21.03.1922
Neðri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í C-deild Alþingistíðinda. (1275)

31. mál, kosning þingmanns fyrir Hafnarfjarðarkaupstað og skipting Gullbringu og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Stefán Stefánsson:

Það eru að eins nokkur orð út af ræðu háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.). Hann gat þess, að sjá mætti ráð við því, að Gullbringu- og Kjósarsýsla væru gerðar að tveimur kjördæmum, en það væri að fella 2. gr. þessa frv. En mjer skildist á framsöguræðu hv. flm. þessa frv. (E. Þ.), við 1. umr. þessa máls, að það væri áhugamál Gullbringu- og Kjósarsýslubúa, að sýslufjelögin skiftist í tvö kjördæmi. Jeg hygg því, að honum væri gerður bjarnargreiði með því að fella 2. gr. þessa frv., svo jeg viðhafi orð hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.). Jeg hygg, að hann mundi heldur taka frv. aftur en þannig væri farið með það, því að hann lagði mjög mikla áherslu einmitt á þetta atriði.