09.03.1922
Neðri deild: 18. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í C-deild Alþingistíðinda. (1155)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Þorsteinn Jónsson:

Það var svo að heyra á endi ræðu háttv. þm. Dala. (B. J.), sem menn væru vondir mjög út, af frv. þessu, og mjer skildist svo, sem hann væri allskelkaður yfir gerðum sínum, því hann hjet á nefndarmenn til hjálpar sjer, ef í hart færi. En jeg skal nú lofa honum því að vera ekki harðorður. Annars skal jeg geta þess, að mjer virðist frv. þetta allflausturslega fram borið; það mátti þó varla minna vera en að ítarlegt nál. fylgdi því, þar sem um svo mikilsvert mál er að ræða. Það er hægara fyrir hv. þm. að átti sig á nál. en framsögu, og það þótt meira sje á þeim að græða en framsögu hv. þm. Dala. (B. J.).

Mjer kom það ærið undarlega fyrir, þegar jeg frjetti fyrir nokkrum dögum, að fjvn. hefði í smíðum frv. um frestun á lögum um fræðslu barna og frestun á lögum um laun og skipun barnakennara. Jeg hafði litið svo á, að mentamálin heyrðu undir verksvið mentmn. en ekki fjvn., nema þá ef um nýjar fjárveitingar til þeirra væri að ræða. En jeg þóttist vita, að fjvn. hefði hafið þessi afskifti vegna sparnaðar. Að hún með þessu ætlaði að spara landsfje að miklum mun, þrátt fyrir það, þótt sá sparnaður mundi verða talinn tvísýn ráðstöfun. Þegar svo frv. birtist, sá jeg, að hjer var um nýja stefnu í fræðslumálunum að ræða, en frv. alls ekki flutt af sparnaðarlegum ástæðum. Fjvn. hefir með þessu viljað sýna, að hún væri nokkurskonar yfirnefnd í þinginu. Ef til vill hefir orsökin til þessara afskifta hennar af fræðslumálunum verið sú, að hv. þm. Dala. (B. J.), sem áður hefir verið í mentmn., var nú ekki lengur í henni. En hann hefir samt ekki kunnað við annað en blanda sjer með þessu móti inn í verksvið mentmn. Í frv. felst hans stefna í mentamálunum, og jeg efast um, að sumir aðrir fjvn.-menn hefðu sætt sig við frv. þetta, ef þeir hefðu nokkuð um það hugsað.

Það kannast allir við það, að hv. þm. Dala. (B. J.) ann öllu því, sem þjóðlegt er, jafnframt því sem hann er hugsjónamaður og brautryðjandi á ýmsum sviðum í stjórnmálum vorum. Það fer nú stundum svo á merkum tímamótum, þegar nýjar stefnur og hugsjónir ryðja sjer til rúms, að brautryðjendurnir líta til einhvers fyrri tíma, sem þeim finst að hafi að ýmsu leyti staðið langt framar sinni samtíð. Vilja þeir þá byggja endurreisnina á því að taka þá tíma til fyrirmyndar. Svo var í byrjun 19. aldar um þá menn, er hófu endurreisnarbaráttuna hjer á landi. Þeir litu til þjóðveldistímans gamla, vegsömuðu hann og vildu láta, að svo miklu leyti, sem fært var, byggja endurreisn málsins, endurreisn menningarinnar og endurreisn sjálfstæðisins á honum, — færa málið í forna búninginn, Alþingi á Þingvöll o. s. frv. Og þjóðin hagnýtti sjer þessar bendingar, þar sem hún sá, að þær áttu við. Þá kem jeg aftur að hv. þm. Dala. (B. J.). Hann lítur með aðdáun til horfinna tíma, þegar engir barnaskólar voru til hjer á landi. Þegar heimilin og prestarnir voru ein um að menta börnin. Og það er auðsjáanlegt, eftir frv. að dæma, að þeir tímar, sem hann vill að vjer tökum oss til fyrirmyndar, er fyrri hluti 18. aldarinnar. Samkvæmt frv. því, sem hjer liggur fyrir, sjest það, að hann vill taka til fyrirmyndar barnafræðslufyrirkomulag eins og það var ákveðið í „Forordning um húsvitjanir á Íslandi, 27. maí 1746“. Þessi húsvitjunartilskipun er að ýmsu leyti merkileg, og sannarlega fá prestarnir hjer talsverð viðbótarstörf. Og svo framarlega, sem þeir eiga að fara eftir henni, og sama hegning liggur við vanrækslu á húsvitjunum og þar er ákveðin, þá er sannarlega ekki gott fyrir prestana að vanrækja skyldur sínar í þessu efni. En vitanlega ætlar hv. fjvn. ekki að vera mildari við prestana en foreldrana, ef um vanrækslu er að ræða á skyldum viðvíkjandi barnafræðslunni. Nefndin ætlast til, að sekta megi foreldrana um alt að 1000 kr. fyrir vanrækslu á fræðslu barna þeirra. Húsvitjunartilskipunin, sem nefndin byggir frv. á, mælir svo fyrir meðal annars, með leyfi hæstv. forseta:

„Finnist nokkur prestur vanrækinn þar á, þá áminnist hann í fyrsta sinni af prófasti, en verði það annað sinn, þá múlkterist hann eftir síns kalls inntekt af sinni formegun, hverri peningamúlkt að víxla skal til fátækra barna uppfræðingar.“

Margt er annars merkilegt í þessari tilskipun, en að meiri hluti Íslendinga á 20. öldinni geti felt sig allskostar við hana, það efast jeg um. Auðsjáanlega ætlast hv. fjvn. til þess, að vegur og veldi prestanna vaxi nú mjög. Þeir eiga að vera yfirkennarar og þeim eiga allir að sýna meiri virðingu en alment tíðkast, að nokkrum mönnum öðrum sje sýnd nú á dögum. Í hinni umræddu tilskipun stendur, meðal annars, með leyfi hæstv. forseta:

„Allir þeir, sem eru við sjósíðuna til fiskjar eða Vestmannaeyjum eða svokallaðir lausamenn, skulu um þann tíma sem þeir dvelja þar, í tilliti til þessara húsvitjana, álítast sem prestsins eigið sóknarfólk, auðsýna honum alla hlýðni og virðing og vera við, þá það er ekki öldungis ómögulegt. Sýni þeir sig á nokkurn hátt mótþróanlegir prestsins kristilegu áminningum, þá straffist þeir af þess pláss verslega valdi, svo sem í 5. articula ákveðið er.“

En í 5. articula stendur, að þessi lýður eigi að standa opinberar skriftir og straffast þar að auki á kroppinn. í sama anda og þetta eru auðsjáanlega sektarákvæðin í hinu umrædda frv. Sú stefna, sem kom þessari húsvitjunartilskipun 1746 af stokkunum, var hin svo kallaða „pietista“-stefna, sem Ludvig Harboe flutti hingað til landsins. Um hana má vitanlega ýmislegt gott segja, en að hv þm. Dala. (B. J.) þætti hún svo þjóðleg, sem nú er raun á orðin, það furðar mig stórum. Annars hefir honum láðst að geta um í frv. húsagatilskipunina frá 1746, Hún kom fram viku síðar en húsvitjunartilskipunin og var flutt fram af sömu mönnum og sömu stefnu. Í henni var mönnum bannaður fornsagnalestur og rímnakveðskapur.

Jeg vil þá fara nokkrum orðum um rjett þann og órjett, sem frv. þetta veitir. Með því er numin úr gildi skólaskylda barna og að miklu leyti skylda ríkisins að kosta hana.

Nú berast þær fregnir utan úr heimi hvaðanæva, að þjóðirnar kosti kapps um að efla og auka barnafræðsluna, og leggi jafnvel meiri alúð á barnaskólana en nokkra aðra skóla. Þær þjóðir, sem fyr höfðu ófullkomna barnaskóla og skólaskyldu, efla nú sem mest barnaskólana, fjölga þeim og herða á skólaskyldunni og leggja fram miklu meira fje til barnafræðslunnar en nokkru sinni fyr, þó að margar þeirra sjeu í mestu fjárþröng, svo sem Austurríkismenn. Á aukinni barnafræðslu ætla þær að byggja endurreisn sína, og alstaðar er það að ryðja sjer til rúms, að ríkin kosti barnafræðsluna að mestu leyti. En hjer á landi gerast nú þeir undraverðu atburðir, að fjvn. Alþingis vill koma barnafræðslunni af ríkinu á sveitirnar og heimilin og hætta að skylda ríkið og sveitirnar til að kosta fræðslu barna. En hvar mun þetta koma harðast niður? Að sjálfsögðu á fátæklingum, sem ekki hafa fje til þess að kosta fræðslu barna sinna. Ríkir menn eða efnaðir munu halda kennara til að kenna börnum sínum. Stefna nútímans virðist þó vera sú að hjálpa börnum fátækra manna sem ríkra til þess að ná sem mestum þroska og undirbúa þau svo vel, að þau gætu orðið sem nýtastir borgarar þjóðfjelagsins. Jeg veit, að háttv. fjárveitinganefnd mun svara því, að í kaupstöðunum verði það gert, því að þar verði barnaskólar. Sjálfsagt munu kaupstaðirnir halda uppi barnaskólum, en ef þeir einir eiga að kosta skólana, mundu þeir vilja setja skólagjöld fyrir þau börn, sem í þá ganga; enda ber þeim ekki skylda til að halda þeim uppi, ef þetta frv. yrði að lögum, og mundi finnast það óbærilegur kostnaður án slíkra skólagjalda. Sveitirnar yrðu þó enn harðar úti. Það er hreinasta óhæfa að skylda heimilin til þess að kenna börnunum, eins og hjer er gert, því að fæst þeirra hafa tök á því, nema að litlu leyti. Víða vantar menn til þess og víða eru menn svo önnum kafnir, að þeim veitist fullörðugt að kenna börnunum að lesa og skrifa. Heimafræðslan er notadrjúg, það sem hún nær og að því leyti sem heimilin geta látið hana í tje.

Mótstöðumenn barnaskólanna halda því fram, að þeir dragi úr eða drepi heimafræðsluna; en þetta eru hinar mestu öfgar. Skólarnir styðja heimafræðsluna og heimafræðslan skólana. Þetta tvent þarf að haldast í hendur, ef vel á að fara.

Hvernig stendur á, að fræðslulögin 1907 voru lögleidd? Það var vitanlega af því, að löggjafarnir þá sáu, að heimilin gátu eigi látið í tje þá fræðslu, sem var ákveðið að hvert barn skyldi fá.

Háttv. deild veit, að hún hefir sjálf skipað svo fyrir, að landsstjórnin skyldi skipa milliþinganefnd til að rannsaka og gera till. um fræðslumálin. Nú hefir sú nefnd þegar afrekað talsverðu; safnað skýrslum og umsögnum manna um alt land.

Hæstv. landsstjórn lagði í byrjun þessa þings fram frv. um fræðslu barna, sem samið var af þessari nefnd, og hafa hv. meðlimir fjvn. — sem aðrir þm. — fengið í hendur álit milliþinga- nefndarinnar um barnafræðsluna. Milliþinganefndin sendi út um alt land fyrirspurnir um það, hvernig fræðslulögin hefðu gefist, og leitaði álits um barnafræðsluna hjá öllum skólanefndum, kennurum og prestum. Samnefnari af áliti allra þessara manna er frv. það, sem stjórnin lagði fyrir þingið. Engir þeirra, sem svöruðu fyrirspurnum þessum, vildu láta afnema skólaskylduna, eins og ætlast er til með þessu frv. fjvn., og allir vildu þeir láta bæta barnafræðsluna. Að mínum dómi hefir milliþinganefndinni tekist mætavel í till. sínum um barnafræðsluna. Þær eru að vísu allar bygðar á þeim grundvelli, sem þegar var lagður, auk þeirrar reynslu, sem fengin er, en þær horfa allar til bóta. Og þær hafa einn kost, sem jeg hugði, að hv. fjvn. metti mikils, og hann er sá, að af þeim leiðir enginn kostnaðarauki fyrir ríkissjóð. Jeg efast að vísu um það, að allir þeir, sem skipa fjvn., hafi lesið till. og nál. milliþinganefndarinnar, því að þá hygg jeg, að þeir hefðu ekki komið fram með annað eins vansmíði eins og frv. það er, sem nú er rætt um. Slík hroðvirkni, hugsunarleysi og hringlandi í löggjöf, sem það sýnir, er þinginu til lítils sóma.

Jeg vil nú með fáum orðum minnast á lögin um skipun kennara. Samkvæmt þeim eru kennararnir starfsmenn ríkisins og settir í störfin af ríkisstjórninni. Jeg efast um, að ríkið hafi rjett til að segja þeim upp og skuldbinda sveitarfjelögin til þess að gjalda þeim. Þessi lög eru nú tæpra þriggja ára gömul, en með þeim er kennurum lofað æfilöngu starfi, ef þeir reynast nýtir og staða þeirra verði eigi óþörf. Í þeirri trú, að ríkið stæði við gerðan samning, hafa þeir tekið að sjer þessi störf.

Ekki munu sveitarfjelögin þakka fulltrúum sínum það, ef þeir þyngja svo byrðar þeirra, sem ætlast er til með frv. þessu, og síst allra munu mæður í þessu landi þakka það, að numin verði úr lögum hjálp sú, er ríkið hefir áður lofað þeim til fræðslu og uppeldis barna þeirra. — Mentmn. hefir nú frv. stjórnarinnar til athugunar. Virðist mjer, að fjvn. hefði átt að bíða með sínar till. þangað til það var komið inn í þingið aftur.

Jeg er ekki trúaður á það, að þingið samþykki frv. þetta, sem nú er rætt um, því ef það yrði að lögum, mundi leiða af því aukinn kostnað fyrir þjóðfjelagið. Kraftarnir mundu sundrast, heimiliskennarar mundu verða fjöldamargir og kenslan mundi yfirleitt kosta miklu meira en nú, en fátæk börn yrðu út undan hvað fræðslu snertir.

Jeg ætla ekki að ræða um einstakar greinar þessa frv. Það bíður samkvæmt venju til 2. umr., ef það annars lifir svo lengi. Jeg teldi rjettast, að deildin stytti því stundir nú þegar, til að eyða ekki tíma þingsins í langar umræður um það.

Slíkar stökkbreytingar sem þær, er hjer er ætlast til að gerðar verði á fræðslulöggjöf þjóðarinnar, veit jeg að þingið felst ekki á. Væri ekki hægt að gera þær nema eftir rannsókn og ítarlega athugun, enda mun flaustur og tíðar breytingar í löggjöf hvergi vera óheppilegri en í skólalöggjöfinni. —

Einn hinn allra fróðasti maður um kenslumál, sem hefir kynt sjer fræðslumál bæði utan lands og innan, og er auk þess prófessor við háskóla vorn, hefir kallað þetta frv. „frv. til laga um útburð barna“. (B. J.: Hvaða prófessor?). Jeg vona, að háttv. þm. Dala (B. J.) verði aldrei svo þjóðlegur, að hann vilji halda slíkum lögum til streitu. Jeg held að hann hafi verið hræddur um, að þetta þing yrði stutt og ekki væri nægilega margt til að tala um, og hafi þess vegna samið frv. þetta. Enda mun hann ekki geta ætlast til þess, að þingið semji langa lagabálka, sem það rífur niður næsta ár, að það láti landsstjórnina setja menn til starfa svo hundruðum nemi og lofa þeim æfilöngu starfi, og segja þeim upp vistinni þegar á næsta ári eða skipa einhverjum öðrum að gjalda þeim laun. Jeg trúi því ekki heldur, að ljóminn frá miðri 18. öld sje svo mikill í augum hans, að hann vilji í alvöru rifa það niður, sem reist var á 20. öldinni í landi voru, að því er við kemur fræðslumálum. — Það hlýtur annars að vera mikil aðdáun hans á húsvitjunartilskipuninni og húsagatilskipuninni frá 1746.

Þegar talað var um breytingu mentaskólans, vildi háttv. þm. Dala. (B. J.) að vísu láta færa hann í forna farið, en það var ekki frá 18. öld, heldur að eins nokkru fyrir síðustu aldamót.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) sagði í ræðu sinni, að gjald ríkissjóðs til barnafræðslunnar mundi fara hækkandi. Jeg sje enga ástæðu til þess, að svo verði. Eina ástæðan til þessa gæti verið sú, að fólkinu fjölgaði í landinu, þannig að setja yrði fleiri kennara. En þess ber að gæta, að það er ákvarðað með lögum, hve mikið skuli gjalda til barnafræðslunnar, en hins vegar greiða sveitarfjelögin vissan hluta af launum kennara. Aftur á móti eru allar líkur til þess, að dýrtíðin minki og í samræmi við það kaup kennaranna. Hv. þm. Dala. (B. J.) virtist hafa áhuga á því að auka almenna þekkingu unglinganna. Það er nú ekki auðvelt að sjá það af frv., en látum svo vera, að það hafi vakað fyrir háttv. fjárveitinganefnd. Skólaskylda unglinganna er þar að sjálfsögðu ekki heldur tekin fram, en þm. Dala. (B. J.) tók það fram, að hann vildi láta unglingana ganga í skóla í 2 ár og gerir ráð fyrir því, að á þeim tíma nái þeir sæmilegri þekkingu; en mín skoðun er sú, að með þessu móti mundu unglingaskólarnir verða að barnaskólum, eða kæmu í stað þeirra, því að ef barnaskólana vantaði, mundu unglingaskólarnir aldrei ná tilgangi sínum. Ef þeir eiga að vera góðir, verða þeir að byggjast á góðri barnafræðslu.

Þm. Dala. (B. J.) reyndi að snúa út úr tilgangi fræðslulaganna frá 1907 og því, hve mikil þekking væri heimtuð af 14 ára börnum. Þar er auðvitað átt við hina minstu þekkingu, sem hægt er að heimta, og annað ekki. Eftir því, sem jeg veit best, er í reglugerðum barnaskóla ákveðin miklu meiri kensla og víðtækari, sem lágmark, en fræðslulögin heimta.

Eitt þykir mjer furðulegt um jafngáfaðan mann og háttv. þm. Dala. (B. J.), að hann virðist ekki líta á annan tilgang skólanna en þann að auka kunnáttu, en ekki þann tilgang þeirra að hafa bætandi áhrif á skap, hugsun og framferði barnanna eða þá mentun, sem þau hljóta af áhrifum góðs kennara. Jeg tel það aðaltilgang skólanna að hafa áhrif til bóta á sálarlíf og lund barnsins og liðka þau til náms, yfirleitt að gera þau að betri og þroskaðri mönnum en ella.

Jeg veit, að háttv. þm. Dala. (B. J.) muni vera mjer sammála um það, að tvent sje lærdómur og mentun. Hið fyrra er viss forði til að muna, en hið síðara er þroskun, er gerir menn betri, gáfaðri, víðsýnni og hæfari til að lifa lífinu. Hvorttveggja er nauðsynlegt. Ef unglingur, sem er illa að sjer í þeim undirstöðugreinum, sem heimtaðar eru til fermingar, er illa læs, illa skrifandi o. s. frv., kemur í unglingaskóla, fer ekki hjá því, að annaðhvort verður honum námið til lítilla nota eða að þessi unglingaskóli verður að starfa að miklu leyti eins og barnaskóli. Um hitt vil jeg ekki deila, að unglingar sjeu hæfari til að læra og leggja á minnið en börnin.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) tók það skýrt fram, að það væri ekki meining sín eða fjárveitinganefndar að slá nokkurn mann af. Það hefir nú víst enginn skilið svo, en hitt liggur í hlutarins eðli, að menn, sem ekki þarf lengur við í þjónustu ríkisins, verður annaðhvort að setja af með launum eða án launa. Nefndin ætlast nú ekki til þess, að ver verði farið með kennarana en aðra embættismenn ríkisins, en hitt er aðalatriðið, að hún vill skylda aðra aðilja til að gjalda þeim en þá, sem lögum samkvæmt eiga að gera það.