21.03.1922
Neðri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í C-deild Alþingistíðinda. (1238)

46. mál, afnám kennaraembættis í hagnýtri sálarfræði

Bjarni Jónsson:

Það var gott, að hann nefndi „komediu“, þessi hv. sparnaðarmaður (S. St.), sem nú settist niður, því hann er einmitt sjálfur höfuð-„komediant“ deildarinnar, eins og jeg skal þegar færa rök fyrir.

Hann sagði enga þörf á þessum tveim embættum, sem nú er á dagskrá að skera niður, en jeg mun nú sanna, að full þörf er á því embættinu, sem nú er um rætt. Af hinu hefi jeg ekki skift mjer annað en það að greiða atkv. á móti fyrirsögn þess ágæta frv. En svo er nú um starf þess manns, er aftekinn var, að grísku og latínu verður að kenna eftir sem áður, og eitthvað verður að borga fyrir kensluna. Og hvað sparast þá, þegar við lausakensluna bætast eftirlaun þess mannsins, sem af var tekinn? Það er reikningsdæmi handa þeim, þessum sparnaðarfjármálavitringum.

Við slíka ráðstöfun sem þessa mundi landið spara sjer það að þurfa að taka við vinnu mannsins, en borga fyrir það jafnmikið og á meðan maðurinn vann fyrir launum sínum.

Þetta er sparnaðurinn.

Þetta er að leika gamanleik, og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) má vita, að þótt hann sje hlaupinn úr sæti sínu, þá spyrst það til Norður-Ísfirðinga, hvernig hann leikur.

Hann sagði líka, að haldnir væru allir samningar við þessa menn, og er það alldrjúglega mælt í garð Guðmundar Finnbogasonar, sem allir dómstólar myndu dæma, að svikin væru loforð á, því þetta embætti, sem um er að ræða, er við hans nafn bundið.

Jafnvel þótt Alþingi ákvæði að greiða Guðm. Finnbogasyni full laun, þá bregður það loforði við hann samt. Honum var veitt þetta embætti til þess að hann fengi þar að starfa og njóta sín, og það er það, sem hann vill gera einnig framvegis. Þetta frv. er því svo langt frá því að vera efndir á loforðum þingsins, er það gaf þegar embættið var stofnað, að það eru miklu fremur svik af versta tagi.

Jeg býst að vísu við, að þótt þetta þing láti sjer sæma að svifta þennan ágæta mann tekjum sínum, og þótt því tækist það, að hann deyi ekki fyrir það úr hungri, en slík óorðheldni sem þetta er ekki sæmandi neinum einstökum manni, hvað þá Alþingi Íslendinga. En ef hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) telur rjett og sæmilegt, að Alþingi verði talinn sá aðili, sem verst heldur orð sín, þá hann um það og þeir hv. þingm., sem honum fylgja að málum. En hitt veit jeg, að bændur kjósa ekki það orð á Alþingi, að það haldi ekki gefin loforð. Og hann má vera viss um, að svona mál frjettist, og mun hvergi mælast vel fyrir.

Þá þarf jeg einnig að reka ofan í hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) illmæli nokkur um Guðm. Finnbogason, er hann ljet falla við 1. umr. þessa máls. Hann sagði, að aðalstarf þessa manns við háskólann væri að koma þangað til þess að fullvissa sig um, að kenslustofurnar væru tómar. Þetta eru hörð orð um fjarverandi mann, jafnvel þótt sönn væru. En harðari eru þau samt, þar sem enginn flugufótur er fyrir þeim, eins og jeg brátt mun sanna, og ekki síst þar sem það er bæði þingöldungur og prestur, sem ber sjer þau í munn. Og það gæti orðið honum hættuspil, ef það frjettist, og það mun frjettast, að hann hafi skrökvað á saklausan mann hjer í deildinni.

Jeg skal nú, til þess að sanna mál mitt, gefa stutt yfirlit yfir starf Guðm. Finnbogasonar síðan hann var skipaður í embættið:

Ár 1917–18: a) Las með nemendum guðfræðideildar trúarbragðasálarfræði, og lagði þá til grundvallar „Varieties of religious Experience“, og hafði 7–8 áheyrendur stöðugt. — b) Hafði sálarfræðitilraunir, með sama nemendafjölda. — c) Hjelt almenna fyrirlestra um gáfnapróf fyrir fullu húsi. — d) Hjelt almenna fyrirlestra um fagurfræði, er hafa komið út og kallast: Frá sjónarheimi.

Ár 1918–19: a) Las hann með stúdentum og hjelt fyrirlestra um frásögn og vitni (Psykologie der Aussage), og hafði ávalt 7–8 áheyrendur, enda er lögfræðingum svo að segja lífsnauðsyn að kynna sjer slíkt og þekkja það. — b) Hjelt almenna fyrirlestra um sálarfræði námsins fyrir fullu húsi. — c) Hafði æfingar með stúdentum í notkun bóka og bókasafna, og voru þær æfingar mjög vel sóttar. — d) Kendi stúdentum um samband sálar og líkama og lagði til grundvallar „Body and Mind“ eftir McDougall, og mun þar aldrei hafa haft færri en 10 áheyrendur.

Ár 1919–20: a) Hjelt almenna fyrirlestra um skipulag vinnunnar, vel sótta að vanda. — b) Hjelt áfram að lesa með stúdentum „Body and Mind“. — c) Veitti lögfræðingum kenslu í glæpamannasálarfræði, þeirri grein, sem hv. frsm. (S. St.) hjelt ekki vera hagnýta sálarfræði. En flestir hv. þm. munu kunna skil á því, að þetta er sálarfræði, og það sálarfræði, sem öllum dómurum er nauðsynlegt að kunna, þótt hv. frsm. viti ekki slíkt.

Ár 1920–21: a) Hjelt almenna fyrirlestra um áhrif veðráttu og loftslags á sálarlíf manna, sem hann hefir síðan gefið út sem fylgirit háskólabókarinnar. Hafði hann fult hús að vanda. — b) Hafði sálarfræðitilraunir og gáfnapróf með nokkrum stúdentum háskólans. — c) Las aftur með stúdentum trúarsálarfræði og lagði til grundvallar „Varieties of religious Experience“, sömu bók sem 1917–18.

Nú heldur hann fyrirlestra um samlífið og þjóðarandann, og hefir mikla aðsókn. Einnig hefir hann tilraunir með einu kandidatsefni og kennir honum tilraunasálarfræði o. fl.

Þá heldur hann og fyrirlestra: Yfirlit yfir hagnýta sálarfræði.

Það er svo langt frá því, að orð hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) sjeu sönn, að altaf hefir verið mikil aðsókn til þessa manns og að sumum fyrirlestrum hans hefir hún verið afarmikil.

Út af þeim reikningi, sem færður hefir verið fram hjer í Nd. um það, hve fáir sjeu fastir nemendur hjá þessum manni, vil jeg minna á það, að við erlenda háskóla, sem eru mörgum sinn um stærri, eru oft fáir nemendur. Skal jeg geta þess, að kennarinn í slafneskum málum í Kaupmannahafnarháskóla hafði um tíma að eins 2 nemendur, og var annar þeirra Íslendingur. Og þegar jeg gekk til grískuæfinga undir próf, vorum við að eins 6 saman. Jafnvel við slíkt háskólabákn sem Berlínarháskóla, eru oft ekki meira en 15–16 nemendur viðstaddir fyrirlestra, sem, eru sjerstaklegs efnis.

Jeg vil bæta því við, að þótt svo hefði mátt segja, að embættið hafi ekki verið nauðsynlegt, þegar það var stofnað, þá verður slíkt ekki sagt nú, þar sem háskólinn er búinn að setja reglugerð um próf í þeirri grein, sem þessi maður kennir. Og þó að ekki sje þar nema einn nemandi nú sem stendur, þá geta þeir fljótlega orðið fleiri. Er ekki ólíklegt, að efnaðir menn, sem ekki kæra sig um að lesa til embættis, muni einmitt lesa í þessari deild, sjer til menta, og jafnvel taka þaðan próf.

Jeg hygg, ef frv. háttv. sparnaðarnefndar verður samþ., að þá megi ætlast til þess, að háskólinn fari að gefa út bækling með sama titli og einhver sjúklingur á Vífilsstöðum, sem kallar sig Holt. Rit hans hjet „Stýfðir vængir“. Sparnaðarnefndin vill stýfa af háskólanum fjaðrirnar. Og fulltrúar þjóðarinnar láta sjer sæma að horfa á og rjetta hönd að því göfuga verki.

Þá sagði hv. frsm. (S. St.), að Guðmundur Finnbogason hefði ekkert gert fyrir vinnubrögð í landinu síðan hann varð prófessor. Jeg veit, að þetta eru ósannindi hjá hv. frsm. (S. St.), og jeg hygg, að það sjeu vísvitandi ósannindi. Jeg hefi hjer í höndum „Lögrjettu“ frá 1918, þar sem er grein um móvinslu eftir þennan mann og Gísla Guðmundsson. Er það stórmerkileg grein. Og ef hv. þm. halda, að hún sje heimska ein, af því að hún er eftir íslenska menn, þá vil jeg benda á, að í Noregi hafa menn síðar gert þessar sömu uppgötvanir, sem getið er um í greininni. Árið eftir samdi hann leiðbeiningar um kappslátt og gekst fyrir kappsláttumótum á ýmsum stöðum. Þá dvaldi hann og um tíma á Siglufirði og rannsakaði aðferðir við síldarvinnu, og skrifaði bækling um það efni.

Árið 1920 ritaði hann í Skírni ítarlegar greinar um ráðningaskrifstofur og um kapp og met. En síðastliðið sumar gat hann ekki sint þessu starfi, vegna þess, að hann hafði þá ærið að starfa í mentamálanefndinni. Nú er því starfi lokið, enda hefir Guðmundur nú komist að samningum við Fiskiþingið og útgerðarmannafjelagið um að þau hvort um sig, skipuðu einn mann til þess, ásamt honum (Guðmundi), að rannsaka alla fiskvinnu á landinu. Hafa fjelögin orðið vel við þessari málaleitun og skipað þá Jón Bergsveinsson og Þorgeir Pálsson í þessa nefnd.

Jeg endurtek það því, að hv. þm. N.-Ísf. hefir farið með vísvitandi ósannindi, einnig um þessa hlið á starfsemi Guðmundar Finnbogasonar. (Forseti hringir.) Jeg veit ekki til, að jeg hafi hagað mjer hjer óþinglega á nokkurn hátt. En þótt hv. þm. vilji ekki hlusta á sannleikann í þessu máli, þá vona jeg, að skrifarar hafi náð svo orðum mínum, að hægt sje af þeim að sanna, að á hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) sje hjer borin lögmæt sök.

Jeg er sannfærður um, að þeir hv. þm., sem greiða atkv. með afnámi þessa embættis, gera það á móti einhverri skárri rödd í brjósti sínu, því að það eru svik við þennan mann, svik, sem hljóta að frjettast og setja blett á þetta þing og þá menn, sem hafa ljeð þessu atkv. sitt.