15.03.1922
Neðri deild: 23. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (1194)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Eiríkur Einarsson:

Mjer er það í raun og veru ógeðfelt að taka hjer til máls, en þar sem jeg er í nefnd þeirri, sem frv. flytur, og ágreiningur hefir orðið um tilgang nefndarinnar með frv., ætla jeg að gera grein fyrir afstöðu minni. Jeg játa það fúslega, að frv. hefir galla enda væri það ofætlun nokkurri nefnd að gera slíkt stórmál úr garði á skömmum tíma, svo ekki yrði að því fundið. Það er t. d. órannsakað mál, hvernig eigi að nota þá kenslukrafta, sem losna við frv., hvernig eigi að nota þá sem best til þess starfa, sem þeim er ætlaður, að uppfræða æskulýðinn, svo að gagni komi. Mjer er það einnig fullljóst, að þó að gert sje ráð fyrir að hverfa aftur til gamla skipulagsins, með yfirumsjá prestanna, þá er það langt frá því að vera fullnægjandi. Prestarnir munu reynast svo á þessu sviði sem öðrum, að sumir eru ágætir, aðrir í meðallagi og enn aðrir pokaprestar. Eins má benda á, að þessi tvöfalda húsvitjun mun reynast prestunum erfið vegna þess, hve prestaköllin eru orðin mannmörg og unfangsmikil. Þá má einnig benda á það, að um það er deilt í öllum löndum, hvort heppilegt sje að láta uppfræðslu barna vera háða kirkjulegum skoðunum. Jeg vil ekki leggja dóm á það hjer; að eins benda á þetta sem íhugunarvert atriði. Þá voru það líka íhugunarverð orð, sem hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) ljet sjer um munn fara, að með þessu fyrirkomulagi, sem stofnað er til, yrðu fátæk börn útundan, efnaðir menn einir gætu veitt börnum sínum sæmilega fræðslu. En þetta er þegar orðið svo. Það hefir reynst erfitt að fá farkennara á fátækari heimili, og er mikið um það kvartað í mörgum fræðsluhjeruðum. Hjer er því að ræða um galla á núgildandi fræðslufyrirkomulagi, og því ekki úr háum söðli að detta. Annars lít jeg svo á, að eins og allir eiga heimtingu og rjett á nauðsynlegu lífsframfæri með sveitarstyrk, ef ekki vill betur, þannig eigi að vera trygð einskonar andleg fátækraframfærsla, ef ekki vill betur. Þetta þarf vitanlega ekki að vera með sama sniði og sveitarstyrkur; það mætti losa það við skuggahliðar hans, en halda hinum. Fátækir menn eiga nú heimtingu á fötum og fæði fyrir sig og sína, og ekki má setja andlegu þarfirnar neðar.

Jeg hefi bent á marga ágalla frv., og þykir mönnum þess vegna ef til vill undarlegt, að jeg hafi gerst flm. þess En þessir gallar eru allir svo, að úr þeim má bæta. Aðalatriðið fyrir mjer er að auka heimafræðsluna. Jeg var einn af hvatamönnum þess, að á síðasta þingi var samþ. þingsályktunartill. um styrk til hjeraðaskóla, og jeg fjekk því skotið inn í till., að barnafræðsla heimilanna skyldi studd af opinberu fje. — Barnafræðslan á að komast inn á heimilin. Það er meginatriðið. Sparnaður hverfur í skugga fyrir þessu, enda má síst spara á þessu sviði. Jeg er fús til að ganga inn á skynsamlegar breytingar á frv., því að nefndin hefir ekki átt kost á því að ræða það til hlítar. Og mjer þykja þeir menn furðu einstrengingslegir, sem tefla vilja á fremsta hlunn, fella eða samþykkja, þó að vitanlegt sje, að frv. stendur til bóta, ef hyggilega er að farið. Jeg lýsi yfir því, að jeg er fús til að taka höndum saman við alla þá, sem færa vilja frv. í betra snið.

Jeg lít svo á, að of mikið sje að því gert að líta á form þessa máls, lögformlegt skipulag þess og ytri aðstæður, en menn hafa ekki lagt eins mikla rækt við anda málsins, sem þó er aðalatriðið. Menn virðast leggja áherslu á það eitt, að æskulýðurinn sje læs og skrifandi og kunni eitthvað í svo og svo mörgum skóla-„fögum“. Það er að vísu mikilsvert, en það í sjálfu sjer hefir ekkert menningargildi í sjer fólgið; það er að eins lykill til menningar. Jeg get vel hugsað mjer læs og skrifandi flón, enda munu þau ekki fá á þessu landi. En jeg veit líka um fjölda hinna gömlu manna, sem vart eða ekki kunna að lesa nje skrifa, en eru þó gæddir menningu, sem hefir annað og æðra gildi. Þeir eru gæddir þjóðlegum menningaranda. en hann virðist ekki hafa aukist að sama skapi og skólamentunin. Nú ber þess að gæta, að forstjóri kennaraskólans, sem býr kennara undir starfa þeirra, er maður, sem einskis lætur ófreistað til þess að veita nemendum sínum kjarnmikla, þjóðlega menningu, og má þá nærri geta, hvernig fara muni, þegar hans missir við, ef skarðið verður ekki fylt. Yfirleitt virðist los og menningarleysi hafa auðkent síðustu tíma, og þó að eigi sje hægt að kenna barnaskólamentuninni um það, þá hefir hún þó sýnt vanmátt sinn til að vega þar á móti og gæða ungdóminn nauðsynlegri, andlegri festu. Eina ráðið, sem mjer virðist tiltækilegt, er að hverfa aftur til heimilanna, því þar er sá grundvöllur, sem traustastur reynist, þegar til lengdar lætur. Náttúrlega verður að sjá svo um, að fátæk heimili verði ekki afskift, og ef þar er vel um hnútana búið, býst jeg við, að þessi leið verði happadrýgri. Jeg efast ekki um það, að íslenskar þjóðsögur og sagnir hafa eins mikið menningargildi og landafræði og fleira, sem troðið er í börnin, án tillits til þess, hvort þau eru fær um að tileinka sjer það eða ekki. En hvað þessi þjóðlegu fræði snertir, hafa heimilin löngum verið skólinn.

Jeg vil að endingu endurtaka það, að þó að frv. hafi galla, þá er meginmál þess svo mikilsvert, að jeg vil ljá þeirri viðleitni fylgi mitt. Um sparnað er ekki að ræða í þessu sambandi. Hann verður aukaatriði, þegar um fræðslu barna er að ræða. Aðalatriðið er fræðsla heimilanna, er hlýtur, að minsta kosti fyrst um sinn, að hafa kennara og kostnað í för með sjer.

Jeg er bundinn við að vera með frv. og get því ekki stutt þær brtt., sem samrýmast því ekki. Svo er t. d. um till. háttv. þm. S.-Þ. (Ing. B.), um að sveitunum sje gert mögulegt að taka að sjer barnakensluna í sínu hjeraði. Jeg verð því að vera á móti henni og öðrum brtt., sem víkja enn meira frá frv.