mjer að segja nokkur orð, án þess þó að ætla með því að andmæla hinni ágætu stefnuskrárræðu sparnaðarflokksins nýja.

Það hefir alloft áður verið rætt um þetta mál hjer í þinginu og sýnst um það sitt hverjum, sem við er að búast, Og þegar það var hjer síðast til umr., þá kom það fram í umr., að eiginlega væri þetta mál, sem þm. gætu naumlega ráðið til lykta á Alþingi. Hjer væri um að ræða sjerstök hlunnindi til kjósenda, sem ekki væri rjett að svifta þá, nema þeirra samþykki kæmi fyrst til. Jeg býst nú við, að hv. flm. frv. hafi borið þetta mál undir kjósendur og hafi samþykki þeirra. En af því að jeg var svo slysinn að vera ekki í tölu þessara hv. þm., þá vil jeg geta þess, að jeg í mínu kjördæmi hefi einmitt farið þessa leið, að bera málið undir kjósendur. Frá kjósendum komu ýms svör, en þó var samþ. að fresta í svip prentun umræðupartsins, og því er jeg frv. fylgjandi. Annars þætti mjer fróðlegt að heyra, hvort hv. þm. hafa víða farið þessa leið, því það er mikilsvert að heyra vilja kjósendanna um þessi efni, þar sem þetta atriði kemur einmitt svo mjög til þeirra kasta.