20.02.1922
Neðri deild: 5. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (1091)

22. mál, umræðupartur Alþingistíðinda

Flm. (Einar Þorgilsson):

Hæstv. fjrh. (M. G.) hefir að miklu leyti svarað hv. þm. Dala. (B. J.) því, sem jeg þurfti.

Það er misskilningur hjá þeim hv. þm. (B. J.), að hann segir mig hafa meint svo, að ríkissjóður ætti einn að spara, en meining mín var, að allir ættu að hafa samtök um að spara.

Sami hv. þm. (B. J.) kvað mig hafa gert of mikið úr því, hve hag ríkisins væri komið í ilt efni og að lánstraust ríkissjóðs væri þverrandi eða í þrot komið. Jeg tók svo eftir hæstv. fjrh. (M. G.), þegar hann lagði fram fjárlögin, að lán mundi naumlega fáanlegt eða alls ekki. Og mín skoðun er sú, að hag ríkis og einstaklings sje nú svo komið, að vafasamt sje, að hægt sje að fá lán erlendis.

Sami hv. þm. (B. J.) lagði áherslu á, að sú grein, sem við vildum spara, væri lítilsverð. Jeg viðurkenni það, að út af fyrir sig er þessi sparnaðargrein þess ekki valdandi, að við losnum úr fjárkreppunni, en ef í þessa átt væri haldið á öllum sviðum, þá gæti það að gagni komið.

Þessi hv. þm. (B. J.) sagði, að ef hætt væri að prenta umræðupartinn, þá væri það sama sem að halda þingið fyrir luktum dyrum. Að vísu er þetta að því leyti rjett, sem þingtíðindin eru lesin úti um land. En mjer er ekki kunnugt um, að Alþingistíðindin sjeu lesin á hverju heimili til uppbyggingar. Getur það að vísu átt heima hjá þessum hv. þm. (B. J.), að ræður hans eru margar betur lesnar en ólesnar, en fallið hafa þó hjá honum þau orð, sem jeg ekki get talið alþýðu til uppbyggingar.

Háttv. þm. Str. (M. P.) sagði, að þetta mál ætti að leggja fyrir kjósendur áður en það yrði lögbundið. Að svo miklu leyti sem það hefir komið til tals milli mín og kjósenda, þá hafa þeir talið þeim kostnaði betur varið til annars. Jeg held þess vegna, að jeg geti af þeirri ástæðu mælt með, að þessi gjaldapóstur verði feldur niður.

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) reiknaði kostnaðinn við prentun umræðupartsins miklu lægri. En það mun hafa verið að mestu út í bláinn gert. Enginn getur um það sagt, hvort umr. á þessu þingi verði stuttar eða langar.

Eftir ummælum hv. þm. Dala. (B. J.) mætti ætla, að hann teldi þingræður bestu auglýsingu með þm. til þess að ná endurkjöri, og mætti því ætla, að ef prentun umræðuparts Alþingistíðindanna fjelli niður, yrði það til þess, að bæði þessi hv. þm. (B. J.) og aðrir töluðu heldur minna.