27.02.1922
Neðri deild: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í C-deild Alþingistíðinda. (1259)

31. mál, kosning þingmanns fyrir Hafnarfjarðarkaupstað og skipting Gullbringu og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Flm. (Einar Þorgilsson):

Ástæðurnar fyrir þessu frv. eru nægilega teknar fram í greinargerðinni. En vegna þess að nokkrar breytingar hafa orðið í kjördæminu síðan gildandi fyrirkomulag komst á, skal jeg láta nokkur orð til skýringar fylgja frv. úr hlaði.

Þá höfðu Gullbringu- og Kjósarsýsla óskiftan fjárhag og Hafnarfjarðarkaupstaður var ekki til. Við Hafnarfjörð var þá að eins samnefnt kauptún með 3–4 hundruð íbúum. Atvinnuvegurinn var útgerð með opnum bátum frá hausti til sumars, en á sumrin smáþilskipaútgerð.

Nú er Hafnarfjarðarkaupstaður næststærsti kaupstaður á landinu, þegar Reykjavík er undanskilin. Áhugamál Gullbringu- og Kjósarsýslu og Hafnarfjarðarkaupstaðarbúa eru á mörgum sviðum ólík nú orðið og mjög ólík því, sem þau voru fyr, þar eð atvinnuvegir hafa breyst, einkum í Hafnarfjarðarkaupstað. Þar eru nú allmargar verslanir og atvinnuskifting, svo sem fjölment verkamannafjelag og fleiri atvinnustjettir, sem ekki eru svo teljandi sje í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Ástandið er nú eins ólíkt og framast má verða því, er þá var, er lögin voru sett, sem nú eru í gildi um kjördæmaskiftinguna.

Kjósendur, einkum í Hafnarfirði, hafa krafist þess á þingmálafundum, að hv. Alþingi skifti kjördæminu, svo sem farið er fram á í þessu frv., Hafnarfjörður fái sinn þingmann, en Gullbringu- og Kjósarsýsla hvor sinn þm. fyrir sig.

Jeg býst við, að frv. þetta sæti andmælum, einkum af því að það baki ríkissjóði aukin útgjöld. Jeg skal ekki bera á móti því, en jeg vona, að hv. þd. líti svo sanngjarnt á þetta mál, að eigi beri að setja það fyrir sig, með tilliti til annara kaupstaða landsins, sem allir hafa sjerstakan þm. fyrir sig og flestir eru, eins og jeg hefi áður tekið fram, miklu fólksfærri.

Og þó að menn vilji fækka starfsmönnum og minka útgjöldin sem mest, mætti spara alþingiskostnaðinn, sem þessu næmi, á öðrum sviðum.

Önnur mótbára, sem jeg býst við að komið verði með, er, að nú standi til að gerbreyta kjördæmaskiftingu landsins, með því að í þál.till. frá 1920 er ætlast til, að stjórnin taki til athugunar, hvort gerlegt sje að fækka kjördæmunum og viðhafa hlutbundnar kosningar. En þá mótbáru ætti ekki að taka til greina, því þótt þetta frv. næði fram að ganga og bætt yrði við einum þm. fyrir Hafnarfjarðarkaupstað, gæti það út af fyrir sig aldrei orðið til neinna óþæginda, þótt að því ráði væri horfið að gerbreyta kjördæmaskiftingunni. En með því að ekkert hefir verið gert í því máli enn, og líklegt, að það dragist um nokkur ár, er krafa sú, sem í frv. felst, hygð á mestu sanngirni.

Jeg vona, að frv. verði vísað annaðhvort til fjárhagsnefndar eða allsherjarnefndar; stendur á sama, hvor þeirra fær það til meðferðar.

Við frv. hefir komið fram brtt. á þskj. 38, en jeg ætla ekki að fara orðum um hana að þessu sinni, því hún hnekkir ekki framgangi málsins.