20.02.1922
Neðri deild: 5. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í C-deild Alþingistíðinda. (1090)

22. mál, umræðupartur Alþingistíðinda

Jakob Möller:

Það er að vísu ástæðulítið fyrir mig að standa hjer upp, þar sem till. hefir komið fram um að vísa málinu til þeirrar nefndar, sem jeg á sæti í. En þó virðist mjer rjett að benda hv. þm. strax á eitt atriði, sem ekki sýnist vera þeim enn fyllilega ljóst, en það er, hvað sparnaðurinn er í raun og veru fjarskalega lítill.

Hv. flm. frv. segja, að prentun á umræðuparti þingtíðindanna í fyrra hafi kostað ca. 50 þús. kr. Þetta er vafalaust rjett, en hins ber þá og að gæta, að það þing var eitt með allra lengstu þingum, sem háð hafa verið. Og enginn vafi er á því, að þetta þing verður langtum styttra, að minsta kosti hvað umr. snertir, sem ráða má af því, hve fá stj. frv. liggja fyrir þessu þingi. Í fyrra hafði ein nefnd t. d. um 20 stj.- frv. til meðferðar, sem öll voru rædd og afgreidd frá þinginu. Nú eru stj.-frv. öll um 20 talsins. Það má því efalaust gera ráð fyrir því, að prentkostnaður umræðuparts nú verði helmingi lægri en í fyrra, eða að eins ca. 25 þús. kr.

Auk þessa er vert að athuga, að þótt svo heiti, sem umræðuparturinn falli úr þingtíðindunum, þá verður þó ekki hjá því komist nú að prenta ýmislegt það í skjalapartinum, sem áður hefir heyrt hinum til, og verður sú prentun þá dýrari en áður og skjalaparturinn lengri en ella.

Loks verður ekki hjá því komist að vjelrita allar umræður í nokkrum eintökum, til afnota bæði handa þm. og öðrum. Þegar allur þessi aukakostnaður er tekinn með í reikninginn, þá fer að koma nokkuð mikið upp í þessar 25 þús. kr. Gæti jeg best trúað, að sparnaðurinn yrði í hæsta lagi ca. 10 þús. kr., og er þá sparnaðurinn meira orðið að sýnast en vera. Og ef svo skyldi fara, að prentun umræðupartsins yrði tekin upp aftur, þá yrðu umr. frá þessu þingi vitanlega prentaðar síðar, og verður þá ekki neitt úr sparnaðinum.