20.02.1922
Neðri deild: 5. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í C-deild Alþingistíðinda. (1095)

22. mál, umræðupartur Alþingistíðinda

Sveinn Ólafsson:

Jeg vil ekki gefa tilefni til þess, að umræðupartur Alþingistíðindanna lengist, ef það á að standa við hin fornu ákvæði. En jeg verð þó að lýsa skoðun minni, og hún er hin sama og 1919. Jeg get því tekið undir með hv. þm. Dala. (B. J.) og hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) um flest. Þó fanst mjer hv. þm. Dala. leggja fullmikla áherslu á þá hlið málsins, sem að prenturunum snýr. Fyrir mjer er það aðalatriðið, að mjer virðist hjer tekið frá almenningi menningargagn, sem hann má ekki án vera. Mjer virðist með þessu seilst í vasa þess, sem minst á og síst má við því. Því það er ómögulegt fyrir almenning úti um land að kynnast störfum þingsins, ef þingtíðindin verða frá honum tekin. Hv. 4. þm. Reykv. (M J.) skaut því fram, lauslega þó, að skjalaparturinn mundi vaxa, ef ræðuparturinn fjelli niður. Jeg veit ekki, hvort menn hafa veitt því eftirtekt, á hvern hátt það má verða, en sú mun þó verða raunin á. Þegar þingnefndir og þingmenn eiga ekki von á því, að umræðurnar verði prentaðar, þá neyðast allir til að hafa greinargerðir og nefndarálit um frumvörpin þeim mun lengri og ítarlegri sem nemur helstu skýringum í framsögu málanna. Jeg held því, að sparnaðurinn verði hverfandi lítill og á kostnað þeirra, sem síst skyldi. Þótt jeg vilji fegins hugar fylgja þeim að málum, sem sparnaðarleiðina vilja fara, þá treysti jeg mjer ekki til að fylgja þeim að þessu máli, og hygg þá vinna fyrir gýg.