15.03.1922
Neðri deild: 23. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (1187)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Magnús Guðmundsson:

Jeg sje það af síðustu orðum hv. frsm. (B. J.), að jeg hefi misskilið meiri hl. fjvn., ef hún legst mjög móti þessum brtt., sem jeg hefi leyft mjer að bera fram á þskj. 88. Að vísu var nú nokkur tvískinnungur í nefndinni við 1. umr., en þó virtist mjer aðallega vaka fyrir mönnum að spara. Nefndarmenn eru sammála um niðurstöðuna, en ósamþykkir um forsendurnar. Hv. frsm. (B. J.) fylgir frv. vegna þess, að hann vill breytingu á fræðslukerfinu, en aðrir nefndarmenn virtust mjer leggja mesta áherslu á að firra ríkissjóð gjöldum í bili, eða fyrst um sinn.

Fyrir þessar sakir hefi jeg ráðist í að bera fram gagngerðar brtt. við frv., til þess að reyna að beina málinu inn á þá braut, sem jeg hygg, að hafi vakað fyrir sumum hv. flm. Og jeg trúi ekki fyr en jeg hefi tekið á, að jeg hafi misskilið þá svo mjög, sem halda mætti af orðum hv. frsm. (B. J.).

Eins og hv. þm. hafa veitt eftirtekt, þá er efni þessara brtt., að aldurshækkun og dýrtíðaruppbót barnakennara greiðist af sömu aðiljum og í sömu hlutföllum og föstu launin, í stað þess, að nú greiðist þetta hvorttveggja að öllu úr ríkissjóði. Þessi regla virðist mjer í alla staði sanngjörn og hygg jeg, að vandfundin verði rjettmæt ástæða fyrir því að láta ríkissjóðinn greiða uppbót á laun, sem viðurkent er, að aðrir eigi að greiða.

Á Alþingi 1919 kom jeg með brtt. í sömu átt og þessar, en þær voru feldar vegna þess, að kaupstaðir, kauptún og sveitir þyldu ekki þessa byrði, en auðvitað átti hið breiða bak ríkissjóðs að þola þetta, eins og alt annað, sem Alþingi 1919 dembdi á ríkissjóðinn, svo að segja fyrirhyggju- og athugunarlaust. En nú er fróðlegt að sjá, hvort hv. þdm. vilja halda áfram á sömu braut, og hvort þeir halda, að bak ríkissjóðs þoli, að af því sjeu ristar jafnbreiðar lengjur og hjer er um að ræða. Þingið 1919 fór í ýmsu inn á nýjar brautir og raskaði þeirri verkskiftingu, sem verið hafði milli ríkissjóðs. sýslusjóða og sveitarsjóða. Jeg reyndi að aftra því þá, en árangurslaust.

Ef þessar till. mínar verða samþ., þá telst mjer svo til, að sparist 150 þús. kr. af ríkissjóðsfje, ef reiknuð er sama uppbótarhæð. 80% af öllum laununum, og fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Þetta er miðað við sama skólahald og nú er. Ef það minkar, vex sparnaðurinn. Til þess opnar till. á þskj. 105 leiðir, ef samþykt verður, en það var líka í frv. því um breytingar á núverandi fræðslulögum, sem stjórnin lagði fyrir þingið, en það frv. hefir ekki verið rætt hjer enn. Það verð jeg að játa, að talsvert af þessu fje verður að koma annarsstaðar að; en svo er einnig um annan sparnað. Þótt embætti sjeu lögð niður, verða þeir, sem gegndu þeim, að lifa eftir sem áður, og fá þá fje til þess annarsstaðar en úr ríkissjóði. Þetta er því engin ástæða gegn brtt. mínum.

Í þessum brtt. er ekkert, er rýrir kjör kennaranna, annað en það, að jeg legg til, að uppbót verði ekki greidd á aldurshækkunina, en ef það skyldi valda ágreiningi, vona jeg, að hæstv. forseti sjái sjer fært að bera það upp sjerstaklega, svo að það þurfi ekki að verða hinum till. að falli. Annars verð jeg að taka það fram, að t. d kennari við barnaskólann hjer, getur með rúml. 7 mánaða vinnutíma komist upp í 5750 kr. árslaun eftir gildandi reglum og 100% uppbót. Í fyrra, þegar uppbótin var hærri, komust launin hátt á 7. þús. kr. Þetta hygg jeg, að flestum þyki ríflega borgað, t. d. einhleypum stúlkum, þegar þær hafa frí nærri hálft árið. Ráðherralaun þola ekki samanburð, enda fylgir þeim ekki önnur uppbót en ríflega úti látnar skammir. Jeg vona því, að jeg þyki ekki of nærgöngull við kennarana með þessari brtt.

Landssjóðshluti af launum barnakennara er nú nálægt því, sem hjer segir:

1. Kennarar við kaupstaðaskóla ca. 40000,00 kr.

2. Kennarar við fasta barnaskóla, utan kaupstaða, ca. 52000,00 kr.

3. Aldurshækkun þeirra (ef brtt. mínar verða samþ.) ca. 10000,00 kr.

Þetta verða alls ca. 102000,00 kr.; þar við bætist 80% uppbót á tvo fyrstu liðina, 73600,00 kr.; þá geri jeg ráð fyrir 80 farkennurum og 300 kr. til hvers að meðaltali, 24000,00 kr. — Þetta verða þá alls 199600,00 kr., sem ætti að verða því sem næst framlag ríkissjóðs til barnakenslunnar, ef mínar till. verða samþ., í stað 350 þús. kr., sem áætlað er í fjárlagafrv. Munurinn er því ca. 150 þús. kr., eins og jeg gat um. — Þessi breyting kemur vitanlega langþyngst niður á kaupstöðunum, en þar næst á kauptúnum og skólahjeruðum, sem hafa heimangönguskóla, en ljettast á sveitunum, sem farkenslu hafa. Fyrir Reykjavík eina munar þetta um nærri 50 þús. kr., og hina kaupstaðina frá 4 þús. til 10 þús. kr., eftir kennarafjölda, en fyrir sveit, sem hefir farkennara, munar þetta ekki meira en 150 kr. að meðaltali, en fyrir aðra barnaskóla ca. 800 kr. á ári fyrir kennara hvern. Nú geri jeg ráð fyrir, að farskólum fækki til muna, enda er beinlínis gefið undir fótinn með það í fræðslulagafrv. því, sem hin fráfarandi stjórn lagði fyrir þetta þing og sennilegt virðist að nái fram að ganga.

Jeg veit vel, að till. mínar leggja talsvert þungar byrðar á kaupstaðina, en mjer finst að ekki sje órjettlátt að skifta launabyrðinni milli ríkissjóðs og hlutaðeigandi sveita eða bæja, en jeg hefi ekki fundið aðra skiftingu sanngjarnari en þá, sem till. mínar gera ráð fyrir.

Jeg tók það fram strax 1919, að lög þessi væru hvatvíslega sett, sjerstaklega að því leyti, að bæir og sveitir áttu að geta ráðið kennarafjölda og kenslutíma, en ríkissjóður að borga brúsann að mestu. Í þetta hlaut að koma afturkippur, en allra hluta vegna vil jeg gera þann afturkipp sem hóflegastan. Það mun öllum vera fyrir bestu.