21.03.1922
Neðri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í C-deild Alþingistíðinda. (1271)

31. mál, kosning þingmanns fyrir Hafnarfjarðarkaupstað og skipting Gullbringu og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Jón Baldvinsson:

Hv. 2. þm. N.-M. (B. H.) hafði ekki trú á því, að niðurstaðan mundi verða neitt betri, þó að þm. yrði fjölgað, en hann verður að gæta þess, að viðfangsefnum fjölgar stöðugt, og mörg stór vandamál bætast við, svo að ekki er óeðlilegt, þó að þm. fjölgaði, og þegar gætt er hinna auknu starfa þingsins á síðustu árum, hygg jeg, að ekki verði sagt með nokkrum sanni, að þm. starfi minna eða ver en áður.

Jeg skal leiða hjá mjer að tala um einmenningskjördæmin, sem hv. þm. (B. H.) var svo hrifinn af, en rjettara hygg jeg, að kjördæmin sjeu höfð fá, en stór.

Afstaða hæstv. forsrh. (S. E.) þótti mjer leiðinleg, og ekkert nefndi hann, að stjórnin mundi gera gangskör að því að endurskoða kjördæmaskipunina. Fyrv. stjórn gerði ekkert í því, en jeg vona nú samt, að þessi hv. stjórn geri betur en ætla mátti af orðum hæstv. forsrh. (S. E.) og leggi fyrir næsta þing breytingu á kjördæmaskipuninni, sem bæti úr verstu göllunum á núverandi skipulagi.