09.03.1922
Neðri deild: 18. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (1111)

22. mál, umræðupartur Alþingistíðinda

Frsm. minni hl. (Þorleifur Guðmundsson):

Mjer skilst, að þýðingarlaust sje að þrátta lengur um þetta mál. Afstaða hv. þm. til þess breytist ekki úr þessu. En jeg vil að eins vekja athygli á því, að enda þótt spádómar háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) um að eins 10 þús. króna sparnað rættust, hvað ynnist þá, og hvað tapaðist? Það, sem tapaðist, væri það, að almenningur fengi ekki þessi þingtíðindi, sem sárfáir kaupa og enn færri lesa, og því síst sjer til gagns eða mentunar, en það sem ynnist væri 10 þús. krónur, og yrði prentunin ekki tekin upp aftur, mundi þessi upphæð nema hundruðum þúsunda að nokkrum árum liðnum. Hv. þm. verða vel að gæta þess, að tugirnir gera hundruð, hundruðin þúsundir og þúsundir miljónir.