30.03.1922
Efri deild: 33. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (1124)

22. mál, umræðupartur Alþingistíðinda

Sigurður Jónsson:

Jeg er hv. frsm. (S. H. K.) sammála í öllum aðalatriðum. Þó að jeg sje sparnaðarmaður, þá vil jeg síst spara almenna fræðslu þjóðarinnar, hvort sem það er með því að leggja niður barnafræðslu eða t. d. að hætta að prenta þær umræður, sem hjer fara fram.

Annars er þessi sparnaður tvísýnn, og hefir á ýmsu mátt sjá merki þess. Nál. hafa verið lengri vegna þess, að menn óttuðust, að umr. yrðu ekki prentaðar, og eins hafa menn viljað láta kjósendur sína sjá, hvernig þeir snerust við ýmsum málum, og hefir því oftar farið fram nafnakall en venja er til.

Jeg þarf ekki að benda á óhagræði það, sem leiðir af þessu frv., ef það verður samþ. Það hefir verð gert áður, en jeg vil hjer að eins benda á, að oft þarf að leita í umr. hjer á þingi að lagaskýringum, og væri því bagalegt, ef ekki væri greiður aðgangur til þess. Jeg mæli því með því, að frv. verði felt.