13.03.1922
Neðri deild: 21. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (1228)

46. mál, afnám kennaraembættis í hagnýtri sálarfræði

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Jeg býst við því, að ekki verði færri ljón á vegi þessa frv. en þess, sem rætt hefir verið hjer í deildinni næst á undan. Það hefir verið rætt mikið um það frv., með og móti, og sje jeg því enga ástæðu til þess að rekja ástæður þessa máls, því þær eru hinar sömu; yrði það því að eins til þess að lengja umr.

Það hefir oft verið svo, er ný embætti hafa verið stofnuð, að þá hefir ráðið meira hagsmunir einstakra manna en þörf þjóðarinnar. Þegar háskólinn var stofnaður, mun engum hafa komið til hugar, að eftir fá ár yrði þörf á að fjölga prófessorum í sálarfræði, en árið 1912 eða 1913 kom út bók eftir ungan og efnilegan heimspeking, sem heitir „Vit og strit“. Bókin var liðlega samin, eins og annað eftir höfund þennan, og efni hennar var sálarfræðileg kensla á verklegum vinnubrögðum. Þetta þótti hin mesta nýlunda, og jafnvel stórkostleg uppgötvun. Eftir það fóru að heyrast raddir um það, hvort ekki mundi þörf á embætti til þess að koma fram þessari hugsjón. Af því leiddi þá þegar, eða skömmu þar á eftir, að þessum efnilega heimspeking var veittur allríflegur styrkur úr landssjóði, mig minnir 3 þús. kr., til þess að gera þjóðinni kunna þessa merkilegu uppgötvun.

Flestir skildu styrkveiting þessa á þann veg, að þessi ungi heimspekingur ætti að kenna verkalýðnum til sjós og sveita vissar líkamsstellingar og hagnýt handtök við algeng vinnubrögð, og menn bjuggust við, að hann mundi ferðast um landið þvert og endilangt til þess að útbreiða ágæti hinnar hagnýtu sálarfræði.

Fyrstu árin mun hann hafa ferðast eitthvað lítið eitt í þessum erindum, og fyrirlestra flutti hann víst nokkra.

En svo nægir honum ekki þessi fjárlagastyrkur, og 1915 fer hann þess á leit, að stofnað sje nýtt embætti við háskólann og hann gerður að prófessor í þessari svo nefndu hagnýtu sálarfræði. Þó varð ekkert af því í það skifti. En 1917 kemur hann aftur til þingsins í sömu erindum. Ekki hafði háskólaráðið þó meiri trú á þessu en það, að ekki vildi það á nokkurn hátt hafa frumkvæði að stofnun þessa embættis. Hefir ef til vill litið svo á, að almenn vinnubrögð þjóðarinnar mundu ekki græða mikið á fyrirlestrum hans við háskólann fyrir embættismannaefnum, sem flestir ganga lítt að algengri vinnu, er þeir koma út í lífið.

Undirtektir þingsins voru ekki betri en það, að embættisstofnun þessi marðist í gegn með eins atkv. mun, í hvorri deild, og bundin við nafn, rjett eins og Alþingi ætlaðist til, að embættið mætti leggja niður, þegar þessa manns nyti ekki lengur við.

Jeg skal játa, að mig skortir þekkingu til þess að dæma um gagnsemi þessarar hagnýtu sálarfræði, en það þykist jeg þó skilja, að notadrýgri mundi hún verða þessi fræðsla með persónulegri návist kennarans við verkalýðinn sem víðast á landinu, í staðinn fyrir að flytja nokkra fyrirlestra í háskólanum á ári. Einnig finst mjer að ætla megi, að háskólinn hefði síður átt heimtingu á þessu embætti heldur en t. d. búnaðarskólarnir. Við slíka skóla virðist mjer þessi kensla hefði átt að bera einhvern ávöxt, því búnaðarskólarnir búa menn undir hið verklega líf.

En svo er rjett að athuga, hvern árangur þessi kensla hefir borið, og hver hefir reynslan þá orðið? Eftir því, sem jeg veit best, þá hefir áheyrendum þessa prófessors fækkað svo ár frá ári, að nú er aðalerindi hans í tímana að fullvissa sig um, að kenslustofurnar sjeu tómar og bekkirnir auðir. Stúdentarnir hafa engan áhuga á hinni hagnýtu sálarfræði.

Þetta hefir valdið prófessoruum mestu leiðinda, eins og von er, því að hann er maður á ljettasta skeiði og áhugamikill. Og til þess að reyna að bæta úr þessu og fjölga áheyrendum, hefi jeg heyrt, að hann hafi jafnvel neyðst til að lesa fyrir stúdentum óskylda grein sálarfræðinnar, svo sem glæpamannasálarfræði. Jeg er ekki að segja þetta þessum heiðursmanni til lasts; það er ekki nema von, að hann þreytist, og grípi þá til einhverra örþrifaráða, en svo hefi jeg líka fyrir satt, að aðsókn í þessa tíma hafi líka orðið mjög endaslepp. En það, sem mjer þykir verst við stofnun þessa embættis og rekstur þess frá öndverðu, er það, að hin verklega kensla prófessorsins í vinnuvísindum úti um landið hefir minkað ár frá ári.

Og nú verður mjer að spyrja: Getur nú ekki komið til mála að leggja niður þetta embætti? Og hefir þjóðin ekki meira að gera við sitt litla fje heldur en viðhalda embætti, sem eftir fárra ára reynslu sýnir, að óþarft er með öllu? Og er ekki rjettara að breyta um í tíma, á meðan maðurinn er á ljettasta skeiði? Því jeg efast alls ekki um, að gáfum og starfskröftum þessa alkunna heiðursmanns mundi sannarlega betur varið til annars gagnsmeiri starfa fyrir þjóðina.

Það eru því sömu ástæður fyrir þessu frv. og hinu, sem næst var afgreitt á undan. Embætti þetta var upphaflega stofnað af lítilli forsjá og hefir reynst óþarft og gagnslaust.

Nauðsyn þjóðarinnar og fjárþröng ríkissjóðs heimtar, að öll óþarfa embætti sjeu lögð niður. Og það á vera hverjum einasta þm. ljóst, að hagur þjóðarinnar verður að skipa öndvegið í hverju einasta máli.