06.03.1922
Neðri deild: 15. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (1098)

22. mál, umræðupartur Alþingistíðinda

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Jeg þarf í raun og veru engu við það að bæta, sem í nefndaráliti meiri hl. er tekið fram um þetta mál.

Nefndin hefir rannsakað það allítarlega, hver sparnaður mundi verða að því að fella niður prentun umræðupartsins, og niðurstaða þeirrar rannsóknar hefir orðið, eins og nefndarál. ber með sjer, að sá sparnaður mundi á þessu ári ekki fara fram úr 10 þús. kr., eins og jeg líka staðhæfði við 1. umr. málsins. Öll prentun þingtíð í fyrra nam rúml. 90 þús. kr., auk pappírs. Ætla má, að þau verði þriðjungi styttri í ár, svo að prentkostnaður allur yrði, að óbreyttu verði, um 60 þús. kr. Prentsmiðjurnar hafa þegar boðið fram 10% afslátt, og nefndin fjekk vilyrði fyrir nokkru frekari afslætti, þó að ekkert tilboð liggi fyrir um það, vegna þess að nefndin gat ekki öll orðið sammála um að semja við prentsmiðjumar á þeim grundvelli. En fullyrða má, að alt að 10 þús. kr. afsláttur sje fáanlegur á allri prentuninni, miðað við verðlagið í fyrra, en sá afsláttur er því skilyrði bundinn hvað skjalapartinn snertir, að umræðurnar verði einnig prentaðar. Þess vegna má með rjettu draga þessa upphæð frá prentunarkostnaði umræðupartsins. Að óbreyttu verðlagi á prentun og pappír, mundi prentunarkostnaður umræðupartsins nú nema um 30 þús. kr., en að afslætti þessum frádregnum verða eftir um 20 þús. kr. þar frá mundi dragast verðfall á pappír og nokkur lækkun á öðrum útgáfukostnaði, sem ekki verður áætlað nákvæmlega. Nú er gert ráð fyrir því að afrita umræðumar í að minsta kosti 4–5 eintökum, og er það allmikið verk. Þann kostnað yrði einnig að draga frá, þegar finna ætti út, hver sparnaður yrði að því að fella niður prentunina. Og loks ber þess að gæta, að við það, að prentun umræðupartsins yrði lögð niður, mundi skjalaparturinn lengjast allmjög, vegna þess, að í hann yrðu þá tekin úrslit mála, atkvæðagreiðslur allar o. fl., en prentun hverrar arkar í skjalaparti er 70 kr. dýrari en í ræðuparti. Að þessu öllu athuguðu, hika jeg ekki við að fullyrða, að sparnaðurinn við að fella niður prentun umræðupartsins geti ekki farið fram úr 10 þús. kr. á ári.

Nú ber þess að gæta, að það mundi brátt koma í ljós, að vjelrituðu eintökin af umræðunum yrðu algerlega ófullnægjandi. Fyrst og fremst mundu þau ganga svo fljótlega úr sjer, að þau yrði að endurnýja, en auk þess yrði að fjölga þeim stórkostlega. Það er í raun og veru öllum vitanlegt, að með engu móti verður til lengdar komist hjá því að prenta umræðurnar. — Í þessu sambandi leyfi jeg mjer að minna háttv. þd.menn á það, að undir umræðunni um næsta mál á undan á dagskránni varð hæstv. fjármálaráðherra að senda þingsvein inn á skrifstofu eftir umræðuparti þingtíð frá 1919, til þess að leita þar að skýringum á lögunum um kola- og salttollinn, og það kemur vitanlega oft og einatt fyrir, að fara verður í þingtíðindin til að skýra lög, og það eru ekki að eins þingmenn, sem þurfa á þessu að halda á Alþingi, heldur menn úti um alt land, sjerstaklega dómarar og málafærslumenn. Ef þessari þörf á að verða fullnægt, þá er auðsætt, að vjelrituðu eintökin verða að vera margfalt fleiri en gert er ráð fyrir, og verður þá afritunarkostnaðurinn óhjákvæmilega margfalt meiri en prentkostnaðurinn, svo framarlega sem það er þá bábilja einber, að nokkurt hagræði sje í því að prenta í stað þess að afrita. Niðurstaðan verður því sú, að með því að hætta að prenta umræðumar og láta í þess stað afrita þær er þingið að taka nokkurra alda stórt skref aftur á bak í menningarlegu tilliti.

Ef þetta er rjett, sem jeg hefi nú sagt, þá getur auðvitað að eins verið um það að ræða að fella niður prentun ræðupartsins um eitt eða fá ár, og þá með það fyrir augum, að ræður frá þeim þingum verði prentaðar síðar. Um sparnað verður þá alls ekki að ræða, þegar til kemur, heldur þvert á móti hinn mesta ósparnað. En þó að gengið væri út frá því, að ekki þyrfti að prenta ræðurnar frá nokkrum þingum, þó að prentun yrði tekin upp aftur, þá yrði sparnaðurinn samt hverfandi. Og þó að vitnað sje í vilja landsmanna, þá verð jeg að segja, að jeg met það einskis, vegna þess, að málið hefir verið rangt skýrt á þingmálafundunum af þingmönnum. Í þingmálafundargerðum er talað um prentunarkostnað, sem nemi 90 þús. kr., og er það skiljanlegt, að menn vildu fegnir spara slíka upphæð. En slíkt kemur ekki til mála, og jeg staðhæfi, að ef almenningur hefði gert sjer það ljóst, hvað lítinn sparnað hjer getur yfirleitt verið um að ræða, þá hefði ekki einn einasti þingmálafundur samþykt að fella niður prentun umræðupartsins.

En fyrir augum meiri hl. nefndarinnar er fjárhagshlið málsins engan veginn aðalatriðið, heldur hitt, að það verður að teljast alveg ósæmilegt að loka þannig þinginu fyrir öllum landslýð. Þó að fáir kaupi nú þingtíð, þá eiga þó allir landsmenn þess kost að fá þau og lesa allar ræður, sem hjer eru fluttar. — Og allir landsmenn eiga fulla kröfu til þess að fá að sjá og heyra alt, sem hjer fer fram. Engum hv. þm. kemur til hugar að leggja það til, að þing verði háð fyrir luktum dyrum, í því skyni að spara kostnað við pallavörslu, ræsting o. fl., sem af því leiðir, að almenningur hefir aðgang að þinginu. Sá kostnaður nemur þó nokkrum þús. á ári. En hvaða sanngirniskröfu eiga þessir fáu menn, sem komast fyrir hjer á áhorfendapöllunum, umfram aðra landsmenn til þess að fá að sjá og heyra það, sem hjer fer fram? — Jeg þarf svo ekki að orðlengja þetta frekar. Jeg býst við, að flestir í þessari háttv. deild sjái nú, að spurningin er nú bara, hvort þessir háttv. þm., sem frv. hafa flutt, fást til að játa yfirsjón sína og falla frá því. Frv. er til orðið sökum athugaleysis og fram borið í athugaleysi.