09.03.1922
Neðri deild: 18. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (1154)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Það hefir orðið hlutskifti mitt að lýsa því í fám orðum, hvað vakir fyrir fjvn., er hún ber fram þetta frv.

Nefndin sjer, að fjárveitingin til barnafræðslunnar er orðin ærið há og býst við, að hún fari vaxandi. Þó telur hún fjárveitinguna eigi á neinn hátt hærri en þörf krefur, meðan því fræðslukerfi er haldið, sem nú er.

En tilgangur nefndarinnar er einmitt sá að breyta fræðslukerfinu. — Áður en jeg tel ástæður hennar fyrir þessu. verð jeg að láta undrun mína í ljós yfir umræðum þeim, sem orðið hafa um þetta mál áður en það kom fram. Þótt einhverjar agalegar frjettir hefðu gengið um fyrirætlanir nefndarinnar, þá hefðu menn átt að gefa rúm reiðinni og sjá, hvort fregnirnar reyndust rjettar. Því að komið hefir það fyrir, að ekki væri allskostar rjett hermt frá,

Þá sný jeg mjer að ástæðum nefndarinnar til þess að vilja breyta fræðslukerfinu.

Höfuðástæðan er sú, að nefndin vill auka að miklum mun þekkingu almennings, og þetta er í sjálfu sjer næg ástæða og raunar hin eina ástæða nefndarinnar.

Sú þekking, sem nú er heimtuð af alþýðu manna, er þessi: 1) lestur, að geta sagt frá kunnu efni, málvillu- og ritvillulítið, nokkur ættjarðarkvæði; 2) skrift (snarhönd); 3) það, sem heimtað er í Kristsfræðum; 4) fjórar höfuðgreinar reiknings í heilum tölum og brotum og kunna að reikna með þeim flatar- og rúmmál einfaldra hluta; 5) ýmislegt hrafl úr landafræði, eðlisfræði (eðli hefi jeg í sömu merkingu sem er í formála Snorra-Eddu, um jörðina: gömul at aldartali ok máttig í eðli; aðrir kalla á latnesku náttúrufræði), og atvinnuvegaþekking; 6) nokkur lög. Þetta eiga allir að kunna 14 vetra, og eru nú greiddar til þessa nálega 400 þús. kr. úr ríkissjóði, og til þess að veita börnunum þessa fræðslu eru hafðir 115 fastir kennarar og 92 farandkennarar. Þetta fyrirkomulag þykir nefndinni minna helsti mikið á það, sem umskiftingurinn sagði: „Jeg er nú svo gamall sem á grönum má sjá, og hefi jeg þó aldrei sjeð svo langan gaur í svo lítilli grýtu.“ Milliþinganefnd hefir starfað nú undanfarandi að þessum málum og leggur hún til, að bætt sje við kunnáttukröfurnar tvennu: byrjun í dráttlist og þjónustubrögðum, svo sem að hirða skó, festa hnapp, staga sokk, sauma bót á fat, þvo úr flík. En jafnvel þótt þessu yrði bætt við, telur nefndin það ófullnægjandi alþýðumentun. Hún telur, að hjer eftir verði að koma nám eftir kynþroskaaldur, eða að minsta kosti samfara honum, enda telur hún mestu nauðsyn fyrir hvern mann að hafa velviljaða og viturlega handleiðslu góðra kennara um umskiftaaldurinn, gleðjandi, þroskandi og göfgandi sambúð við samferðamenn á þroskabrautinni, með hollu kappi og metnaði, samfara gagnkvæmri hjálp innbyrðis og víst á fyrirmyndar heimili.

Þetta telur hún mega verða í ungmennaskólum fyrir eina og eina sýslu eða tvær og tvær, eftir staðháttum, og á fyrirmyndarheimilum á sama stað sem skólarnir væru og í sambandi við þá. —

Nefndin telur, að hjer verði að kenna allar þær námsgreinar, sem heimtaðar eru til staðfestingar, til fyllri og dýpri skilnings, og auka allmiklu við. Það tel jeg fyrst, að móðurmálskunnátta hvers manns verður að vera drjúgum meiri en heimtuð verður af börnum til staðfestingar: sæmileg þekking á íslenskri málfræði, og yrði þá auðvitað að fá einhverja til að semja viðunanlega bók til þessarar kenslu; lestur helstu Íslendingasagna, með fullum skilningi, og leikni í því að rita sæmilega gott mál; lögmál íslenskrar kveðandi, einkum að týna eigi hljóðstafssetning, svo sem hin yngri skáld virðast ekki kunna, eða þykjast svo ofurhlaðin andagift, að þau hirða eigi að hlíta því lögmáli, sem aðrir á undan þeim, svo sem Jónas Hallgrímsson, hafa gert. — Þá tel jeg, fyrir hönd nefndarinnar, reikninginn. par þarf ekki að eins að lesa upp og dýpka skilning á hinu lærða, heldur bæta talsverðu við Fjórar höfuðgreinar reiknings í heilum tölum og brotum nægja engum manni til æfinestis í þeirri grein, er menn nefna talnafræði. Þar þarf hver maður við að bæta líkingum með einum óþektum í fyrsta veldi, að minsta kosti, þ. e. a. s. hlutfallareikningi (bein hlutföll og öfug), vaxtareikningi, árgjaldareikningi og helstu setningum um flatarmál og teningsmál. Enn þarf hver maður að læra og kunna svo mikið um reikningshald, að hann geti haldið búreikninga, svo í lagi sje, og aðra reikninga þar á borð við. Þá tel jeg hið þriðja, að hver maður þarf að kunna sæmilega landafræði Íslands og jarðfræði, eðli grasa og dýra, svo og það, er lýtur að atvinnuvegum landsins, sögu Íslands rjett sagða, en ekki eftir bókum þeirra, sem ljelegast rita og engan skilning hafa á sögu; þar með vil jeg telja stjórnarfar og bókmentir, og ætti því að kenna hverjum manni stutt og greinilegt ágrip af þessu öllu, svo að kunnátta í þessu yrði hyggindi, sem í hag koma. Enn tel jeg teikningu, söng og íþróttir, að synda, glíma, fara á skíðum og skautum, og svo alls konar fimleika.

Þessum þekkingarauka mætti ná í unglingaskólum á tveim vetrum, með 8 mánaða kenslu. Þá mætti heita, að ríkið byggi þegnana sæmilega undir æfistarf þeirra, ef það skildist eigi við uppeldi manna fyr en að minsta kosti þessu takmarki væri náð. En þá þyrfti það þó enn að auka fjárframlagið um á að geta 200 þús. kr., ef bætt yrði ofan við það kerfi, sem nú er, og yrðu þá þessi fjárframlög 600 þús. kr., og mundu fara vaxandi.

Þá kem jeg að því atriði, sem þarf að skýra, því, hvers vegna fjvn. ber þetta frv. fram. Það er fyrir þá sök, er nú skal greina.

Fjvn. verður að gera till. um fjárframlög ríkisins til almenningsfræðslu, sem aðra liði fjárlaganna. Og hjer var henni einmitt bent til af stjórninni, þar sem lagt er til í frv. hennar, að styrkur til unglingaskóla lækki úr 40 þús. niður í 25 þús. kr. Nú hafði fjvn. síðasta þings hækkað styrk þennan úr 28 þús. upp í 40 þús. kr. og ætlast til þess, að það yrði til fjölgunar slíkum skólum, og styrkurinn færi síðan hækkandi eftir þörfum, jafnóðum sem slíkum skólum fjölgaði. Og þótt nú sjeu fjórir nýir menn í nefndinni, þá er hún öll á sama máli og nefndin í fyrra. Nefndin sjer á þessu, að gengið er þvert úr leið, og þá einnig hitt, að stjórnin vill eigi auka fjárveitingar til almenningsfræðslu. Og það þykist nefndin og vita, að torsótt muni vera að skeyta ofan við barnaskólana. Þess vegna afrjeð nú nefndin að gera tilraun til að losa landssjóðsfje úr barnafræðslunni, til þess að eiga þá hægara um vik með að sjá fyrir lokamentun almennings. Nefndin sjer nú eigi annað en að þetta megi vel framkvæma, og þeir meinbugir, sem á eru, stafa ekki af því, að kenslan geti ekki orðið jafngóð. Það er engum efa undirorpið, að sveitaheimili geta með hjálp og eftirliti prestsins kent mönnum það, sem heimtað er til staðfestingar. Og við það vinst afarmikils verður menningarauki fyrir landslýðinn, þar sem er sú andlega starfsemi, sem heimilin inna af hendi, er fólkið rifjar upp fornan lærdóm sinn og bætir við sig til þess að geta kent börnunum. „Docendo discimus“, sögðu Rómverjar, og mun sú raun verða á hjer einnig, að menn læra á því að kenna. Mundu menn þá og meta lærdóminn meira, er þeir ættu að vinna að honum sjálfir og kosta hann og bera ábyrgð á honum. — Í bæjunum verður svo sem verið hefir. Skólarnir verða þar nauðsynlegt böl, sem ekki verður af ljett. Kenslan verður þar hin sama, með sömu mönnum.

Frá þessari hlið er því engum vandkvæðum bundið að framkvæma þessa till. vora. En sökum þess, að fræðslukerfið eftir lögunum frá 1907 hefir nú staðið allmörg ár, þá er komin upp ný stjett í landinu, harla fjölmenn, þar sem er kennarastjettin. Og á undanförnum þingum hefir verið hugsað fyrir því að láta kennarana hafa eigi verri kjör en útigangshestar hafa. Þar eru einu vandkvæðin, sem á eru í framkvæmdinni. Raunar hafa kennararnir að eins verið settir hingað til, og má því vera, að þeir geti eigi látið dæma sjer laun eða skaðabætur, en á það vill nefndin eigi lita. Bæði lögin og setning í tvö ár verður að telja jafngilt föstu loforði til stjettarinnar. Þess vegna tók nefndin það ráð að gera barnaskólum, sem kunna að verða haldnir, að skyldu að gjalda kennurum kaup samkvæmt kennaralaunalögunum. Það getur Alþingi því fremur gert sem það mun halda áfram að veita nokkum styrk til þeirra. En sennilega eru kennararnir eigi trygðir nema því að eins, að stjórnin veiti embættin, og ætti því að bæta því ákvæði inn í lögin. Vera má og, að fleira vanti enn í lögin, t. d. ákvæði um, að kenslumálastjórnin hafi sama eftirlit með skólunum sem nú. Vænti jeg, að það komi fram í umræðunum, og mun nefndin fús að taka viturlegar bendingar til greina, og koma þá með brtt. við 2. umr.

Jeg hefi þá í stuttu máli talið ástæður fjvn., og mega menn sjá á því, að hjer er ekki um neitt sláturfjelag að ræða, því að við viljum skylda hið opinbera til að sjá fyrir því, að farandkennarar missi einskis í. Menn munu og sjá, að höfuðástæðan er ekki sú að spara svo mjög fje ríkissjóðs, heldur hitt, að þurfa eigi að auka fjárframlagið, og komast þó að betri niðurstöðu; með öðrum orðum, verja fjenu betur, fá meira fyrir jafnmikið eða minna.

Jeg skal svo ekki orðlengja frekar um þetta. Menn hafa haft í heitingum við mig og nefndina, að láta okkur gjalda þessa frv., og býst jeg við, að þeir hinir sömu muni nú hyggjast að efna þau heit. Vænti jeg þess þá, að einhverjir aðrir úr fjvn. standi upp til andsvara, svo að jeg standi ekki einn uppi.