10.03.1922
Neðri deild: 19. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í C-deild Alþingistíðinda. (1166)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Sveinn Ólafsson:

Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) beindi til mín þeirri fyrirspurn, hvort jeg sæi mjer ekki fært að fella úr hinni rökstuddu dagskrá minni þann þátt, er lýtur að því að fresta veitingu kennaraembættanna, samkvæmt lögum 28. nóv. 1919, um laun og skipun barnakennara. Jeg treysti mjer ekki til að verða við þessari ósk, vegna þess, að jeg álít, að það sjeu einmitt þessi lög, sem best rótfesta gamla fyrirkomulagið, og jeg er ekki með öllu sannfærður um, að kennararnir hafi nú lagalega sama rjett eins og ef embættin væru veitt þeim. En annars er þetta lögfræðileg spurning, sem aðrir eru mjer færari um að skera úr. Í annan stað vil jeg ýta undir, að þessi lög verði endurskoðuð. Ef fara á að breyta fræðslufyrirkomulaginu þannig, að hið opinbera kosti unglingafræðsluna, en heimilin og hjeruðin barnafræðsluna til staðfestingaraldurs, þá þarf einmitt að endurskoða þessi lög, því að þá eiga þau ekki við lengur.

Hv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) talaði um sparnað í sambandi við þetta frv. Jeg kannast ekki við, að það geti verið rjett, að fje sparist með þessu; það getur ekki verið, ef maður les ástæðurnar fyrir frv. þessu. Yfirleitt finst mjer alt sparnaðartalið koma í baksegl við ástæðurnar fyrir frv. Sami hv. þm. (Þór. J.) tók það fram, að till. nefndarinnar væru ekki röskun á fyrirkomulaginu sem nú er, heldur að eins frestun, meðan þjóðin áttaði sig á málinu. En það er þó altaf röskun á fyrirkomulaginu, meðan á fresti þessum stendur.

Hv. þm. Dala. (B. J.) er ekki viðstaddur. Jeg finn heldur ekki hvöt hjá mjer til að fara að togast á við hann; þótt hann viki nokkrum hnútum að mjer, þá snerti það ekkert málið. Mjer þótti það undarlegt, að hann talaði um fullan 200 þús. kr. sparnað af frv. í sömu andránni og hann taldi það miða til aukinnar og bættrar fræðslu, með því móti þó, að efnd væru öll þau loforð, sem nefndin ætlaðist til, að efnd væru við kennarana. Það er þá eins og einhver loforð sjeu til, sem hún ætlast til, að ekki verði efnd.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar; jeg stóð að eins upp til að gera grein fyrir því, hvers vegna jeg sje mjer ekki fært að breyta rökstuddu dagskránni.