31.03.1922
Neðri deild: 37. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (1213)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Þorsteinn Jónsson:

Ráðir hv. þm Skagf. tóku til Skagfirðinga sumt af því, sem jeg sagði í gær. Sömuleiðis sögðu þeir, að jeg hefði fyrir nokkru síðan tekið skólann á Sauðárkróki til fyrirmyndar. Það er satt, að jeg mintist á þann skóla í sambandi við rannsóknir, sem þar hafa verið gerðar í heilsufræðislegu tilliti og líkamsþroska barna. En um kensluna talaði jeg ekkert, hvorki þá nje heldur í gær, og mintist ekki einu orði á skólahald í Skagafirði, enda er mjer það ekki sjerstaklega kunnugt. Þess vegna get jeg ekki að því gert, þó að ýmislegt það, sem jeg taldi ábótavant, hafi rumskað svo við þm. Skagf., að þeir þættust þekkja dæmin.

Jeg sagði heldur ekki, að það eitt væri nóg til þess að vera góður kennari, að hafa lokið prófi á kennaraskólanum.

En á það benti jeg að umsagnir þeirra prófdómara, sem jeg hefi sjeð, ljúka alment lofi á þá kennara, sem lokið hafa prófi í kennaraskólanum. Og í sambandi við það sýndi jeg svo fram á, hve ilt það væri til afspurnar og óhæfa að taka þá menn til kenslustarfa, sem ekki hefðu búið sig undir það. Þeir menn geta verið liðtækir á öðrum stöðum og átt þar heima, þó að þeim af eðlilegum ástæðum, sje ekki hent að fræða ungmenni, svo í nokkru lagi sje.

Og jeg lagði aðaláhersluna á það, að óheppilegt væri nú að koma þessu losi á fræðsluna, en því verður ekki á móti mælt, að þessar breytingar, sem nú liggja fyrir, hljóta að verða þess valdandi, að fræðslan sumpart lendi í handaskolum eða falli algerlega niður. En við því má þjóðin ekki, því ástandið er ekki svo glæsilegt, að minsta kosti hvað farkensluna snertir, að koma megi meira losi á hana eða rýra hana enn til muna. Um þetta hafa margir prófdómarar víðsvegar á landinu látið til sín heyra og meira að segja, svo að jeg nú vitni sjerstaklega í Skagfirðinga, þá hafa prófdómarar í Skagafirði stungið upp á að hafa farkensluna lengri tíma, ef ske kynni, að með því mætti bæta úr þeim misbrestum, sem á henni hafa orðið.

Undanfarið hefir ástandið verið „ónormalt“, og það hefir spilst ár frá ári, með öllum þeim undanþágum, sem búið er að veita.

Lengri athugas. má jeg víst ekki gera, enda hefi jeg ekki miklu að svara.