21.03.1922
Neðri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í C-deild Alþingistíðinda. (1274)

31. mál, kosning þingmanns fyrir Hafnarfjarðarkaupstað og skipting Gullbringu og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Jakob Möller:

Jeg er sammála háttv. 2. þm. N.-M. (B. H.) um það, að vafasamt sje, hvort betri niðurstaða í málum fáist, þó að fjölgað væri þm. En það er ekki þetta, sem hjer er um að ræða, heldur hitt, hvort gefa eigi einstökum landshlutum sama rjett til áhrifa í þinginu sem öðrum.

Það hefir verið viðurkent með kjördæmaskiftingunni nú, að hvert lögsagnarumdæmi eigi rjett til að vera kjördæmi út af fyrir sig. Var og slegið mjög á þá strengina, er frv. um fjölgun þm. fyrir Reykjavík var borið fram, að til þess væri ekki full ástæða, vegna þess, að um nýtt, sjálfstætt kjördæmi væri ekki að ræða, en fólksfjöldinn einn gæti ekki komið til greina.

Nú eru Hafnarfjörður og Siglufjörður sjerstök lögsagnarumdæmi og hafa því sömu rjettlætiskröfu til að vera sjerstök kjördæmi eins og hin. Hv. þm. eru því ekki í samræmi við sjálfa sig, ef þeir fella þetta frv. Er það fullkomlega rjettmæt krafa, að þessir kaupstaðir fái þm. En þyki ekki fært að skifta. Gullbringu- og Kjósarsýslu, þá þarf ekki að gera það, heldur einungis fella 2. gr. frv., því að þá er Hafnarfirði trygður 1 þm., án þess að sýslunni sje skift í tvö kjördæmi. Mæli jeg fyrir mitt leyti eindregið með því, að Hafnarfjörður fái þm. Hann hefir fullan rjett til þess sökum mannfjölda. Hann er nú orðinn svo mannmargur, að hann á að því leyti meiri rjett til sjerstaks þm. en að minsta kosti tveir kaupstaðir aðrir, sem nú eru sjerstök kjördæmi, að engar líkur eru til þess, að hann verði innlimaður aftur í annað kjördæmi, þótt kjördæmaskiftingin yrði endurskoðuð. Og sama má raunar segja um Siglufjörð líka. — Einn háttv. samþm. minn gat þess við mig hjerna á dögunum, er þetta frv. kom fram, að nú væri tækifæri fyrir okkur þm. Reykv. að fá þm. fjölgað hjer í Rvík. Jeg andmælti því þá og gat þess, að það mundi verða til þess að spilla fyrir þessu frv., því að maður veit, að hið háa Alþingi vill heldur smáskamta rjettlætið en veita það alt í einum skerf. En annars er jeg hræddur um, að hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) hafi gert Siglfirðingum og Hafnfirðingum bjarnargreiða með því að bera fram brtt. sína um Siglufjörð nú á þessu þingi, því að mig grunar, að það verði frv. að falli. En jeg mun greiða atkv. með því.