03.04.1922
Efri deild: 35. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í C-deild Alþingistíðinda. (1250)

46. mál, afnám kennaraembættis í hagnýtri sálarfræði

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg get lýst yfir því, að jeg ber í raun og veru virðingu fyrir störfum hv. sparnaðarnefndar. En á hitt verð jeg þó að líta, að mjer finst hún eigi verið hafa sem hepnust í störfum sínum og tillögum. Hún hefir höggið strandhögg hingað og þangað, og till. hennar hefir slegið niður úr háa lofti.

Jeg lít nú svo á, að starf sem hennar sje ekkert áhlaupaverk, og ilt sje að taka svona mál út úr samhengi. Tel jeg því heppilegast, að því sje vísað til stjórnarinnar, þar sem hún hefir lýst yfir því, að hún sje fylgjandi fækkun embætta. Fer þá um þetta mál líkt og fór um annað mál samskonar í Nd. Tel jeg það heppilegustu úrslit málsins.