21.03.1922
Neðri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í C-deild Alþingistíðinda. (1264)

31. mál, kosning þingmanns fyrir Hafnarfjarðarkaupstað og skipting Gullbringu og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Jón Baldvinsson:

Háttv. flm. þessa frv. og frsm. minni hl. allshn. (E. Þ.) er veikur í dag og getur því ekki mælt fyrir frv. sínu. Hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) hefir nú lítils háttar minst á rjettarkröfu Hafnarfjarðar til þess að hafa þm., og vildi jeg taka í þann streng líka.

Það er engin ástæða gegn þessu frv., þó að talað hafi verið um að endurskoða alla kjördæmaskipun landsins. Það er aldrei rjett að fresta því að gera rjett. Þar við bætist og, að fyrverandi forsrh. (J. M.) taldi nokkrum vandkvæðum bundið að koma þeirri endurskoðun fram.

Hafnarfjörður er nú orðinn einn af stærstu kaupstöðunum, næstur Reykjavík að stærð, og er í örum vexti. Hann er þannig í sveit settur, að menn hafa þar alls eigi sömu áhugamál og aðrir íbúar kjördæmisins.

Hjer er um ekkert annað að ræða en fullkomið sanngirnismál og rjettlætis, og jeg vona, að hv. deild hafi ekkert annað fyrir augum, þegar hún nú fellir atkv. um þetta mál.