06.03.1922
Neðri deild: 15. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í C-deild Alþingistíðinda. (1099)

22. mál, umræðupartur Alþingistíðinda

Frsm. minni hl. (Þorleifur Guðmundsson):

Háttv. deild hefir nú hlustað á ræðu háttv. frsm. meiri hl., og býst jeg ekki við að hann hafi orkað að sannfæra neinn um skoðun sína. Jeg ætla mjer heldur ekki það að snúa hugum þeirra háttv. þingdeildarmanna, sem þegar hafa tekið afstöðu til þessa máls, en vil að eins lýsa því, á hverju við minni hl. menn bygðum skoðun okkar. Það, sem fyrir okkur vakti með því að vilja fella niður prentunina á umræðuparti Alþingistíðindanna, er sú sparnaðarhugsun, sem ríkir nú með þjóð vorri. Vjer álitum, að það sje ekki nægilegt að hafa þessa hugsun í huga sjer, heldur verði að framfylgja henni þar, sem hægt er, og reyna að spara ríkissjóðinn, eign þjóðarinnar. Og þá virðist sjálfsagt að byrja á því, sem þjóðin má helst án vera, svo sem það, sem hjer er um að ræða. Þessari stefnu er þannig farið, að hún á við alla tíma, hvað þá þessa, sem nú standa yfir. En þótt undarlegt megi virðast, þá eru hjer til menn, sem álíta ríkissjóðinn ótæmandi gullbrunn, sem óhætt sje að ausa úr eftir vild. Þá eru aðrir, sem að vísu segjast vilja spara, nema bara þegar kemur til þeirra eigin launa eða bitlinga; þá rísa þeir öndverðir móti. Og þetta eru einmitt oftast þeir menn, sem minst leggja af mörkum í fjárhirslu ríkisins. — Hv. þdm. hafa nú getað sjeð af greinargerð minni hl. nefndarinnar, á þskj. 22, að 50 þús. kr. hefðu sparast í fyrra, ef umræðupartur Alþingistíðindanna hefði ekki verið prentaður. Er það allmikil upphæð og hefði, að því er jeg hygg, mátt vera varið betur á einhvern annan hátt. Að vísu blandast mjer nú ekki hugur um, að svo mikið sparast ekki, þótt prentun þessa parts verði slept í ár, því nú eru á þingi þeir sparnaðarmenn, sem ekki munu gera þingtímann 1/3 lengri en þörf er á með óþörfum umræðum. En þó að svo verði, þá mun sparnaður sá, sem af þessu leiðir, aldrei nema minna en 30 þús. kr. Að vísu hefir hv. frsm. meiri hl. (Jak. M.) tekist að koma þessari upphæð niður í 10 þús. kr., en það getur, að mínu viti, í mesta lagi kallast spádómur, sem jeg hefi enga von um að mundi rætast.

Hv. frsm. meiri hl. (Jak. M.) komst svo að orði, að ekki væri tiltækilegt að greiða atkv. með því að fella niður prentun á umræðuparti Alþingistíðindanna, sökum þess, að það beri að líta svo á, sem sjálfsagt sje, að allir eigi kost á að vita, hvað gerist á Alþingi. Jeg er honum samdóma í því, enda veit jeg ekki betur en að öllum sje heimilt að koma hingað og hlusta á umr., og jeg veit ekki til, að komið hafi fram nokkrar raddir um að banna það.

Að öðru leyti er í því efni ekki hægt að ganga lengra eða fara nær vilja kjósenda en það sem samþ. hefir verið á þingmálafundum. Hefi jeg leitað vilja þeirra og er mjer kunnugt um, að kjósendur vita fyllilega, hvað það kostar að prenta þetta og keyra svo með það út um allar sveitir. Er það og alkunna, að þegar þessar þykku bækur eru loksins komnar út til sveitanna, þá er tæplega hægt að segja, að hreyft sje við þeim. Hefi jeg sjálfur kynt mjer þetta og sjeð með eigin augum, að óskorið hefir verið upp úr fjölda þeirra. Ef maður svo rekst á blað og blað, sem skorið hefir verið upp úr, þá sjer maður brátt, að ástæðan hefir verið sú, að lesandi hefir þar haft veður af skemti- eða skammaræðu, og finst mjer óþarft að leggja í mikinn kostnað, bara til að ala á slíkri skemtanafýsn landsmanna.

Hv. frsm. meiri hl. (Jak. M.) sagði að þessar undirtektir þingmálafundanna stöfuðu af því, að kjósendum hefði verið skýrt rangt frá og þeim talin trú um, að sparast mundu við þetta 90–100 þús. kr. En það er fjarri því, að svo sje. Það hefir jafnan verið tekið skýrt fram, að allur kostnaðurinn við prentun Alþingistíðindanna næmi þessari upphæð, en hitt vita kjósendur fullvel, að skjalapartur og umræðupartur þeirra er ekki það sama.

Jeg skal svo drepa lítið eitt á aðra ástæðu, sem borin hefir verið fram gegn frv. þessu. Það er atvinnuskorturinn, sem þetta baki prenturum. Eins og kunnugt er, þá er fram komið til þingsins brjef frá Hinu íslenska prentarafjelagi, þar sem prentarar barma sjer yfir því atvinnuleysi, sem að þeim muni steðja, ef frv. þetta nái fram að ganga. Tók þessi hv. þm. (Jak. M.) í þann strenginn, er mál þetta var hjer til 1. umr. Fór hann þá um það fögrum orðum, að ekki væri að óþörfu vert að bæta þessum mönnum við atvinnuleysingjahópinn. Þetta væri nú rjett, ef þessu væri svona varið; en nú er það ekki. Auk þess bera prentarar það fyrir, að ef svona færi, þá muni prentsmiðjumar komast í fjárþröng sökum verkefnisskorts. En jeg geri ráð fyrir, að flestum hjer beri saman um, að það sje ekki ríkissjóðsins að styrkja prentsmiðjur eða launa prentara, enda mun hann hafa ærið nóg á sinni könnu fyrir. Jeg skal taka undir það með hv. frsm. meiri hl. (Jak. M.), að það er sárt fyrir hvern mann, er atvinnuleysi vofir yfir höfði honum. En hins vegar skil jeg ekki, hvernig á því stendur, að prentarar skuli mála framtíðarhimin sinn svo dökkan. Sem betur fer er ástandið með vorri þjóð í þessum efnum enn þá ekki orðið verra en svo, að hver maður, sem fulla krafta hefir og vill vinna, hann getur einhversstaðar fengið atvinnu. Það er sauðarskapur fólksins sjálfs, sem kemur því í þetta öngþveiti. Hingað safnast allir til höfuðstaðarins, sem sauðir í rjett, í stað þess að vera úti á heiðum á beit. Jeg þykist þess viss, að ef þessir prentarar, sem kynnu að missa atvinnu við það, að hætt yrði að prenta umræðupart Alþingistíðindanna, færu upp í sveit í vor til þess að leita sjer atvinnu, þá yrðu þeir sjálfsagt vel þegnir sem aðrir vinnumenn. Og ef þeir vildu búa sjálfir, mundu þeir fá nógar jarðir, því þær eru víða í eyði sem stendur. Og ef þeir vildu snúa sjer til sjávarsíðunnar, þá er nóg af bátum þar sem standa uppi og eru nægilega stórir til að taka 8–10 prentara hver. Og ekki mundi þorskurinn fælast þá frekar en aðra, sem færi nenna að renna í sjó, því þegar þeir væru komnir úr prentarasloppunum og búnir að þvo af sjer prentsvertuna, „þá mætti ekki sjá, hver maðurinn væri“, eins og skáldið átti við.

Þessi orð mín ber ekki að skilja svo, að það sje ætlun mín að veitast að prenturum þessa lands. En hinu verð jeg að halda fram, að það sje fjarstæða að ætlast til þess, að ríkissjóður taki þá á sína arma. Og jeg skal taka það fram, að jeg tel lítinn skaða, þótt prenturum fækkaði svo, að ekki ynnist tími til að prenta ýmislegt af þeim skáldsögum og ljóðarusli, sem árlega er gefið út og gerir ekki annað en að eyða fje og tíma þjóðarinnar. Teldi jeg það vel farið, ef sparnaðarflokkinum auðnaðist, um leið og hann sparar útgjöld ríkisins, að benda einhverjum af þessum villuráfandi lýð heim til föðurhúsanna, upp í sveit eða suður með sjó, til þess að leggja þar starfandi hönd á plóginn, þjóð vorri til viðreisnar. Það er ekki nóg að halda sparnaðarræður bæði utan þings og innan. Það verður að vinna meira en gert er; því sú þjóð, sem lítið vinnur, eignast aldrei mikið, og hefir því ekkert að spara.

Og jeg vil bæta því við, að ef það er rjett, að erlendar skuldir kreppi að þjóðinni, og ef það er rjett, að neyðin kunni að vera á næstu grösum, þá tel jeg fulla þörf að brýna það fyrir hinu háa Alþingi, að því beri að senda þá áskorun til allra stjetta þjóðfjelagsins, að nú verði allir að leggja fram krafta sína til þess beinlínis að framleiða verðmæti, og að þetta sje sjálfsögð skyldufórn, sem hverjum sönnum Íslendingi beri að færa fósturjörð sinni, án þess að taka nokkuð tillit til stjettamunar, — eins og þegar menn leggja fjör sitt á altari fósturjarðar sinnar, til þess að verjast erlendum óvinum.

Nú vil jeg biðja hv. deild að athuga það, sem jeg hefi hjer sagt, áður en hún greiðir atkvæði sitt í þessu máli. Vænti jeg þess svo fastlega, að niðurstaðan verði sú, að hún greiði atkv. sitt með frv. á þskj. 22.