11.03.1922
Neðri deild: 20. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í C-deild Alþingistíðinda. (1179)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg vildi leyfa mjer að beina einni fyrirspurn til hv. fjvn., áður en jeg greiði atkv. um frv. þetta, og hún er sú, að hve miklu leyti nefndin hefir hugsað sjer að hlaupa undir bagga með kaupstöðunum til barnaskólahalds.

Sje svo, að hv. nefnd sjái sjer ekki fært að leggja fram fje til barnaskóla í kaupstöðum, þá get jeg ekki fylgt frv., því að það er kaupstöðunum um megn að halda uppi skólunum af eigin ramleik, og öllum má ljóst vera, að án þeirra verður þar ekki af komist. En vel má vera, að þeir geti tekið meiri þátt í kostnaðinum en þeir hafa hingað til tekið. Annars skal jeg láta þess getið, að jeg er hlyntur því fræðslukerfi, sem hv. frsm. (B. J.) gat um, en í kaupstöðum getur það ekki átt við, og það fyrst og fremst af því, að þar eru engir til á heimilunum til þess að kenna börnunum. Konurnar hafa nóg að starfa innanhúss og mennirnir eru oft á sjó úti heila mánuðina. Í sveitunum er þessu aftur á móti á alt annan veg farið, og þar hygg jeg, að fræðslunni sje eins vel borgið hjá heimilunum sem skólunum.

Þessu vil jeg beina til hv. fjvn., svo að hún viti mína afstöðu til málsins.