09.03.1922
Neðri deild: 18. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (1104)

22. mál, umræðupartur Alþingistíðinda

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Vegna þess að hv. frsm. minni hl. (Þorl. G.) sagði við 2. umr., að sparnaðurinn af þessu frv. yrði 30 þús. kr., hvernig sem alt færi, en jeg hjelt því fram, að hann mundi aldrei verða yfir 10 þús. kr., þá ætla jeg að rökstyðja þessa staðhæfing mína og sýna hv. deild, að jeg hefi rjett fyrir mjer.

Báðir hlutar nefndarinnar hafa gert ráð fyrir, að kostnaðurinn við prentun umræðuparts Alþt. frá því Alþingi, sem nú situr, muni nema um 30 þús. kr., að pappír meðtöldum. Þetta fjekk hún með því að gera ráð fyrir því, að þetta þing yrði 1/3 styttra en síðasta þing, sem stóð í 99 daga, en prentun á umræðum þess þings kostaði rúmar 50 þús. krónur.

Þess ber nú að gæta, að hægt er að fá afslátt á prentuninni, sem nemur samtals 9 þús. kr. á skjala- og umræðuparti, en sá afsláttur er því skilyrði bundinn hvað skjalapartinn snertir, að umræðurnar verði prentaðar líka, eins og jeg tók fram við 2. umr. Annars fæst enginn afsláttur, og ekki heldur af prentun skjalapartsins. Þar við bætist svo lækkun á pappír og ýmsurn kostnaði, sem jeg tel varlega áætlað 3 þús. kr. Þá er lenging skjalaparts, fyrst vegna lengri nál. og greinargerða, og auk þess öll úrslit mála og atkvgr. Þessa viðbót hyggur skrifstofa þingsins, að eigi muni mega minna áætla en 25 arkir. Nú kostar prentun á hverri örk skjalaparts 240 kr., og verður þá viðbótin öll 6 þús. kr. Þá er afritun á fjórum eintökum eða fleiri, sem hv. minni hl. telur þó þurfa. Það áætla jeg 2 þús. kr., og er síst of hátt. Skrifstofa þingsins tjáir mjer, að það muni vera alt að 8 mánaða verk fyrir einn mann, og mundi þó þurfa annan mann til aðstoðar þessum, en þá aðstoð mundi skrifstofa þingsins ef til vill geta lagt til, og því reikna jeg hana ekki. Pappír í þessi afrit má ætla 500 kr. og samlestur afrita og frumrita 500 kr. Þetta verður þá samtals 21 þús. kr., og þá upphæð má draga frá þessum 30 þús. kr., sem giskað er á, að prentun umræðupartsins mundi kosta, að öllu verðlagi óbreyttu. Eftir verða þá að eins 9 þús. kr. á ári, og fer væntanlega lækkandi ár frá ári, eftir því sem kostnaður allur minkar, þegar vörur og vinna falla. Og ef prentun umræðnanna verður tekin upp aftur síðar, þá hrekkur þessi sparnaður skamt.

Loks vil jeg geta þess að mjer er tjáð, að eftirspurn eftir Alþt. hafi farið vaxandi á síðustu árum, og það svo, að síðasta ár varð að synja mörgum, er vildu fá þau keypt, vegna þess að þrotið var upplagið, en það er 700. Nú hefir einnig verð Alþt. verið hækkað upp í 10 kr., svo að ekki mun hjer eftir verða hægt að segja, að verðið borgi ekki útsendingarkostnaðinn.

Jeg þykist nú hafa rökstutt þá skoðun mína, að sparnaðurinn verði varla meiri en 10 þús. kr. á ári, en aðrar mótbárur gegn frv. þykist jeg ekki þurfa að endurtaka. Þær voru taldar hjer í hv. deild við 2. umr.