11.03.1922
Neðri deild: 20. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í C-deild Alþingistíðinda. (1176)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Magnús Pjetursson:

Jeg hafði kvatt mjer hljóðs áður en háttv. frsm. (B. J.) tók síðast til máls, því jeg þóttist vita, að jeg mundi verða að hlaupa í skörðin, er hann gat eigi lengur haldið uppi sókninni. Mál þetta hefir margar hliðar, en það er aðallega ein þeirra, sem jeg ætla að gera að umtalsefni, — sparnaðarhliðin. En þar verð jeg að fara dálítið aftur í tímann. Fjöldi þm. mun hafa haldið þingmálafundi áður en þeir fóru á þingið, og munu þeir minnast, að á þeim fundum var það höfuðatriðið að knýja þm. til sparnaðar. Síðan er á þing kemur hefst sparnaðurinn þegar, og það svo mjög, að þm. hafa ekki samvinnu um hann, heldur samkepni.

Yfirboð eru gerð og nýjar og nýjar leiðir reyndar — auglýsingaleiðir — sbr. „hjer fást bestar og ódýrastar vörur“. þm. hafa hengt á sig auglýsingaskilti, sem áttu að sanna, að þeir væru mestu sparnaðarmennirnir.

Alt þetta mætti nefna sem nokkurs konar erindisbrjef fjvn., ef hún annars hefði nokkuð, þegar nefndin nú byrjaði á störfum sínum, var henni það þegar auðsætt, að erfitt var að spara nokkuð að mun; til þess var fjárlagafrv. alt of nærskorið. Hún sá einnig, að ómögulegt mundi verða að komast hjá halla, þó að einn og einn maður væri skorinn niður. Eina ráðið var að ráðast á garðinn, þar sem hann var hæstur, og til þess voru þessar leiðir helstar: fyrst sú, að fresta öllum verklegum framkvæmdum eða leggja niður æðri stofnanir í bili, og enn var sú leið til, að fresta framkvæmd fræðslulaganna um stund, og þar sem við það sparaðist stærsti liður fjárlaganna, var eigi nema eðlilegt, að nefndin athugaði þessa leiðina sjerstaklega. En eins og margsinnis hefir verið tekið fram, bæði af háttv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) og hv. þm. N.-Ísf. (S. St), hefir nefndin ætlast til, að þessi frestun væri að eins í bili. Öll nefndin var sammála um það, að fræðslukerfið stæði til bóta, og því væri lítið tjón að því, þótt framkvæmdum þess væri frestað í bili, meðan betur væri rannsakað, hvað best mundi og sýnt, hvað þjóðin vildi.

Það hefir annars verið minst á það að fjvn. væri að sletta sjer fram í það, sem henni kæmi ekkert við, en hjer til er því að svara, að það mundi erfitt verða fyrir fjvn. að starfa, ef hún mætti ekki fást við neitt annað en tölur. Enda er það sannast, að það er ómögulegt fyrir fjvn. að skifta sjer að minsta kosti af stærri upphæðum, nema með því að ganga inn á, jeg vil segja verksvið allra nefnda þingsins.

Að síðustu vil jeg vekja athygli á því, að nefndinni er nauðsynlegt að vita stefnu þingsins nú við atkvgr., áður en fjárlagafrv. kemur frá nefndinni til 2. umr.; má nú vita, hver hugur fylgir máli hjá háttv. þm., en það mega þeir vita, að verði þetta frv. felt, þá neyðist nefndin til að ráðast að því, sem mörgum mun enn viðkvæmara og lýtur að viðreisn og eflingu framleiðslunnar, en það eru hinar verklegu framkvæmdir. Atkvgr. um þetta mál verður því góður prófsteinn á sparnaðarhug og sparnaðareinlægni hv. þm.

Hvað viðvíkur till. um að vísa þessu máli til mentmn., er það að segja, að það er einungis grímuklædd banatilraun og hindrar það, að hægt verði að fá hreinar línur um þetta mál fyrir 2. umr. fjárlaganna.