10.03.1922
Neðri deild: 19. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í C-deild Alþingistíðinda. (1160)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Forsætisráðherra (S. E.):

Sökum þess, hve stutt er síðan við tókum við stjórninni, hefi jeg enn þá ekki haft tíma til að rannsaka þetta mál ítarlega. Jeg verð því að láta mjer nægja að tala stuttlega um það nú, en áskil mjer rjett til þess að fara ítarlegar út í það síðar.

Jeg fæ ekki betur sjeð, er jeg lít á ástæðurnar fyrir þessu frv., en að hjer geti alls ekki verið um neina sparnaðarráðstöfun að ræða. Það er tekið fram í aths. við frv., að ætlast sje til, að þeir kennarar, sem missa kynnu atvinnu sína sakir þessara ráðstafana, fái aðra atvinnu jafngóða, og sje landsstjórn og hjeraðsstjórnum skylt að sjá fyrir því. Jeg á bágt með að skilja, hvernig stjórnin geti annast þetta, án þess af leiði mikinn kostnað fyrir ríkissjóð. Á sama þskj. stendur svo, að fje því, sem sparist við þessar breytingar, skuli varið til aukningar unglingafræðslunni. Af þessu er auðsætt, að hjer er ekki að ræða um neinar sparnaðarráðstafanir, heldur um breytingar á grundvallarfyrirkomulagi fræðslumálanna. Það liggur því beinast við að snúa sjer að því, hvort þetta nýja fyrirkomulag sje æskilegra en það, sem fyrir er.

Jeg verð þá fyrst að geta þess, að mjer finst það næsta óeðlilegt, að sú nefnd í þinginu, sem mestum og erfiðustum störfum hefir að gegna, skuli, auk annara starfa sinna, geta komið fram með gerhugsaðar till. um það, hvernig fræðslumálunum skuli fyrir komið í landinu. Þetta er þeim mun undarlegra, sem hjer er um að ræða þau mál, er mikilvægust eru talin með öllum menningarþjóðum. Býst jeg við, að þessu sje einnig þannig varið með vora þjóð, og tel jeg óráðlegt að viðhafa fljótfærni í slíkum málum.

3. liður ástæðnanna fyrir frv. þessu byrjar svo: „Kerfi það, sem nú er, má eigi festast, og er allilt, að þetta frv. kom eigi fram fyrir nokkrum árum.“ Við þessu verð jeg að segja það, að kerfi það, sem hjer er talað um, er þegar orðið fast, og það fyrir löngu. Það hefir verið að festast alt frá 1907, og hlýtur þessi ástæða því að teljast einskisverð.

Jeg skal taka það fram í sambandi við þetta, að jeg hefi heyrt, að ein af ástæðunum fyrir frv. þessu sje sú, að mönnum hrjósi hugur við að greiða barnakennurum þau miklu laun, sem ákveðin voru 1919, og vilji þess vegna fyrirbyggja, að þeim verði veittar þessar stöður. — En jeg vil nú biðja hv. deild um að athuga 14. gr. þessara laga. Þar stendur:

„Verði sú breyting gerð á fræðslu- eða skólahjeruðunum eða fræðslumálunum yfirleitt, sem gerir stöðu kennarans óþarfa, skal hann eftir löglega uppsögn láta af henni endurgjaldslaust.“

Hjer er sá varnagli sleginn, að ef Alþingi síðar meir kæmist að þeirri niðurstöðu, að fræðslufyrirkomulag þetta væri óheppilegt eða of dýrt, þá ættu kennarar þessir enga lagalega kröfu til skaðabóta.

Jeg drap á það í upphafi ræðu minnar, að ekki væri hægt að sjá af frv. þessu, að það sje fram borið af sparnaðarástæðum. En það er ekki einasta, að svo sje ekki, heldur er hjer krafist meira fjár en í fræðslulögunum frá 1919. Því hjer er það tekið fram, sem ekki er í þeim lögum, að kennarar þeir, sem missa kunni stöður sínar, skuli halda launum sínum eða fá aðra atvinnu jafngóða þeirri, sem þeir mistu.

Jeg verð einnig að endurtaka það, að óhugsandi er með öllu, að nefnd, sem svo miklum störfum er hlaðin sem fjvn., sje treystandi til að koma fram með viðunandi till. um breytingu á fræðslufyrirkomulagi landsins. Fræðsla barna og unglinga er svo þýðingarmikið mál, ekki síst á þeim tímum, sem nú standa yfir, að ekki má með nokkru móti hrapa að neinu í þeim sökum. Það er langt frá, að heimafræðsla sje útilokuð með þessu fyrirkomulagi, sem nú er. Það er þvert á móti ætlast til þess, að hún fari fram til 10 ára aldurs. Þá taka barnaskólarnir við til 14 ára aldurs, og því næst koma unglingaskólarnir, sem styrktir eru af ríkissjóði. Þeir unglingaskólar, sem nú starfa hjer á landi, eru:

Núpsskóli, sem er tveggja ára skóli.

Hvítárbakkaskóli, einnig tveggja ára, Hjarðarholtsskóli,

Eiðaskóli, sem einnig má telja með unglingaskólunum, þó að búnaðarnámsskeið sje þar haldið á vorin.

Þá er Þingeyingaskóli, sem er tveggja ára skóli, og að síðustu Víkurskóli.

Jeg skal nú ekki fara langt inn á grundvallaratriði fræðslumálanna, en jeg verð að líta svo á, að það sje mjög varhugavert að leggja barnaskólana, sem nú starfa, niður. Jeg skal að vísu játa, að mörg heimili hjer á landi eru fær um að veita börnum þá fræðslu, sem þau fá nú í skólunum, en fræðslukerfið má ekki miðast við nokkur heimili; það verður að ná til allra, jafnt fátækra sem ríkra, og það gera einmitt þau fræðslulög, sem nú eru í gildi. Jeg lít svo á, að þetta fyrirkomulag sje það rjetta. Hitt er annað mál, hvort ekki mætti gera það kostnaðarminna eða hagfeldara á einhvern hátt. Jeg skal játa, að það er æskilegt, ef hægt væri að auka unglingafræðsluna og fjölga þeim skólum, en ef velja á milli þess að sleppa barnaskólunum og fjölga hinum, þá álít jeg, að hiklaust beri að velja það fyrra.

Jeg verð enn að endurtaka það, að ekki komi til nokkurra mála, að önnum kafin þingnefnd geti fundið upp það rjetta fyrirkomulag í þessum efnum. Þetta er þeim mun fjarstæðara, sem önnur nefnd hefir einmitt verið skipuð til að athuga þessi mál. Hafa hennar till. stefnt í sömu átt og fræðslulögin 1907 og 1918. Að vísu hefir þar verið aukið við lítið eitt, svo sem um leikfimi, söng og fleira, en í aðaldráttunum hefir hún samt fallist á það fyrirkomulag, sem er. Þegar litið er á það, að þetta fyrirkomulag hefir nú staðið um 15 ár, og svo fyrir skömmu verið endurskoðað af reyndum og „fag“-fróðum mönnum, án þess að lagðar sjeu til breytingar í nokkrum aðalatriðum, þá virðist það varla ná nokkurri átt að rjúka nú alt í einu upp og fara að breyta þeim með slíkri hvatvísi.