31.03.1922
Neðri deild: 37. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í C-deild Alþingistíðinda. (1209)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Jón Sigurðsson:

Það bar hjer nokkuð á deilum í deildinni í gær, þó að það væri í bróðerni að vísu, en samt get jeg ekki látið hjá líða að svara nokkrum hv. ræðumönnum, og þá helst þeim, sem síðast andmælti brtt. okkar, hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Hann taldi okkur hafa gleymt einu meginatriði í kröfum okkar og launareikningum, en það væri, að í sumar stöður þyrfti afburðamenn. Tók hann sem dæmi, að jeg hefði borið saman skólastjóraembætti við barnaskólann hjer í Reykjavík og stöðu aðstoðarverkfræðings. Jeg vil nú benda á, að ef gerður væri að skólastjóra maður, sem kominn væri nýlega frá prófborðinu, hefir enginn maður sönnun fyrir því, að hann sje afburðamaður, meðan engin reynsla hefir fengist á starfshæfileikum hans; svo er og um aðstoðarverkfræðinginn.

En jeg skal nú látast fallast á þetta, honum til geðs, og tek þá t. d. aðra stöðu, sem jeg hygg að hann muni telja þörf á, að sje skipuð úrvalsmanni. Þessi staða er embætti vegamálastjóra. Laun vegamálastjóra eru 5000 kr. föst laun. Hann þarf 11½–12½ — eða að meðaltali 12 — ár til undirbúnings undir þessa stöðu, en starfstími hans 5 stundir á dag, og þó oft meira. Auk þess hefir hann mikla ábyrgð á höndum fjárhagslega.

Ef maður ber nú þessa stöðu saman við skólastjórastöðuna við barnaskóla Reykjavíkur og dregur frá launum skólastjórans 2000 kr. í ljós og hita, sem jeg hefi áður ofreiknað, hefir hann 3500 kr. í föst laun. Ef nú ætti að launa vegamálastjóra þeim mun hærra, sem hann hefir varið lengri tíma til náms en skólastjórinn, ætti hann að fá þrefalt hærri laun, en ef miðað væri við starfstíma, ætti hann að fá helmingi hærri laun. En þar sem hann hefir hvorugt, er rjett að álykta, að samræmisreglan um laun embættismanna sje hjer brotin.

Jeg get vel skilið, að háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) og aðrir hv. þm., sem taka í sama strenginn, vilji að þetta mál sje rannsakað. En hvað mundi það þýða? Það mundi þýða það, að þá ynnist hæstv. stjórn tími til þess að skipa mönnum öll embætti, og geta þá þeir, sem nokkuð þekkja til, hugsað sjer, hvernig málið þá horfi við.

Þá vil jeg ekki eyða fleiri orðum að þessu, en snúa mjer að hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.), sem því miður er nú „dauður“, og skal jeg því taka sem vægilegast á ávirðingum hans. Hann sagði, að ef kennaralaunin væru of há, væru flest embætti oflaunuð. Þetta er vitanlega ekki annað en sleggjudómur, og þykist jeg áður í þessari umr. hafa sýnt fram á hið gagnstæða. Í öðru lagi hjelt hann því fram, að á kennurunum hvíldi meiri ábyrgð en á flestum embættismönnum, þar sem þeir hefðu með höndum uppeldi æskulýðsins. Þetta er nú að vísu fagurlega mælt, en skyldu ekki prestarnir hafa meiri ábyrgð, þar sem þeir þó hafa andlega ábyrgð okkar allra? Jeg skal engan veginn neita því, að mikil ábyrgð hvíli á kennurunum, en það fylgir ábyrgð velflestum eða öllum embættum og opinberum störfum, og mjög þung á sumum.

Enn hjelt þessi hv. þm. (Þorst. J.) því fram, að margir kennarar yrðu að hafa sig alla við að framfleyta sjer og fjölskyldu sinni fjárhagslega, og væri ekki að marka, þó að einhleypir kennarar hefðu góða afkomu fjárhagslega.

Jeg þekki aftur mörg dæmi þess, að kennarar sjeu efnaðir, þó að fjölskyldumenn sjeu. Launin eiga ekki að miðast við það, hvort Pjetur eða Páll getur með þeim nurlað saman fje, eða hvort Pjetur eða Páll kunna að geta komið þeim í lóg, heldur að eins í samræmi við launakjörin alment.

Þá bar þessi hv. þm. (Þorst. J.) saman kennara og lækna. Jeg vil í því sambandi leyfa mjer að benda á það, að það er ólíkt að vera á ferðalögum í vondum veðrum að vetrarlagi eða sitja í upphitaðri skólastofu. Það hlýtur hv. deild að sjá. Enn fremur þóttist hv. 1. þm. N-M. (Þorst. J.) hafa bent á embættismann, sem væri launaður hærra en kennarar, eftir minni meginreglu; þessi maður er póstmeistari. Jeg hygg nú, að hv. þm. (Þorst. J.) hafi verið mjög óheppinn að nefna þennan mann til dæmis þessa, því það er alkunna, að hann hefir afarmikla ábyrgð á peningum, því að árlega greiðir hann inn og út mörg hundruð þúsundir króna, og verður oftast að láta aðra telja, þó að hann hafi sjálfur alla ábyrgð. Auk þess mun hann vinna 10 stundir á dag eða meira. Sama má og segja um stöðvarstjórann í Reykjavík o. fl.

Þá er næst fræðslufyrirkomulagið. Jeg skal nú ekki verða langorður um það, en fyrir þá sök, að háttv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) beindist að Skagfirðingum sjerstaklega, vil jeg leyfa mjer að votta honum þakklæti, fyrir hönd skagfirskra kennara, fyrir góð meðmæli. (Þorst. J.: Nefndi jeg Skagfirðinga sjerstaklega?). Nei, en allir vissu, við hverja var átt. Jeg tek annars þetta sem það eigi við alt landið, því að þessi hv. þm. (Þorst. J.), hefir áður nefnt til skóla Skagfirðinga sem fyrirmyndarskóla.

Þá nefndi hv. þm. (Þorst. J.) kennarana ýmsum undarlegum nöfnum; líkti þeim við skottulækna og annað þess háttar. (Þorst. J.: Þetta er misskilningur). Jeg er enginn málsvari kennarastjettarinnar, en þó tel jeg þetta ekki rjett. Annars fanst mjer nú dýrðin á fræðsluástandinu vera farin að dvína undir lokin á ræðu hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.), því að þegar hann beindist að fræðsluástandinu í mínu kjördæmi með fremur niðrandi lýsingum gætti hann þess ekki, að með því reif hann niður stein eftir stein það, sem þeir hæstv. forsrh. (S. E.) og aðrir höfðu bygt upp, svo að lokum stóð þar ekki steinn yfir steini.

Frv. sjálft er nú komið í þá kreppu, að ræða hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) getur ekki bjargað því, en jeg harma það mjög, að hann skyldi ekki halda hana fyrir hálfum mánuði, því að þá væri okkar frv. með brtt. komið í gegnum deildina, og líklega orðið að lögum.