30.03.1922
Neðri deild: 36. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (1206)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg tala hjer varla sem frsm. fjvn., því að hjer hafa komið fram brtt, frá sumum úr fjvn., sem ekki hafa verið bornar undir nefndina. Jeg skal nú ekki hefja neinar kappræður um þennan stjettaríg, sem hjer hefir verið minst á, en vildi að eins minna á, að tilgangur fjvn. var að losa fje landssjóðs til aukningar unglingamentun, fyrst af því, að nefndin áleit, að of miklu fje væri varið til þess að kenna lestur og skrift, og í öðru lagi vegna þess, að hún áleit, að fræðsla sú, sem börnin fá í skólunum, væri algerlega ónóg undirbúningsmentun og óviðunandi. En okkur heyrðist það á máli manna hjer, að fjárhagur ríkissjóðs væri svo góður, að þeir vildu bæta miklu ofan á það fje, sem nú er veitt til barnafræðslu, svo að unglingaskólar gætu starfað svo að í lagi væri. Ef jeg hefði haldið, að hv. þm. vildu bæta ofan við, þá hefði jeg verið með því, en á því hafði jeg enga trú. Þetta var tilgangur nefndarinnar. Ef menn vilja ekki aðhyllast höfuðástæður þessa frv., þá tel jeg einskisvert um aðrar greinar þess. Jeg er á móti brtt. á þskj. 168. Jeg vil eigi breyta nýjum lögum um laun og skipun barnakennara, og tel það eigi samkvæmt tilgangi nefndarinnar að koma með till. um að lækka laun starfsmanna þessara, ef halda á þeim á annað borð. Jeg lýsti yfir því, að nefndin væri öll á móti þessum till. hv. 1. þm. Skagf. (M. G.), af því að hann tekur fyrir jaðar málsins, en ekki kjarna þess; vill lækka laun kennara, en ekki breyta fræðslukerfinu. Jeg mun greiða atkv. með frv. fjvn., en á móti öllum brtt.