03.04.1922
Efri deild: 35. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í C-deild Alþingistíðinda. (1247)

46. mál, afnám kennaraembættis í hagnýtri sálarfræði

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Jeg er sammála hv. þm. Snæf. (H. St.) um það, að óþarfi sje að vísa þessu máli til nefndar. Hitt er annað mál, hvort afnema beri þetta embætti. Það er nú svo, að hægara er að stofna embætti, enda oft gálauslega gert, heldur en að leggja þau embætti niður, sem þegar hafa verið stofnuð. Þetta embætti hefir verið veitt upp á nafn, og því er alveg óvíst, hvort nokkuð er hægt að spara með því að leggja það niður. Jeg býst við, að sá maður, sem í því situr nú, geti haldið launum sínum áfram. Það er hægt að banna honum að kenna í háskólanum, en ekki hægt að banna honum að taka launin.

Jeg greiði atkv. bæði móti nefnd og móti frv.